Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:11:36 (1493)

1996-11-20 16:11:36# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), PHB
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:11]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu, hún er mjög nytsöm. Staðan er sú að bankakerfið er dýrt, óhagkvæmt og óarðbært fyrir eigendur sína þrátt fyrir að stórvirki hafi verið unnin á undanförnum árum í hagræðingu og sparnaði. Miklu varðar fyrir einstaklinga og fyrirtæki á Íslandi sem og starfsmenn þeirra að fjármagnskerfið sé ódýrt og skilvirkt. Sú staða sem við upplifum í dag, að bankakerfið er bæði dýrt og óskilvirkt, kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar.

Hver er ástæðan fyrir þessu? Bent hefur verið á að meginhluti íslenska fjármagnskerfisins sé í ríkiseign og að miðstýring fjármagnsmarkaðarins valdi þessari stöðu. Við erum með fjöldann allan af opinberum sjóðum sem flestir eru staðnaðir og ber þar hæst húsnæðiskerfið sem allt er í einum sjóði og rekið af ríkinu.

Samkeppni er að stóraukast, bæði innláns- og útlánsmegin og bæði í langtíma- og skammtímalánum. Stærstu og bestu fyrirtækin leita fyrir sér erlendis eða á markaðinn, hverfa frá bankakerfinu. Við sjáum hraða þróun í internetinu sem gerir það að verkum að eftir nokkur ár geta menn farið að leggja inn á banka út um allan heim. Það er að fjara undan bönkunum. Þetta eru allt of litlar einingar, eigið fé flestra ríkisbankanna á Íslandi er um 6 milljarðar eða sem svarar fjórum Guggum, þ.e. Guðbjörginni á Ísafirði. Þetta eru allt of litlar búðir. Ég hygg að það dugi ekki að hlutafjárvæða bankana. Það verður að stækka þá með sameiningu við hina ýmsu fjárfestingarsjóði og einkavæða þá. Það er það eina sem dugar. Það kann svo að fara að við eigum enga banka til að einkavæða eftir fimm ár.