Skrifleg svör við fyrirspurnum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 13:51:22 (1441)

1996-11-20 13:51:22# 121. lþ. 28.95 fundur 105#B skrifleg svör við fyrirspurnum# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur

[13:51]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það hér að auðvitað þarf að gera glöggan greinarmun á því þegar hv. þingmenn spyrja ráðherra út úr, hvort verið er að leita eftir viðhorfum eða skoðunum viðkomandi hæstv. ráðherra eða hvort verið er að leita eftir tölulegum eða efnislegum staðreyndum mála. Þarna verður að gera glöggan greinarmun á.

Í því máli sem hér um ræðir er einfaldlega verið að biðja um tilteknar klárar upplýsingar en ekki meint viðhorf hæstv. ráðherra til þeirra mála. (Fjmrh.: Þetta er rangt.) Þetta er auðvitað alveg hárrétt. (Fjmrh.: Það stendur hérna ...) Ég ætla að biðja hæstv. forseta um að ég fái frið í ræðustóli fyrir hæstv. fjmrh.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að gefa ræðumanni hljóð.)

Ég skil það ósköp vel að hann sé órólegur undir þessari umræðu en svona er veruleikinn. Í besta falli gæti það meinta svar sem hér liggur fyrir passað í blaðagrein en það á auðvitað ekki heima hér að stærstum hluta til sem þingskjal. Þetta er mál sem þingið í heild sinni og þar með forsætisnefnd þarf að ræða, ekki hér á stuttum tíma undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins, heldur gegnumheilt og í öllum stofnunum þingsins.

Þessi samskipti framkvæmdarvaldsins og löggjafarvaldsins þurfa að vera algjörlega skýr hvað sem líður öllum meintum skoðanaágreiningi og fyrirspyrjendur þurfa að geta treyst því að þau svör sem þeir fá séu veitt samkvæmt bestu vitund og samkvæmt bestu upplýsingum en ekki samkvæmt einhverjum sérskoðunum. Það eitt sem hér hefur komið fram að menn skuli tína hér út í sínu svari til að mynda ágætan kaupstað vestur á fjörðum til að sýna fram á tiltekna hluti er svo fjarri lagi að engu tali tekur. Það þarf ekki sérfræðing í félagslega kerfinu eða húsnæðismarkaðnum á Íslandi til að sjá að hér er gersamlega verið að snúa út úr hlutum og koma þeim á hvolf til þess að draga fram einhverjar sérskoðanir hæstv. ráðherra.