Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:05:59 (1406)

1996-11-19 18:05:59# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:05]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Samkvæmt frv. til fjárlaga fyrir næsta ár segir, með leyfi forseta: ,,Stefnt er að því að ná fram 128 millj. kr. sparnaði hjá sjóðnum með endurskoðun á starfsemi hans og úthlutunarreglum.`` Þetta eru þau markmið sem er verið að setja og ég hef gengið út frá því að það frv. sem við erum að ræða sé miðað við að ná þessum sparnaði. Það kann hins vegar rétt að vera hjá hv. þm. að það nái ekki fram að ganga.

Þeir sem eru atvinnulausir og eru í atvinnuleit eru útgangspunkturinn í þessari lagasetningu. Við erum að tala um það fólk sem hefur misst vinnu eða er að koma út á vinnumarkaðinn og er raunverulega í atvinnuleit, það er ákveðinn hópur. Síðan er auðvitað annar hópur, t.d. þeir sem hafa lent í því að vera atvinnulausir lengi. Þeir geta verið orðnir mjög illa á sig komnir félagslega og fólk missir sjálfsálitið, sjálfsvirðinguna og lendir jafnvel í óreglu og guð má vita hvað. Margt getur gerst enda vitum við að atvinnuleysi er afar erfitt þeim einstaklingum sem í því lenda. En hvar eru þessi mörk? Það er það sem við erum kannski að glíma við, hvenær er einstaklingurinn og hver úrskurðar hann öðru hvorum megin, sem sagt að hann eigi að leita til sveitarfélaganna og hvað þýða þessar lagabreytingar sem við erum hér að ræða í þessu samhengi? Það er verið að afmarka atvinnuleysistímann við fimm ár og við spyrjum hér: Hvað þýðir þetta fyrir þá sem eru í eldri kantinum? Við erum að tala um að þrengja neðri mörkin fyrir þá sem eru á aldrinum 16--18 ára. Hvað þýðir það fyrir þann hóp? Erum við t.d. að senda einhvern hóp á bilinu 16--18 ára inn í félagslega kerfi sveitarfélaganna? Ég held að það sé ekki æskilegt.