Atvinnuleysistryggingar

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 18:09:35 (1408)

1996-11-19 18:09:35# 121. lþ. 27.7 fundur 171. mál: #A atvinnuleysistryggingar# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[18:09]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Menn hafa farið vítt um frv. og um víðan völl, reynt að tína til það sem þeim hefur getað dottið í hug að gæti verið ábótavant eða hægt að finna að og ég treysti því að búið sé að minnast hér á öll þau atriði sem nokkur leið væri að krítísera. Sumt af þessari krítík hefur verið stutt einhverjum rökum því að hér er um álitamál að ræða sem hægt er að haga með ýmsum hætti. En sumt af því hefur verið byggt á misskilningi og jafnvel á hótfyndni.

Varðandi þetta fimm ára tímabil sem menn hafa gagnrýnt hér var það tillaga bæði hv. þm. Ögmundar Jónassonar og varaforseta ASÍ, Hervars Gunnarssonar, að hámarksbótatímabilið yrði fimm ár. Meiri hluti nefndarinnar lagði til að það yrði þrjú ár. Mér fannst það vera nokkuð stórt stökk frá 54 árum niður í þrjú og kaus heldur að fara á flot með frv. með fimm árum í. Þessi fimm ár voru ekki mín hugmynd. Það var hugmynd þeirra hv. þm. Ögmundar Jónassonar og Hervars Gunnarssonar.

Hv. 5. þm. Reykn. spurði hverjir fá rétt og vitnaði þá til 1. gr. hverjir það væru sem fengju rétt. Það eru námsmenn og það eru t.d. heimavinnandi sem geta keypt sér rétt í sjóðnum með því að greiða iðgjald. Það er hugmyndin að slíkir aðilar geti fengið rétt í sjóðnum með iðgjaldagreiðslu. Innan þessa ramma hefðu líka getað fallið sjálfstætt starfandi og bændur, smábátasjómenn og vörubílstjórar. Ákveðið var að það væri skynsamlegra að taka þá út úr sjóðnum og setja sérstakan sjóð, tryggingasjóð einyrkja, upp fyrir þá. Því máli er þannig háttað, og kem ég þá til með að svara hv. þm. Svavari Gestssyni, að frv. er tilbúið í félmrn. Verið er að vinna að greinargerð frv. og nefndarstarfi er að ljúka um þá niðurstöðu. Síðan þarf það frv. að fara í fyrsta lagi í tryggingafræðilega úttekt. Ég þori ekki að fara á flot með það mál nema tryggingafræðileg úttekt liggi fyrir á hugmyndinni og síðan fari það í kostnaðarmat og náttúrlega sinn gang fyrir þingið. Það mál verður á borðum þingmanna áður en hitt frv. verður afgreitt, það er deginum ljósara, en sjálfsagt ekki fyrr en í desember héðan af. Ef það gengur ekki eftir yrði að breyta þessu frv. ef það frv. ætti ekki að ná fram að ganga eða ég hefði ekki tryggingu fyrir því að það næði fram að ganga því að ég ætla ekki að yfirgefa það mál öðruvisi en koma því í höfn.

Hvernig verða þær reglur sem settar verða? Það er rétt að dálítið reglugerðarvald er í þessu frv. Þó er ekkert hjá því sem maður hefur stundum horft upp á. Ég er ekki tilbúinn að segja hvernig þær yrðu í smáatriðum vegna þess að stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, sem er ekki búið að skipa, á að gera tillögur að því og ég get ekki farið að gefa henni forskrift um það hvernig þær eigi að vera. En t.d. hvað varðar 16--18 ára og reyndar í öllum þeim tilfellum þar sem gert er ráð fyrir reglugerðarákvæðum, tel ég einboðið að það verði að setja reglur um það. En ég get ekki sagt í smáatriðum hvernig stjórn sem ekki er búið að skipa kemur til með að vilja hafa reglurnar. Ég hef varpað fram þeim hugmyndum að óhjákvæmilegt sé annað en veita rétt t.d. þeim nemendum eða unglingum sem geta ekki stundað nám af einhverjum ástæðum og líka unglingum sem eru búnir að stofna heimili.

[18:15]

Ég lít svo á að að þessum lögum samþykktum um vinnumarkaðsaðgerðir og atvinnuleysistryggingar sé torveldara að misnota atvinnuleysistryggingarnar. Gerð hefur verið athugun í a.m.k. einu sveitarfélagi sem ég veit um á hugsanlegri misnotkun atvinnuleysisbóta og það er niðurstaða þeirrar athugunar að nokkuð sé um svarta vinnu þ.e. fólk sem er á atvinnuleysisbótum vinni að einhverju marki og hafi talsverðar tekjur sem ekki komi fram. Ekki er um neinn gífurlega stóran hóp að ræða en þetta fyrirfinnst. Það er líka niðurstaða þeirrar athugunar að á atvinnuleysisskrá sé nokkuð af fólki sem ekki er vinnufært og þannig að heilsu búið eða ástatt um að það geti ekki unnið.

