Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:33:29 (1478)

1996-11-20 15:33:29# 121. lþ. 29.6 fundur 155. mál: #A Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:33]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir þessa fyrirspurn. Hússtjórnarskólar landsins voru um tíma sú fræðsla sem í boði var fyrir konur í samanburði við bændaskólana fyrir karla, samanber hugmyndir 18. aldar manna eins og t.d. Björns úr Sauðlauksdal um menntun þeirra Atla og Arnbjargar. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar, bæði kynin sækja í almenna framhalds- og háskóla og velflestir hússtjórnarskólar landsins hafa verið lagðir niður. Það er þó staðreynd að mjög seinlega hefur tekist til við að byggja upp verklegt nám í landinu þannig að lítið framboð hefur verið á verknámi almennt og þá sérstaklega verknámi sem höfðar til stúlkna.

Hússtjórnarskólinn á Hallormsstað nýtur mikilla vinsælda, hann er skipulagslega í tengslum við Menntaskólann á Egilsstöðum. Þar er kennd matreiðsla, framreiðsla og ræsting annars vegar og fatagerð, fatahönnun og vefnaður hins vegar. Námið hefur reynst vel sem almennt nám eða sem undirbúningur fyrir þjónanám, kokkanám, klæðskeranám og sem nám til undirbúnings heimilisfræðideild Kennaraháskólans. Skólinn annar ekki eftirspurn og nemendur hans eru að meiri hluta úr öðrum fjórðungum. Ég tel það mjög mikilvægt að auka verknám sem höfðar til stúlkna og ég vil því hvetja menntmrh. til að endurskoða þá fyrirætlan sína að loka þessum skóla. Í stað þess ætti að breyta rekstri hans þannig að hann verði hagkvæmari rekstrareining og þjóni þeim tilgangi að verða sérhæfður verknámsskóli fyrir stúlkur og drengi.