Þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:46:18 (1460)

1996-11-20 14:46:18# 121. lþ. 29.4 fundur 125. mál: #A þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Á þskj. 136 ber ég fram fyrirspurn til hæstv. umhvrh. um þátttöku ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum.

1. Hvaða kröfur telur ráðuneytið að heimaaðilar þurfi að uppfylla um aðstöðu og annan undirbúning áður en heimild fyrir aðild ríkisins að náttúrustofu í kjördæmi er notuð, sbr. II. kafla laga nr. 60/1992?

2. Hvaða ástæður getur ráðuneytið haft til að blanda sér í deilur heimamanna um staðarval fyrir náttúrustofur í kjördæmi?

Tilefni þess að ég ber þessa fyrirspurn fram er að sem betur fer hefur í vaxandi mæli verið notuð sú heimild sem veitt var með lagasetningunni í tilvitnuðum lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur. Þannig hafa risið upp í nokkrum kjördæmum náttúrustofur sem hafa lögbundnum verkefnum að sinna. Þessi þróun hefur verið bærilega ör frá því að lögin voru sett. Hér er um að ræða, þar sem náttúrustofurnar eru, starfsemi sem heimaaðilar bera í raun ábyrgð á, eru rekstraraðilar að þessum stofum, en ríkið leggur til skilgreindan stuðning samkvæmt 10. gr. nefndra laga. Sá ríkisstuðningur er veruleg hvatning og hefur greitt fyrir því að þessar stofur hafa risið ein af annarri undanfarin ár. Ég rakst þann 4. nóv á frétt um það að í Norðurlandi vestra væru uppi deilur um staðsetningu náttúrustofu. Í blaðafréttinni sagði ma.a., með leyfi forseta: ,,Umhvrn. hefur ákveðið að þriggja manna starfshópur verði skipaður til að velja stofunni stað.`` Síðan er um það fjallað. Þetta varð hvatinn til þess að spyrja um það sem kemur fram í 2. lið. Ég tel mig nú eiga nokkuð í þessari lagasetningu, án þess að fara frekar út í það, og tel ég ástæðu til að vekja athygli á því að í lögunum er í raun gert ráð fyrir því að rekstraraðilar komi sér saman, þ.e. heimaaðilarnir komi sér saman um staðsetningu og tilhögun starfseminnar en ríkið veiti ákveðinn stuðning. Ég var satt að segja mjög undrandi á því að umhvrn. færi að hlutast til um að verða einhvers konar sáttasemjari eða að ganga á milli nokkurra staða á Norðurlandi vestra sem hefðu áhuga á að fá þessa starfsemi og hélt að þannig væri um hnúta búið í lögunum að ríkið gæti bara dokað við og látið menn koma sér saman og sagt: Það er skilyrði þess að þið fáið þennan ríkisstuðning.