Jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:15:07 (1470)

1996-11-20 15:15:07# 121. lþ. 29.5 fundur 153. mál: #A jafnréttisfræðsla í grunn- og framhaldsskólum# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., SvG
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:15]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu og láta þess getið að ég er þeirrar skoðunar að til þess að ná árangri í jafnréttisfræðslu í skólum þurfi að efna til sérstaks átaks í þeim efnum og verja til þess fjármunum. Það þýðir ekki að setja almenn ákvæði inn í aðalnámskrá. Það dugir ekki. Í minni tíð sem menntmrh. réðum við tvo kennara til þess að annast þessi verkefni í fræðsluumdæminu Reykjanesi og það skilaði talsvert miklu þar. Ég held að vandinn sé sá að menn hafa ekki gert sér grein fyrir því að þessi starfsemi þarf að vera viðvarandi og alltaf því að ég held að það eigi ekki að líta á jafnréttismál eins og eitthvert verkefni sem menn hlaupa í þegar svo stendur á, heldur eigi að líta á það sem sífellt verkefni sem er alltaf á dagskrá. Það er mikið umhugsunarefni hvort könnun sú, sem nú er vitnað til og hv. fyrirspyrjandi nefndi, gefur alveg rétta mynd af veruleikanum inni í skólunum í þessum efnum. Ég er ekki alveg viss um það án þess að ég geri lítið úr vandanum. En hitt er aðalatriði í mínum huga: Mér finnst að ráðuneytið eigi stöðugt að vera með fólk í þessu því að þetta er verkefni sem verður alltaf að vera í gangi.