Landmælingar og kortagerð

Þriðjudaginn 19. nóvember 1996, kl. 19:53:58 (1429)

1996-11-19 19:53:58# 121. lþ. 27.11 fundur 159. mál: #A landmælingar og kortagerð# (heildarlög) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur

[19:53]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka umhvrh. fyrir svar hans hér. Það er alveg rétt sem fram kom í hans máli og ég hef áþreifanlega rekið mig á að það gætir dálítillar tregðu hjá ráðuneytum. Mig undrar það satt best að segja. Ég minnist umræðunnar sem hér fór fram um hugsanlega sameiningu Vitastofnunar og Landhelgisgæslu en í því máli sköruðust verkefni tveggja ráðuneyta, annars vegar dómsmrn. og hins vegar samgrn. Hér er enn einn málaflokkurinn og ég trúi því ekki í allri umræðunni um hagræðingu í rekstri ríkisins að það séu ráðherrarnir sem séu tregastir til þess að vinna að sameiningu ýmissa ríkisfyrirtækja. Ég ætti betra með að trúa því að það væru embættismennirnir sem vildu halda fast um sín embætti og vildu ógjarnan láta nokkurn spón úr sínum aski. En auðvitað gengur það ekki á sama tíma og við erum að gera kröfur til opinberra starfsmanna um hagræðingu og sparnað í ríkisrekstri þá má það ekki henda að ráðherrar láti það yfir sig ganga sem auðsjáanlegt er hvar hægt er að hagræða og betrumbæta í rekstri. Enda þótt flutt séu fyrirtæki á milli ráðuneyta þá trúi ég ekki öðru en hér sé að verða stefnubreyting og verði stefnubreyting í starfi núverandi ríkisstjórnar.