Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:45:43 (1426)

1996-11-19 19:45:43# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:45]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka orð hæstv. ráðherra. Ég vænti þess að hæstv. ráðherra greiði fyrir því og leggi á það nokkra áherslu við fjárlagaafgreiðslu að Landmælingum Íslands verði gert kleift að standa við þann samning sem gerður var milli sveitarfélaga á Héraði og fleiri aðila þar varðandi kortagerð í mælikvarðanum 1:25.000. Enn skortir 7,4 millj. kr. á að Landmælingar hafi möguleika á að ljúka því verki sem þær höfðu samningsbundið sig til. Hér er mikið í húfi, m.a. það sem snýr að skógrækt og fleiri þáttum austur þar og landnotaskipulagi á Fljótsdalshéraði sem miklu skiptir að fari vel úr hendi. En slík verkefni bíða mjög víða og ég ítreka að við þurfum að gera þessari ríkisstofnun, sem við gerum kröfu til um ákveðna grunnþætti, fjárhagslega mögulegt að sinna því, m.a. til þess að aðrir aðilar hlaupi ekki inn í verkefnin vegna þess að stofnunin er fryst úti varðandi eðlilega þróun, tækjabúnað og annað og er ekki fær um að sinna því í eðlilegri samkeppni við þá sem ella gætu boðið. Ég er ekki að segja að það megi ekki til slíkrar samkeppni koma. Auðvitað getur hún átt fullan rétt á sér á ákveðnu sviði.

Við lok þessarar umræðu, hæstv. forseti, get ég ekki látið hjá líða, af því að hér hefur sagnfræði borið á góma, að minnast ánægjulegra stunda fyrir margt löngu sem ég átti með hæstv. forseta og mörgum fleiri vöskum mönnum nálægt straumvötnum Íslands eins og Þjórsá og Tungná, nálægt ,,lands vors titrandi hjarta``.