Sala á lambakjöti

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:15:59 (1451)

1996-11-20 14:15:59# 121. lþ. 29.1 fundur 117. mál: #A sala á lambakjöti# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:15]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þm. fyrir það að telja að ég hafi reynt að svara nokkuð ítarlega, enda var það meining mín, og segja frá málinu nákvæmlega eins og það þróaðist á sl. hausti og þeim viðhorfum sem komu upp í landbrn. Auðvitað er það ekki góð fyrirmynd að framfylgja ekki lögum, en spurningin er kannski hver á að gera það. Í landbrn. er a.m.k. ekkert lögregluyfirvald og ekkert dómsvald, það eru önnur ráðuneyti sem fara með það. Og það viðhorf sem kom fram bæði í verðlagsgnefndinni og ég reyndi að skýra frá um það að þó að menn gerðu athugasemdir við þessa málsmeðferð þá kom ekki fram nein sérstök ósk fram um það, a.m.k. ekki formleg ósk þó að gerðar hafi verið athugasemdir og málið tekið til umræðu, en engin formleg ósk kom fram um það að breyta öðruvísi en niðurstaða varð um í nefndinni og síðan í kjölfar þess sú afstaða ráðherra að láta kyrrt liggja. Því er það sú niðurstaða sem liggur fyrir í dag, komi ekki eitthvað annað upp af hálfu annarra aðila sem telja sig hafa verið órétti beitta og vilja krefjast þess að öðruvísi verði tekið á málinu.

Ég vil svo að lokum, hæstv. forseti, segja að ég tel í raun, eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda og ég hef reyndar lýst hér yfir áður í umræðum um landbúnaðarmál, markaðsmál landbúnaðar og verðlagningu og samninga við hið opinbera, að við séum á leið til breytinga á þessu formi. Ég hef líka lýst því yfir, sem kannski kann að vera ágreiningsefni innan veggja í þessari hv. stofnun, hversu hratt á að fara í því ferli og hversu stór skref á að stíga. En ég tel að brautin eða leiðin hafi verið mörkuð nokkuð með þeim búvörusamningum sem ég beitti mér fyrir á síðasta ári og voru staðfestar á síðasta löggjafarþingi.