Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:30:03 (1476)

1996-11-20 15:30:03# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:30]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn og umræðu. Ég fagna yfirlýsingu ráðherra um að samningar verði teknir upp um aukið samstarf og samvinnu skólanna á Héraði og það tryggir þá þar með tilveru Hússtjórnarskólans á Hallormsstað og það merkilega skólastarf sem þar fer fram.

Hugmyndir um sjálfseignarstofnun eru mjög athyglisverðar og nauðsynlegt að skoða málið út frá þeim sjónarhóli því að það er skoðun flestra sem fjallað hafa um málefni Hallormsstaðaskóla að undanförnu að nauðsynlegt sé að tryggja sérstöðu hans. Meginatriði í þessu máli er að það sé vilji allra sem um málið hafa fjallað að skólastarf fari fram í Hallormsstaðaskóla á þeim grunni sem verið hefur allt frá árinu 1930 þegar skólinn tók til starfa með eðlilegri þróun í samræmi við nútímakröfur og skólakerfi.

Það er ljóst að mikill hlýhugur, velvild og áhugi fylgir skólanum víða um land og þess bera merki ályktanir sem borist hafa frá mörgum aðilum. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þann áhuga sem hann hefur sýnt skólanum að undanförnu.