Veðurspár

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:21:56 (1453)

1996-11-20 14:21:56# 121. lþ. 29.2 fundur 123. mál: #A veðurspár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:21]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Það er reyndar erfitt að svara ítarlega eða svo vel sé gert í stuttu máli, fimm mínútum, svo viðamiklum spurningum sem hér eru bornar fram af hv. 4. þm. Austurl. en ég mun gera mitt besta eða reyna það.

Svar við 1. spurningu: Grundvöllur hverrar veðurspár eru athuganir á ástandi lofthjúpsins. Þessum athugunum er safnað saman og unnið úr þeim á kerfisbundinn hátt hjá Veðurstofu Íslands með það fyrir augum að segja fyrir um hvernig ástand muni breytast í næstu framtíð. Þessi úrvinnsla fer þannig fram að langmestu leyti að notuð eru flókin reiknilíkön í öflugum tölvum þar sem varma- og aflfræðilögmálum er beitt til að reikna væntanlegar breytingar.

Niðurstaða: Reiknigildi ýmissa veðurþátta, svo sem þrýstings, raka og vinds við yfirborð jarðar og í háloftum er í daglegu tali nefnd tölvuspá.

Hin eiginlega veðurspá, lýsing á væntanlegum veðrabrigðum, sett fram fyrir notendur sem texti, tölur eða með myndrænum hætti er unnin úr tölvuspánum með hliðsjón af öðrum tiltækum gögnum, svo sem nýjustu veðurathugunum og myndum frá veðurtunglum og veðursjám.

Segja má að lokastig í þróunarferli veðurspár geti verið með tvennum hætti: Annars vegar hlutlægt mat veðurfræðings sem skoðar öll tiltæk gögn og setur niðurstöðurnar fram á þann hátt sem hentar hverju sinni. Og hins vegar tölfræðileg úrvinnsla og niðurstaða sett fram með sjálfvirkum hætti, þó stundum undir eftirliti veðurfræðings.

Ekki eru gerðar langtímaspár hér á landi heldur skammdrægar og meðaldrægar spár, en skammdrægu spárnar gilda í allt að 48 klukkustundir en meðaldrægu spárnar í allt að 10 daga fram í tímann. Spár sem ná lengra fram í tímann en 10 daga kallast langtímaspár.

Veðurstofa Íslands er sem stofnun ábyrg fyrir þeim verkefnum sem þar eru unnin. Forstjóri stofnunarinnar er veðurstofustjóri og ber hann ábyrgð á starfseminni gagnvart umhverfisráðherra.

Svar við 2. spurningu: Mjög erfitt er að sannreyna veðurspár. Jafnvel þótt spáð sé fyrir einstakt spásvæði er veður oft mjög breytilegt innan svæðisins og ekki hægt að ætlast til þess að öllum tilbrigðum sé lýst í ágripskenndum texta sem oftast verður að vera mjög stuttur. Veðurspár fyrir nokkra daga eru gerðar fyrir landið í heild og hljóta því að vera enn erfiðari viðfangs. Gæðaprófun á spám af þessu tagi krefst mikillar vinnu og leggja þarf hlutlægt mat á bæði spár og athuganir og bera þetta tvennt saman á samræmdan og markvissan hátt. Í þessa vinnu hefur ekki verið ráðist af hálfu Veðurstofu Íslands og ljóst er að svo verður ekki á næstu árum. Kemur þar tvennt til. Bæði kostar slíkur samanburður verulega fjármuni og hins vegar er mjög erfitt að fá veðurfræðinga til starfa og mjög fáir leggja fyrir sig veðurfræðinám í dag.

Ýmsar aðrar spár, t.d. spár fyrir einstaka staði settar fram sem spárit eru hins vegar þannig gerðar að auðveldara er að prófa þær. Þessar spár eru bornar reglulega saman við athuganir frá þeim stöðum sem þær eru gerðar fyrir. Spáaðferðirnar eru hins vegar enn í þróun þótt farið sé að nota spárnar og niðurstaða úr prófunum liggur enn ekki fyrir í samræmdu formi. Til að gefa nokkra hugmynd um þessar aðgerðir og samanburð á spám við athuganir vísa ég til skýrslu Veðurstofu Íslands um meðaldrægar spár til Evrópsku veðurreiknimiðstöðvarinnar í Reading á Englandi, en heiti hennar er skammstafað ECMWF, sem gerð var á þessu ári en ætlast er til þess að þær veðurstofur sem nota gögn reiknimiðstöðvarinnar geri árlega grein fyrir hvernig þau eru notuð og hvernig spárnar reynast. Ég er með skýrsluna í höndunum og vil afhenda hv. fyrirspyrjanda hana, en of langt mál yrði að gera henni skil hér.

Svar við 3. spurningu: Veðurstofunni og ráðuneytinu er ljóst að þörf og áhugi er til staðar á veðurspám til nokkurra daga. Alls konar skipulagning og framkvæmdir til sjávar og sveita, ferðaáætlanir og fleira taka mið af slíkum veðurspám. Enn fremur er ljóst að lengri spár, svo sem mánaðarspár sem verið er að gera tilraunir með, bæði í Evrópu, í Evrópsku veðurmiðstöðinni í Reading og víðar geta komið að gagni. Þær spár eru að sjálfsögðu öðruvísi en hinar daglegu spár þar sem þær eru settar fram í líkum á að hver þáttur veðurspár verði yfir eða undir skilgreindu meðalástandi.

Veðurstofan og ráðuneytið gerir sér fyllilega grein fyrir gildi og áhrifum veðurspár. Ætíð verður þó að hafa í huga að ekki má oftúlka spárnar, ekki síst vegna þeirrar tilhneigingar sem gætir að líta á veðurspá sem nákvæma forsögn um komandi veður þ.e. lýsingu á óorðnum veðuratburðum.

Svar við 4. og síðustu spurningu, hæstv. forseti: Eins og áður hefur komið fram eru svokallaðar langtímaspár ekki framkvæmdar hér á landi. Í mörg ár eða allt þar til á fyrri hluta síðasta árs var gerð almenn veðurspá fyrir þrjá daga í senn, en 3. maí 1995 var með breytingu á flutningi veðurfregna í útvarpinu farið að vinna veðurspár fyrir allt að 6 daga fram í tímann. Miðað er við þann dagafjölda sem kannanir frá veðurspárstofunni í Reading sýna að mörkin fyrir því að spá frá degi til dags eru nothæfar, liggja við 6--7 daga. Augljóst er að áreiðanleiki veðurspár minnkar með fjölda daga sem spáð er fyrir og því er eðlilegt að setja síðustu daga spárinnar fram með öðrum hætti en þá fyrstu, enda er það gert.

Ekki liggja fyrir endanlegar ákvarðanir um þetta sem stendur, enda þarf að athuga fleiri þætti í tengslum við veðurspár, bæði fyrir útvarp, blöð og aðra. Þannig gefur sú reynsla sem fengin er af framsetningu veðurspáa til nokkurra daga tilefni til endurskoðunar auk þess sem þróun í spágerð og upplýsingamiðlun almennt er svo ör að sífellt verður að endurskoða þennan þátt.