Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:16:06 (1495)

1996-11-20 16:16:06# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:16]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Mér hefur virst að grundvallarmálið í umræðu um bankamál sé ekki hvort bankarnir eru hf. eða ríkisbankar. Þeir virðast vera á svipuðu róli. Er grunnurinn að öllum þessum vanda ekki sá að verið er að gera upp áralangan subbuskap í efnahagskerfinu? Er það ekki meginmálið sem við erum að kljást við? Og hvernig staðið er að þessu uppgjöri? Er það ekki mál málanna? Og ættum við ekki heldur að líta á hvernig staðið hefur verið að uppgjöri tugmilljóna skuldayfirfærslu inn á afskriftareikninga bankanna og af þeim sem skulda í núinu þegar gengið var til verks og inn á þau heimili í landinu þar sem voru til veð. Það er þetta sem er mál málanna í bankakerfi Íslendinga þ.e. hvernig staðið hefur verið að þessum málum og er grunnvandinn að mörgu því sem við erum að tala um í sambandi við samfélagsreksturinn á hvaða sviði sem er --- þetta hræðilega uppgjör.

Á síðustu sjö árum hefur bankakerfið með offorsi gengið til verks við að rétta sig af. Ég fullyrði að þessar íslensku aðferðir hefðu ekki dugað í nokkru öðru landi því að hér hefur átt sér stað rán aldarinnar. Það er verið að ganga að fólki sem aldrei nokkurn tíma hefur stofnað til þeirra skulda sem það nú stendur fyrir. Það eru þessi mál sem þarf að ræða í grunninn í sambandi við rekstur bankakerfisins og það er að mínu mati ,,billegt`` að fara í rekstrarmál í einhverjum prósentum og mannahaldi þegar svo djúpstæður vandi er fyrir höndum.

Ég vil spyrja hæstv. bankamálaráðherra hvort hann hyggist láta gera úttekt og kortleggja þetta rán aldarinnar.