Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:00:03 (1488)

1996-11-20 16:00:03# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), GÁ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:00]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Mikil hagræðing hefur átt sér stað í íslensku bankakerfi á síðustu árum. 600 færri störf á átta árum vitna um þetta. Á atvinnuleysistímum leita bankarnir enn allra leiða til að fækka starfsfólki og hagræða í öllum liðum. Ég vil nefna nokkur atriði sem geta breytt miklu í þeim efnum. Álagið í bankakerfinu er mest á þremur fyrstu dögum hvers mánaðar. Þetta álag og fjöldi afgreiðslna er tvöfaldur þessa daga, þetta á við um inn- og útborganir. Er hægt að jafna þetta álag? Það væri stórt skref til að lækka kostnað. Ríkið gæti ráðið miklu í þessu efni, enda stærsti launagreiðandinn í landinu.

Ég vil spyrja þegar þessi samanburður er gerður: Hvar er íbúðalánakerfið vistað í samanburðarlöndunum? Er það í bankakerfi viðkomandi lands? Ef íbúðalánakerfið og fjárfestingarlánasjóðirnir væru inni í bankakerfinu, væru efnahagsreikningar bankanna stærri í sniðum og hlutföll hagstæðari. Hér eru fjárfestingarlánasjóðirnir, allir nema Stofnlánadeild landbúnaðarins, reknir sem bisniss og bankastofnanir (Gripið fram í: Allir.) en gætu og ættu að vera hluti af bankakerfinu. Slíkt væri hagstætt fyrir bæði launþega og atvinnulífið.

Að lokum þetta. Oft snýst umræðan hér um að allt sé verst og standist ekki samanburð við það sem gerist erlendis. Eitt skal þó viðurkennt. Hér er allt smátt og dálítið öðruvísi. Hér gerist það á öld frelsis í peningamálum að bæði einstaklingar og fyrirtæki segja: ,,Heim vil ég``, á þessum síðustu og verstu tímum sem málshefjandi vitnaði til. Menn vilja heim með sínar erlendu skuldir, heim í íslenskan banka, heim í íslenskar krónur. Þetta geta menn séð ef skoðuð er uppgreiðsla erlendra lána á síðustu missirum. Hvers vegna leita menn heim þegar allt er svo gott annars staðar? Er kannski tvískinnungur í umræðunni? Kannski segir þetta eitthvað um íslenska bankakerfið. Hins vegar legg ég á það áherslu, hæstv. forseti, að fram fari áframhaldandi hagræðing í íslenska bankakerfinu, íslenskum launþegum og íslensku atvinnulífi til framdráttar.