Þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 14:49:41 (1461)

1996-11-20 14:49:41# 121. lþ. 29.4 fundur 125. mál: #A þátttaka ríkisins í náttúrustofum í kjördæmum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[14:49]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Enn skal ég reyna að svara eins ítarlega og ég get þessum spurningum frá hv. 4. þm. Austurl. í tveimur töluliðum.

Við fyrri töluliðnum er svarið á þessa leið: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 60/1992, um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur, er umhvrh. heimilt að leyfa starfrækslu einnar náttúrustofu með ríkisaðild í hverju kjördæmi. Slíkar náttúrustofur starfa í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og getur starfsemi þeirra verið á fleiri en einum stað í kjördæmi eftir skipulagi sem rekstraraðilar koma sér saman um. Einnig er kjördæmunum heimilt að sameinast um eina náttúrustofu. Samkvæmt 10. gr. er gert ráð fyrir því að héraðsnefndir, sveitarfélög eða aðrir heimaaðilar geti átt og rekið náttúrustofur með stuðningi ríkisins. Framlag ríkissjóðs til náttúrustofu takmarkist við laun forstöðumanns í fullu starfi og stofnkostnað vegna húsnæðis, innréttinga og bóka- og tækjakaupa eftir því sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni enda liggi fyrir trygging um jafnhátt framlag frá heimaaðilum.

Samkvæmt þeirri stefnu sem umhvrn. hefur mótað um uppbyggingu náttúrustofa í kjördæmum er við það miðað að ein náttúrustofa verði tekin í notkun á ári frá árinu 1994 til og með 1999. Árið 1994 tók til starfa Náttúrustofa Austurlands í Neskaupstað, árið 1995 Náttúrustofa Suðurlands í Vestmannaeyjum og í ár Náttúrustofa Vestfjarða í Bolungarvík. Um hlutverk og starfsemi þessara náttúrustofa er nánar kveðið í reglugerð fyrir hverja og eina þeirra. Á næsta ári tekur til starfa Náttúrustofa Vesturlands í Stykkishólmi. Á árinu 1998 væntanlega Náttúrustofa Norðurlands vestra en staðsetning hennar er enn óákveðin eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, og 1999 Náttúrustofa Reykjaness og er staðsetning þar enn fremur óákveðin.

Lengra ná áform ráðuneytisins ekki en hafa verður í huga að bæði í Reykjavík og í Norðurlandskjördæmi eystra á Akureyri eru rekin setur Náttúrufræðistofnunar Íslands þannig að ráðuneytið hefur metið þörfina meiri annars staðar fyrir náttúrustofurnar.

Þær kröfur sem ráðuneytið gerir til heimaaðila í tengslum við rekstur náttúrustofu er að formleg beiðni um rekstur berist ráðuneytinu t.d. frá sveitarfélagi og að um staðsetninguna sé sátt í kjördæminu. Sú varð raunin á Austurlandi, Suðurlandi og á Vestfjörðum. Þó má segja um Suðurland að fram hafa komið fyrirspurnir um það hvort náttúrustofan geti starfað á fleiri en einum stað, þ.e. í Vestmannaeyjum eins og er nú. Hins vegar náðist ekki samkomulag innan Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi um staðsetningu náttúrustofunnar þar. Ráðuneytinu barst formleg beiðni frá Stykkishólmsbæ. Ráðuneytið leitaði sérstaklega eftir því að Samband sveitarfélaga á Vesturlandi gerði tillögu um staðsetningu en sambandið tók ekki afstöðu í málinu. Þar sem ekki hafði borist formleg beiðni eða tillaga um staðsetningu náttúrustofu á Vesturlandi frá öðrum aðilum en Stykkishólmsbæ var ákveðið að setja stofuna niður í Stykkishólmi. Á Norðurlandi vestra náðist ekki samkomulag um staðsetningu náttúrustofu en umsóknir bárust frá Skagaströnd, Sauðárkróki og frá Hólum í Hjaltadal. Hins vegar varð að samkomulagi að settur yrði á fót tillöguhópur skipaður fulltrúum ráðuneytisins, Náttúrufræðistofnunar Íslands og heimamanna og mun hann gera tillögur um staðsetningu stofunnar. Auk samstöðu í héraði og þeirra atriða sem lög gera beinlínis ráð fyrir, svo sem tryggingu um jafnhátt framlag frá heimaaðilum, hefur ráðuneytið lagt á það áherslu að stofnun náttúrustofu byggist á reglugerð þar sem fram komi hvert skuli vera hlutverk hennar og sérstaða t.d. út frá náttúrufari viðkomandi svæðis og ætlunin er að leggja áherslu á í störfum hennar. Enn fremur þarf hlutaðeigandi aðili að útvega hentugt húsnæði sem ráðuneytið og Náttúrufræðistofnun Íslands telja fullnægjandi, ráða sér þar hæfan framkvæmdastjóra, taka að sér bókhald og útréttingar fyrir stofnunina og þess háttar.

Varðandi síðari tölulið fyrirspurnarinnar vil ég fyrst segja að mér finnst gæta í spurningunni sjálfri ef til vill nokkurs misskilnings, að ráðuneytið sé að blanda sér í deilur heimamanna. Við viljum auðvitað ná sátt um málið. Og út af því og í sambandi við þennan þriggja manna starfshóp, sem ég nefndi í svari við fyrri töluliðnum, vil ég segja að eins og þegar má ráða af því sem kom fram í því svari hefur ráðuneytið lagt á það áherslu að samstaða náist milli hlutaðeigandi sveitarfélaga um stofnun og rekstur náttúrustofu í kjördæmum. Í einu tilviki hefur ráðuneytið þurft að taka ákvörðun án þess að fyrir lægi samstaða milli sveitarfélaga en það er á Vesturlandi. Þar lá þó eins og áður segir aðeins fyrir ein formleg beiðni. En samband sveitarfélaga á svæðinu vísaði málinu frá sér. Þegar svo var komið var annaðhvort um það að ræða að hætta við stofnun náttúrustofu á svæðinu á árinu 1997 eins og þegar hafði verið stefnt að eða breyta forgangsröðun. Að vel íhuguðu máli sá ráðuneytið ekki ástæðu til þess að grípa til slíkra ráðstafana, ekki síst vegna þess að Náttúrustofu Vesturlands tengist önnur starfsemi sem bundin er í lögum nr. 54/1995, um vernd Breiðafjarðar. Hafa verður einnig í huga að starfsemi náttúrustofu getur verið á fleiri en einum stað í kjördæmi eftir skipulagi sem rekstraraðilar koma sér saman um. Þannig er ekki loku fyrir það skotið að reknar verði fleiri náttúrustofur í hverju kjördæmi en ein þegar fram líða stundir.

Sú niðurstaða sem fékkst í Norðurlandskjördæmi vestra byggðist á samkomulagi við samband sveitarfélaga í kjördæminu þannig að samkomulag er um þessa málsmeðerð. Ráðuneytið mun aldrei blanda sér í deilur heimamanna um staðarvalið. Hins vegar kann málum að vera þannig háttað að ráðuneytið verði að taka af skarið.