Veðurspár

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:27:49 (1454)

1996-11-20 14:27:49# 121. lþ. 29.2 fundur 123. mál: #A veðurspár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:27]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin, svo langt sem þau ná, og að eiga von á frekari gögnum. Það eru nokkur atriði til viðbótar eftir að hafa hlýtt á svar hæstv. ráðherra. Það er hvernig staðið er að veðurspá. Gerð var nokkur grein fyrir því í svarinu og að veðurstofustjóri væri ábyrgur fyrir spá hverju sinni gagnvart ráðherra. En ég vildi gjarnan fá að vita hvernig menn vinna þetta innan Veðurstofunnar. Er þetta hópverkefni eða er einn og einn á vakt að fitla við þetta einn? Leggja menn saman þá reynslu sem þarna er til þess að hafa veðurspár sem gleggstar og ábyggilegastar? Það skiptir miklu, ekki síst ef um náttúruvá er að ræða og slæmar veðurhorfur, að sem nákvæmast sé spáð og að því megi treysta.

Varðandi langtímaspá hef ég kannski ekki notað rétt hugtök. Ég hafði í rauninni í huga 6 daga spána þegar ég var að tala um langtímaspá. Hún blasir við mér sem slík miðað við það sem hægt er að reikna með. Ég hef lagt eyra við og oft borið þetta saman og mér finnst fylgnin vera næsta lítil oft og tíðum, ekki síst að sumarlagi þegar maður hlustar kannski meira með tilliti til eigin ferðaáætlana o.s.frv., og mjög valt að treysta þannig að ég hvet til þess að menn endurskoði það hvort ástæða er til að hafa þennan lestur uppi. Þetta mun vera komið allt saman frá Reading í Englandi og endurtekið hér og ég er ekki viss um að það sé sú gagnrýna skoðun á því sem skyldi. Mér finnst að framsetningin gefi tilefni til að ætla að það sé áreiðanlegri forsögn að baki heldur en síðan reynist. (Forseti hringir.) Ég held að það sé mikil ástæða til þess, virðulegur forseti, að reyna að tryggja sem best gæðaeftirlit innan Veðurstofu Íslands eins og auðvitað í öðrum stofnunum þannig að menn læri af reynslunni og haldi sem best á málum. Margt annað fróðlegt kom fram í svari ráðherra en tíminn leyfir ekki umræðu um það.