Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:03:49 (1405)

1996-11-19 18:03:49# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Rétt er að geta þess að þó að með þessu frv. fylgi greining fjmrn. á kostnaðarminnkun hjá ríkissjóði tel ég rétt að taka fram að ég vil hafa allan fyrirvara á því. Ég efast stórlega um að á næsta ári muni verða svo mikil kostnaðarminnkun við sjóðinn.

Hins vegar er ég alveg handviss um að mjög mikil kostnaðarminnkun mun verða af allt öðrum ástæðum en fjmrn. greinir, einmitt vegna þess að á næstkomandi árum, þegar menn beina athygli sinni að því og vinna skipulega að því að koma hinum atvinnulausu í vinnu og þeim sem vilja vinna og geta unnið en eru í þeirri hörmulegu stöðu að fá ekki vinnu, þá mun það minnka kostnað þessa samfélags stórkostlega við að útvega þeim vinnu. Það kann að vera rétt hjá hv. þm. að þarna sé um að ræða tilflutning á kostnaði, að verið sé að færa fjármuni frá Atvinnuleysistryggingasjóði á næstu árum yfir í hið félagslega kerfi. Ég held að það sé rétt hjá hv. þm. Það er ekki gert vegna þess að verið sé að hugsa þá hugsun að sveitarfélögin eigi að taka á sig meiri bagga. Það er verið að hugsa þá hugsun fyrst og fremst vegna þess að ekki fer saman sú umönnun sem atvinnulaust fólk þarf á að halda og þeir sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda. Þess vegna er rétt að kalla hlutina sínum nöfnum. Atvinnulausir eru meðhöndlaðir sem atvinnulausir. Við verðum að beita allt öðrum ráðum við þá sem eiga við hin margvíslegu félagslegu vandamál að stríða. Þess vegna er það.