Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:46:39 (1485)

1996-11-20 15:46:39# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁE
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:46]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Loksins höfum við alþjóðlegan samanburð um íslenska bankakerfið og það fékk falleinkunn. Það er ekki nóg að Íslendingar greiði mun hærri vexti en erlendis heldur greiða þeir einnig mun meira fyrir þjónustu bankakerfisins. Íslenskar bankastofnanir eru óhagkvæmar, illa reknar, mannfrekar og hafa tapað meiru en sambærilegar stofnanir erlendis. Rekstrarkostnaður er hár hér miðað við önnur lönd. Ef miðað er við niðurstöðutölu efnahagsreiknings sem er að mörgu leyti eðlileg viðmiðun þá er rekstrarkostnaður hér 5% en 2--3% á Norðurlöndunum. Hvað skýrir þennan mun að mati hæstv. viðskrh. og hyggst hann beita sér fyrir úrbótum og þá hverjum?

Vaxtamunur er mismunur á innláns- og útlánsvöxtum og er ein helsta tekjulind banka. Síðustu fimm ár höfum við skorið okkur úr með miklum vaxtamun eða allt að tvöfalt hærri en í bönkum nágrannalanda. Því hefur oft verið haldið fram að þótt vaxtamunur væri hér mikill þá væru þjónustugjöldin mun hærri erlendis. Það er rangt. Einnig í þjónustugjöldunum er okrað á landsmönnum og helmingi hærri gjöld en í nágrannalöndunum eru algeng.

Það er nauðsynlegt að vita hvort allir séu hér jafnslakir, þ.e. viðskiptabankarnir þrír og svo sparisjóðirnir. Ég spyr hæstv. ráðherra: Er munur milli einstakra íslenskra bankastofnana í þessum alþjóðlega samanburði og þá hver? Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til þess að Íslendingar, einstaklingar og fyrirtæki, búi við sambærilegan mun á inn- og útlánum og þjónustugjöld eins og er erlendis?

Smæð íslenskra bankastofnana, lítil þátttaka í húsnæðislánakerfi og í fjárfestingalánasjóðum og mikill fjöldi útibúa skýrir að nokkru leyti slæman rekstur íslenskra banka. En umfangsmikið starfsmannahald og miklar afskriftir benda til þess að stjórnun íslenska bankakerfisins sé ábótavant. Afskriftir eru mun hærri hér, þær voru hæstar hér síðustu þrjú árin. Hér hefur tapast mikið vegna óvarkárni í útlánum og enginn er látinn bera ábyrgð á því. Starfsmannakostnaður er einnig hæstur hér sem er ekki vegna hárra launa bankastarfsmanna heldur vegna mikils fjölda starfsmanna. Það eru landsmenn sem greiða fyrir þetta.

Það er altalað í viðskiptalífinu að ýmsir íslenskir bankar séu illa reknir. Stjórnun bankakerfisins og hæfni bankastjóra kemur landsmönnum við. Almenningur á stærstan hluta bankakerfisins og greiðir þessum mönnum laun. Það hefur ekki vafist fyrir ýmsum í bankakerfinu að hafa eina milljón króna í laun á mánuði og því getur sá sem greiðir gert kröfu um hæfni og árangur. Það virðist ekki vera fyrir hendi og því spyr ég: Hver ber ábyrgð á þessum afleita rekstri og hyggst ráðherra grípa til aðgerða til að bæta stjórnun í ríkisviðskiptabönkunum, t.d. með því að stuðla að uppsögnum bankastjóra?

Það er nokkuð sama hvaða mælikvarði er tekinn og hægt er að taka þá marga, íslenskar bankastofnanir koma illa út í alþjóðlegum samanburði. Arðsemi þeirra er lítil þrátt fyrir ótæpilega gjaldtöku af viðskiptavinum bæði í formi vaxtamunar og þjónustugjalda. Þótt ástandið hafi batnað nokkuð er það langt frá því að vera viðunandi. Samkeppni erlendis frá er engin. Erlendir bankar vilja ekki koma hingað vegna smæðar markaðar. Fyrirtæki, og einkum þau stærri, reyna að hafa helstu bankaviðskipti sín í útlöndum hjá ódýrari og betur reknum bönkum. Almenningur verður hins vegar að skipta við þetta innlenda staðnaða og óhagkvæma kerfi sem hann á sjálfur.

Að lokum, herra forseti. Hvenær leggur ráðherra fram frv. um hlutafjárvæðingu ríkisviðskiptabanka og hyggst hann leggja til við Alþingi að eignarhluti ríkisins í þeim verði seldur að hluta eða að öllu leyti á kjörtímabilinu?