Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 15:57:34 (1487)

1996-11-20 15:57:34# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[15:57]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. málshefjanda og hæstv. ráðherra að það þurfi að gera breytingar á íslensku bankakerfi og því fyrr því betra. Því fagna ég því sem kom fram hjá hæstv. ráðherra að hann hyggist leggja fram á þessu þingi frv. um að gera ríkisbankana að hlutafélögum. Og því fyrr sem viðskipti verða með hlutabréf í viðskiptabönkunum á hlutabréfamarkaði á Íslandi, þeim mun betra því þannig verður bönkunum veitt best aðhald.

En ég get ómögulega skilið að málflutningur eins og hjá hv. málshefjanda þar sem snúið er út úr tölum og ónotum hreytt í bankakerfið, sé þessum málstað til framdráttar. Hann er að vísa til talna úr skýrslu OECD þar sem borinn er saman rekstur íslenskra banka og erlendra fram til ársins 1994. Þar er raunverulega verið að bera saman epli og appelsínu því íslenskir viðskiptabankar eru mjög litlir bankar með litla markaðshlutdeild á sínu svæði en þeir bankar sem verið er að bera saman við eru stærri og hafa mun stærri hlutdeild í fjármálamarkaði síns heimalands, eins og t.d. í húsnæðiskerfinu. Ef húsnæðiskerfið væri tekið inn í þessar tölur kæmi út allt önnur mynd. Þess vegna er mun skynsamlegra, ef bera á þessa banka saman, að bera saman tekjur þeirra og reikna hlutföll út frá því heldur en út frá því að bera saman efnahagsreikninginn, því efnahagsreikningur íslenskra banka er mun minni en þeirra erlendu banka sem um er að ræða. Þá kemur í ljós að starfsmannakostnaður á Íslandi er mjög svipaður og hann er í þessum erlendu bönkum og hann fer sem betur fer minnkandi. Hagnaður bankanna er ekki nægjanlega mikill og hann fæst einungis með því að minnka framlög í afskriftareikninga og lækka kostnaðinn.

En ég skil ekki að hv. málshefjandi (Forseti hringir.) skuli tala eins og hann gerði hér í dag því hann var fram til ársins 1994 formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands sem átti að hafa eftirlit með þessum bönkum sem hann er nú að gagnrýna.