Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:11:12 (1468)

1996-11-20 15:11:12# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:11]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Í tengslum við þessa fyrirspurn og svar hæstv. ráðherra koma fram verulegar brotalamir í sambandi við jafnréttisfræðslu sem svo er kölluð og mikil þörf á því að ráða þar bót á.

Ég tel að ýmislegt af því sem hæstv. ráðherra kom að í sínu svari vísi á réttar leiðir í þessum efnum og gefi vonir um að þarna sé verið að vinna að endurbótum. Á það ekki síst við ef þessi mál verða tekin föstum tökum í sambandi við námskrárgerð, endurskoðun á námskrám og útgáfu fræðsluefnis til kennara sem ég held að sé einn þátturinn sem skortir á að hafi legið fyrir sem skyldi. En ég held að eitt meginatriðið í sambandi við svona fræðslu, eins og margháttaða fræðslu sem er svona sértæk eða varðar tiltekið svið --- við þekkjum umræðu um fíkniefni, við þekkjum umræðu um kynfræðslu svo dæmi séu tekin sem oft vill lenda út undan ef ætlast er til að hún sé tekin fyrir sem eitthvert sérstakt efni --- sé það að samþætta þetta efni í námsgreinar þar sem það á heima, inn í margar námsgreinar, eins og hæstv. ráðherra raunar vék að í sínu svari, þannig að það falli eðlilega inn í skólastarfið. Það er ekki hægt að byggja upp skólastarf með því að ætla að hafa 20 sértæk efni sem sjálfstæð viðfangsefni í stundaskrá. Það er mjög erfitt að gera það. Ég held því að svona samþætting sé það sem þurfi að koma og muni skila mestu til lengri tíma litið.