Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:51:41 (1486)

1996-11-20 15:51:41# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:51]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr hvað skýri, að mati ráðherra, þann mun á rekstrarkostnaði í bönkum hér á landi og erlendis og hvað ráðherra hyggist gera til úrbóta á því.

Það eru margar ástæður fyrir því að rekstrarkostnaður bankakerfisins er hærri hér á landi en víðast hvar annars staðar. Hér eru litlir bankar með stórt útibúanet sem veita víðtæka þjónustu á litlum markaði í stóru landi. Með öðrum orðum, fámennið kostar sitt eins og dæmi sanna. En íslenska bankakerfið er hins vegar of dýrt. Á síðasta ári var rekstrarkostnaður íslenska bankakerfisins um 13 milljarðar kr. Það er allt of mikill kostnaður miðað við það að miðla fjármagni í okkar fámenna landi. Rekstrarkostnaður banka og sparisjóða í Danmörku og Noregi er um 2,5% af eignum en hér á landi er rekstrarkostnaðurin nálægt 5% eða nær tvöfalt hærri en í nágrannaríkjum okkar. Það er óviðunandi til lengdar. Nauðsynlegt er að draga úr rekstrarkostnaði til að bankakerfið geti varist ásókn erlendra keppinauta í sífellt harðnandi samkeppni á alþjóðlegum vettvangi. Stefna ríkisstjórnarinnar hefur einmitt markast af nauðsyn þess að gera nauðsynlegar skipulagsbreytingar á fjármagnsmarkaði til að markaðurinn sé betur í stakk búinn til að mæta erlendri samkeppni. Þær skipulagsumbætur sem ríkisstjórnin fyrirhugar eiga að stuðla að aukinni hagkvæmni, greiðari aðgangi að fjármagni og lægri vöxtum. Allt þetta leiðir til bættrar samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Mikilvægt er fyrir íslenskan atvinnurekstur að geta fengið vaxtakjör sem eru sambærileg við það sem gerist og gengur í nágrannaríkjunum. Bandaríska fyrirtækið Standard & Poor's sem á síðasta vetri hækkaði lánshæfismat Íslands á erlendum lánum greindi frá því að víðtæk afskipti hins opinbera á fjármagnsmarkaði stæði lánshæfiseinkunn Íslands á alþjóðlegum markaði fyrir þrifum. Aukin samkeppni á fjármagnsmarkaði mun leiða til meiri hagkvæmni og þar með til betri samkeppnisstöðu og hærra lánsmats.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: Til hvaða aðgerða hyggst ráðherra grípa til þess að Íslendingar, einstaklingar og fyrirtæki, búi við sambærilegan mun á inn- og útlánsvöxtum og þjónustugjöldum og eru erlendis?

Ef skýrsla bankaeftirlits Seðlabankans um rekstur lánastofnana árið 1995 er lögð til grundvallar voru hreinar vaxtatekjur Landsbankans lægstar eða 4,23% af heildareignum. Íslandsbanki var með 4,38% vaxtamun, Búnaðarbanki 4,61% og sparisjóðirnir 5,18%. Rekstrarkostnaður var minnstur í Landsbankanum í hlutfalli við heildareignir, 4,4%. Rekstrarkostnaður sparisjóðanna var 4,81% af eignum, Íslandsbanka 5,16% og Búnaðarbankans 5,23%. Framlög í afskriftareikning voru hins vegar hæst í Landsbankanum 1,34%, því næst kom Íslandsbanki með 1,28%, Búnaðarbankinn með 1,06% og minnst voru framlögin á afskriftareikningi í sparisjóðunum 0,9%.

Brýn þörf er á hagræðingu í íslenska bankakerfinu. Hagræðing í bankakerfinu á komandi árum mun sjálfsagt að mörgu leyti felast í aukinni tækni með því að ýta undir notkun rafrænna greiðslumiðla af ýmsu tagi. Auk þess má búast við að útibúanetið breytist að einhverju marki. Hlutverk ríkisvaldsins er fyrst og fremst að móta umgjörðina í kringum þessa starfsemi. Brýnt er því að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög. Umgjörðin sem stjórnvöld búa markaðinum á að vera þannig að samkeppni sé sem virkust því samkeppnin leiðir til hagræðingar.

Í þriðja lagi spyr hv. þm. hver beri ábyrgð á þessum afleita rekstri og hvort ráðherra hyggist grípa til aðgerða til að bæta stjórnun í ríkisviðskiptabönkunum, t.d. með því að stuðla að uppsögnum bankastjóra, eins og hv. þm. orðaði það.

Framlög bankastofnana á afskriftareikningum eru vissulega há en allt bendir til þess að það versta sé yfirstaðið í útlánaafskriftunum. Sú reynsla sem við höfum frá Norðurlöndunum sýnir að bankar þar gengu í gegnum svipuð töp og bankar hér, en það er margt sem bendir til þess að við séum að komast yfir það versta í þessum efnum. Með því að breyta ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög er stigið mjög mikilvægt skref í þá átt að samræma samkeppnisstöðu lánastofnana. Eigendur hlutafélaga gera jafnan ríkari kröfur til stjórnenda þeirra. Því er við búið að kröfur ríkisins til banka sinna muni aukast í kjölfar hlutfélagavæðingarinnar. Það er síðan á valdi stjórnenda bankanna að taka ákvörðun um starfsmannahald.

Í fjórða lagi spyr hv. þm.: Hvenær leggur ráðherra fram frv. um hlutafélagavæðingu ríkisviðskiptabankanna og hyggst hann leggja til við Alþingi að eignarhlutar ríkisins í þeim verði seldir að hluta eða öllu leyti? (Forseti hringir.)

Ég vonast til að á þessu þingi verði hægt að samþykkja formbreytingu ríkisviðskiptabankanna. Ég tel það ekki vera forgangsverkefni að selja eignarhlut ríkisins í ríkisviðskiptabönkunum heldur hitt að auka eigið fé ríkisviðskiptabankanna með því að gefa nýjum aðilum möguleika á að kaupa sig inn til að styrkja (Forseti hringir.) eiginfjárstöðu þeirra og þar af leiðandi að bæta samkeppnisstöðu þeirra.