Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:05:09 (1466)

1996-11-20 15:05:09# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti það er rétt sem fram hefur komið að í könnun sem framkvæmd var á vegum menntmrn. kemur fram að 84,7% grunnskóla og 89,5% framhaldsskóla skipuleggja ekki jafnréttisfræðslu sérstaklega og aðeins um 17% skóla segjast fjalla um jafnréttisfræðslu í skólanámskrá eða námsvísi. Það er athugandi að 77% grunnskóla og 76,9% framhaldsskóla svöruðu könnuninni. Þetta þýðir ekki að skólarnir sinni ekki einhverri jafnréttisfræðslu. Í þeim grunn- og framhaldsskólum þar sem jafnréttisfræðsla fer fram er hún tekin fyrir í ákveðnum námsgreinum eða í ákveðnum verkefnum eða þemum. Í grunnskólum er algengast að bekkjarkennari sinni jafnréttisfræðslunni, 80,2% þeirra sem svara. En í framhaldsskólum er algengara að ákveðinn eða ákveðnir kennarar sinni henni, 51,3%. Í grunnskólum er algengast að flétta jafnréttisfræðslu inn í samfélagsfræði eða samfélagsgreinar og íslensku. Jafnréttisfræðsla fer því fram í mörgum skólum þótt hún sé ekki skipulögð sem sérstakt verkefni.

Í könnuninni var m.a. spurt um hvort veitt væri jafnréttisfræðsla til að búa bæði kynin jafnt undir virka þátttöku í samfélaginu, fjölskyldulífi og atvinnulífi eins og kveðið er á um í jafnréttislögum. Fram kemur að um 60% skóla segja að talsverð fræðsla sé veitt en um 30% skóla að um litla fræðslu sé að ræða.

Um þessar mundir er verið að ljúka við samantekt úr niðurstöðum könnunarinnar til að senda öllum grunn- og framhaldsskólum. Könnunin og niðurstöður hennar eru í sjálfu sér áminning til þeirra sem þurfa að taka sig á í jafnréttisfræðslu. Full ástæða er til að hvetja skólana til að gera sérstaka jafnréttisáætlun eins og margar opinberar stofnanir hafa raunar gert. Í skólanámskrá hvers skóla þyrfti að fjalla um markmið og leiðir í jafnréttisfræðslu. Sú umfjöllun ætti bæði að vera almenn samkvæmt ákvæði 10. gr. jafnréttislaga um menntun og einnig að tengjast hverri námsgrein. Könnunin sýnir að það sem skólarnir telja helst að hindri jafnréttisfræðslu sé skortur á fræðsluefni, fræðslu til kennara og tímaskortur. Fræðsluefni um jafnrétti kynjanna er nú í tilraunakennslu í nokkrum framhaldsskólum og gert er ráð fyrir að allir framhaldsskólar geti nýtt sér efnið á næsta skólaári.

Í undirbúningi er útgáfa handbókar um jafnréttisfræðslu fyrir kennara á öllum skólastigum. Menntmrn. og jafnréttisráð hafa staðið fyrir og styrkt þessar útgáfur. Nauðsynlegt er að kennurum og öðru starfsfólki skóla standi stöðugt til boða námskeið og fræðslufundir. Þetta á við um alla kennara á öllum skólastigum og þyrfti að koma bæði inn í grunn- og endurmenntun. Námskeið sem haldin hafa verið á undanförnum árum hafa tvímælalaust skilað sér í auknu jafnrétti í starfi í nokkrum skólum.

Endurskoðun aðalnámskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla stendur nú yfir. Þeir sem vinna að því verki munu fá sérstök fyrirmæli um að jafnréttisfræðsla fái verðugan sess í námskránni.