Ekki er mikill sparnaður í þessu frv. eða við þessar skipulagsbreytingar enda var það ekki hugmyndin og ég fer ekki á flot með þetta til að spara neitt sérstaklega fyrir Atvinnuleysistryggingasjóð. Atvinnuleysistryggingasjóður hefur verið með veltu upp undir fjóra milljarða en sem betur fer eitthvað minna núna. Í kostnaðarmati, sem ég tek fram að er frá fjmrn., má lesa, með leyfi forseta: ,,Samantekið má ætla að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, muni leiða til 185--205 millj. kr. sparnaðar þegar það er að fullu komið til framkvæmda á árinu 2000.`` Og síðan segir: ,,Frá þessum sparnaði dregst aukinn kostnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna útvíkkunar á rétti sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysisbóta eða myndunar sérstaks sjóðs fyrir þá sem gæti numið á bilinu 75--150 millj. kr.``

Sparnaðurinn sem af þessu gæti orðið er mismunurinn á 150 millj. og 200 millj., þ.e. 50 millj. Þetta eru grófar tölur og birtar án ábyrgðar. En það er ekki um stóran hlut að ræða, 50 millj. kr., í þriggja til fjögurra milljarða pakka.

Það er rétt að minna á það þegar menn tala um atvinnuleysi að inni í atvinnuleysistölunum er líka hlutabótafólkið. Í lok október voru á hlutabótum, ef ég man rétt, 866. Það eru langflest konur á aldrinum 20--40 ára og yfirleitt með börn. Það er rétt að hafa það í huga þó að sé 4,4% atvinnuleysi talið í Reykjavík eða skráð, þá er hlutabótafólkið inni í þessu. Sem betur fer fjölgar störfum ört í þjóðfélaginu og út af fyrir sig á stórum svæðum landsins vantar verulega vinnuafl og meira að segja í Reykjavík er talsvert mikið af lausum störfum. Það er mikil eftirspurn eftir vinnuafli og við finnum það glögglega í félmrn. því mikil ásókn er í að flytja inn erlent vinnuafl. Og hér eru að störfum, með leyfi frá okkur, í kringum 1.200 manns og þar fyrir utan er hér töluvert af fólki sem er heimilisfast á Evrópska efnahagssvæðinu og hefur sama rétt til vinnu og við og þarf ekki að biðja um atvinnuleyfi.

Ég neita að fallast á það sem hefur komið fram að hér eigi að vera viðvarandi 4,4% atvinnuleysi. Það er óásættanlegt og ekki ástæða til að búast við því, annað eins framboð og er af störfum núna, að 4% þurfi að vera atvinnulaus. Síðan er hægt að velta því fyrir sér, ef við hugsum um hlutabæturnar, hvort á að borga fólki fyrir að sinna heimilisstörfum. Það er vel hægt að hugsa sér það og hafa nú konur á Íslandi, til skamms tíma, látið sig hafa að vera heima yfir börnum sínum.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir að hægt sé að borga atvinnuleysisbætur allt niður í 25% þ.e. í 75% starfi bæti Atvinnuleysistryggingasjóður við þangað til komið er upp að launaupphæð atvinnuleysisbóta. Menn hafa velt fyrir sér hvers vegna fólk hættir í vinnu án gildra ástæðna og lagði meiri hluti nefndarinnar til að um 72 daga bótalaust tímabil yrði að ræða. Minni hlutinn lagði til 40 daga og ég var nú að reyna vera eins og Salómon og ákvað að stinga upp á 55 dögum og fara milliveginn. Það er að vísu langur tími til að vera án framfærslu, ég viðurkenni það. En viðkomandi getur rekið réttar síns ef hann hefur verið neyddur eða knúinn með einhverjum hætti til að hætta vinnu, t.d. með kynferðislegri áreitni, einelti eða óþolandi móral að öðru leyti á vinnustað, og snúið sér til úrskurðarnefndar atvinnuleysisbóta sem mundi þá meta hans ástæður. Ef hann er ekki fáanlegur til að bera hönd fyrir höfuð sér er ekki þægilegt að hjálpa honum.

Í framhaldi af þessari umræðu um bætur til fólks á aldrinum 16--18 ára vil ég taka fram að í Evrópusambandinu eru mjög strangar reglur um hömlur á vinnu ungmenna á þessum aldri. Og vera kann að við fengjum nótu frá ESA eða Birni Friðfinnssyni um að við færum nú ekki nógu vel eftir Brussel-reglunum ef við færum að gera það að reglu að þeir ættu rétt á atvinnuleysisbótum. Þó að atvinnuleysisbótatímabil sé ekki nema fimm ár sem er yfirleitt, að mínu mati, alveg yfirdrifið nógu langur tími til að vera atvinnulaus, er engum varpað út á guð og gadd. Í fyrsta lagi búum við svo vel að þeir sem eru óvinnufærir eiga rétt á tryggingabótum. Félagsþjónusta sveitarfélaga er alveg afdráttarlaus. Sveitarfélögunum ber skylda til framfærslu ef menn hafa ekki lágmarksframfærslu. Og það er spurning hvort eðlilegt er að láta atvinnureksturinn kosta, í gegnum tryggingagjaldið, framfærslu fólks sem ekki getur unnið.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði nokkurra spurninga. Ég hef reynt að hafa gott samband við launafólk við frágang þessa máls. Ég hef rætt ítarlega við Hervar Gunnarsson hvað eftir annað og hv. þm. Ögmund Jónasson enda heyrðuð þið að ræða hans var jákvæð og miklu jákvæðari heldur en Alþb. Það virðist svo sem óháðir taki þessu máli betur en alþýðubandalagsmenn. (Forseti hringir.) Herra forseti, ég á eftir eina setningu eða tvær. Það hefur ekki verið borið undir ASÍ eða sveitarfélögin en þau áttu fulltrúa í nefndinni sem samdi málið bæði Samband íslenskra sveitarfélaga og ASÍ. Og svo hefur mér ekki dottið í hug að bera það undir VSÍ.