Veðurspár

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:30:26 (1455)

1996-11-20 14:30:26# 121. lþ. 29.2 fundur 123. mál: #A veðurspár# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:30]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins út af því hvernig staðið er að veðurspánni á stofnuninni þá verð ég að lýsa því yfir að ég hef ekki um það nákvæmar upplýsingar og veit ekki hversu veðurfræðingarnir okkar haga sínu samstarfi eða vinnu á stofnuninni. Mér þykir þó sennilegra, en það er bara persónuleg skoðun, að þessir ágætu menn vinni saman og beri saman bækur sínar a.m.k. þegar þeir hafa tök á því. En svo kann auðvitað að vera að á ákveðnum tímum sólarhrings sé aðeins einn slíkur á vakt og beri þá aðeins einn ábyrgð á spánni. En þetta er algjörlega byggt á hugmyndafræði þess sem hér stendur en ekki á vitneskju frá stofnuninni. En eins og kom fram í svari mínu er starfsemi Veðurstofu Íslands í heild á ábyrgð veðurstofustjóra og þarf ekki að tilgreina það frekar.

Varðandi hugtök þá skiptir það kannski ekki öllu máli, en rétt skal vera rétt, og af hálfu vísindamanna kalla þeir langtímaspá þá spá sem er lengri en 10 dagar, okkur finnst oft 6--10 daga spá vera langtímaspá og spá langt fram í tímann í veðurfari eins og tíðkast hér hjá okkur sem er síbreytilegt og þess vegna sjálfsagt rétt gagnrýni hjá hv. fyrirspyrjanda að upplýsingar sem koma frá veðurspárstofum erlendis geti ekki alltaf sagt til um það hvernig veður og vindar blása í þröngum dölum og fjörðum hér á Íslandi. Ef til vill þyrfti að reyna að skoða það betur af okkar hálfu hvort tök eru á nákvæmari spám fyrir einstaka staði þ.e. minni landfræðileg svæði eða veðurspársvæði eða hvað við köllum það til þess að spárnar gætu verið nákvæmari en þá hygg ég líka að það sé erfiðara að gera þær til lengri tíma hvort sem það er nú skammtímaspá eða meðaldræg spá eins og hér var talað um.