Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:24:47 (1475)

1996-11-20 15:24:47# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:24]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Að því er fyrri fyrirspurnina varðar er því til að svara að lengi hefur verið um það rætt bæði á Austurlandi og annars staðar hvort ekki bæri að sameina þar framhaldsskóla og vinna að því að gera þá sterkari með aukinni sameiningu. Er þess skemmst að minnast að Menntaskólinn á Egilsstöðum og Alþýðuskólinn á Eiðum hafa verið sameinaðir og einnig hafa verið hugmyndir um frekara samstarf skólanna á Austurlandi. Í þeim tillögum hafa komið fram hugmyndir oftar en einu sinni um sameiningu Hússtjórnarskólans á Hallormsstað við aðra framhaldsskóla á svæðinu þannig að þær hugmyndir sem liggja að baki tillögum í fjárlagafrv. næsta árs eru ekkert nýmæli í sjálfu sér og ættu ekki að koma neinum á óvart sem um þessi mál hefur fjallað sem ég veit að hv. þm. hefur gert. Hann veit vel hvernig þróunin hefur verið varðandi hússtjórnarskólann. Þar hafa verið eins og ætíð skin og skúrir, en nú er svo komið að mikil aðsókn er að skólanum eins og við vitum og það er greinilegt að námið í honum höfðar til fleiri en áður.

Þá er einnig spurning hvort ekki sé heppilegt að skólinn verði formlega séð hluti af stærri heild og, ef þörf er fyrir aukna fræðslu í hússtjórnarfræðum eða handverki, að nýta þá skólann á Egilsstöðum í því skyni því að á Eiðum er t.d. mikið ónýtt húsnæði sem mætti vel hugsa sér að yrði nýtt til handverkskennslu. Þannig gæti Menntaskólinn á Egilsstöðum orðið þessi miðstöð og hússtjórnarskólinn hluti í samstarfi við hann. Ég held að menn hafi velt þessum hugmyndum fyrir sér með auknu samstarfi. Það eru raunar slíkar hugmyndir sem að baki þessum tillögum búa og liggja til grundvallar því að þær hafa verið settar fram.

Það er rétt sem hv. þm. bendir á að áhuginn á því að hússtjórnarskólinn starfi sjálfstæður og óbreyttur er mjög mikill og er sjálfsagt að reyna að virkja þann áhuga með öllum tiltækum ráðum. Ég hef varpað fram þeirri hugmynd hvort menn vilji þá e.t.v. hverfa til þess skipulags sem var á árum áður þegar skólinn var stofnaður 1930 og um nokkurt árabil, að hann verði sjálfseignarstofnun með sérstökum samningi við ríkisvaldið um sína starfsemi og geti þá þróast á eigin forsendum og notið betur þess mikla stuðnings sem hann nýtur miðað við undirtektir sem hugmyndir um sjálfstæði hans hafa fengið að undanförnu.

Að því er varðar uppbyggingu í tengslum við skólann þá ítreka ég að ég tel að í sjálfu sér skorti ekki húsnæði á Austurlandi til handverkskennslu og hússtjórnarkennslu, ef litið er til húsnæðisins að Eiðum og þeirrar aðstöðu sem þar er, en það er að sjálfsögðu ekki nýting á því húsnæði sem er á Hallormsstað og setur þessum skóla mjög sérstakan ramma eins og ég fékk síðast að kynnast í gærkvöldi þegar ég var þar og kynnti mér starfsemi skólans.

Hvað varðar uppbyggingu og framkvæmdir við hússtjórnarskólann vil ég láta þess getið að samþykktar hafa verið tillögur um það að bæta húsnæðið, byggja við húsið og koma þannig í veg fyrir leka sem á því hefur orðið og einnig að bæta aðstöðuna og auka húsrými, en í sjálfu sér er þar ekki gert ráð fyrir auknu kennslurými. Í nágrenni við skólann er ætlunin á næstu mánuðum að rísi nýtt hótel og skólinn hefur menntað fólk til þess að sinna framreiðslustörfum þannig að það kann að vera að þær framkvæmdir auðveldi mönnum að veita betri þjónustu í Hússtjórnarskólanum á Hallormsstað, ég ætla ekki að segja neitt um það.

Þetta eru þau almennu svör sem ég get gefið. Ég tel að þær tillögur sem við setjum fram séu vel rökstuddar. Ég tel að það sé rangt að leggja þær þannig upp að við séum að eyðileggja starfið á Hallormsstað eða svipta hina nýju sameinuðu skólastofnun, ef hún yrði til, tækifæri til þess að veita það nám sem veitt er í hússtjórnarskólanum núna. Raunar tel ég að það liggi fyrir að gert verði samkomulag á milli ráðuneytisins og skólanna tveggja um aukið samstarf á grundvelli framhaldsskólalaganna.