Rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði

Miðvikudaginn 20. nóvember 1996, kl. 16:21:06 (1497)

1996-11-20 16:21:06# 121. lþ. 29.95 fundur 107#B rekstur bankakerfisins í alþjóðlegum samanburði# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur

[16:21]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Allur svona samanburður, eins og hér hefur komið fram við þessa umræðu, er erfiður vegna þess að menn eru oftast að bera saman hluti sem eru mjög mismunandi þó að það sé ekki nema bara landfræðilega mismunandi.

Það er ekki alls kostar rétt að fjárfestingarlánasjóðirnir og húsnæðislánakerfið sé inni í þessum samanburði hjá þeim löndum sem við erum að bera okkur saman við eins og Norðmenn og Dani. Staðreyndin er sú að í Danmörku og Noregi er fyrirkomulagið mjög svipað og hér. Þar eru sjálfstæðir fjárfestingarlánasjóðir, þar er sjálfstætt húsnæðislánakerfi þannig að í þessu tilfelli eru menn að bera saman tiltölulega sambærilega hluti.

Hins vegar er alveg rétt að ef fjárfestingarlánasjóðirnir og húsnæðislánakerfi væru komin inn í bankana væri efnahagsreikningurinn stærri og samanburðurinn öðruvísi. Það er auðvitað endalaust hægt að leika sér með slíkar tölur.

Af því að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði hvað stæði til varðandi húsnæðislánakerfið, þá er það svo, hv. þm., að félmrh. hefur skipað nefnd til að kanna leiðir til að koma húsnæðislánakerfinu inn í bankakerfið. Ríkisstjórnin er að vinna að því að sameina fjárfestingarlánasjóðina, Fiskveiðasjóð, Iðnlánasjóð og Iðnþróunarsjóð og þar með að einfalda og fækka lánastofnunum. Það er ekki rétt sem kom fram áðan hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur að með þessu væri verið að fjölga lánastofnunum heldur hið gagnstæða, það er verið að fækka lánastofnunum með þessari hagræðingu.

Það eru skiptar skoðanir um það hvort lánasjóðirnir eigi að fara inn í bankakerfið eða vera sjálfstæðir. Þau sjónarmið eru ríkari á mörgum stöðum í Evrópu að það eigi að vera mikill veggur á milli viðskiptabankaumhverfisins og fjárfestingarlánasjóðakerfisins.

Það er rétt að hlutafélagavæðingin ein og sér mun ekki leysa úr þessum vandamálum sem hér eru uppi enda hefur enginn talað um það. Breytingin með hlutafélagavæðingunni verður sú að komið verður á sambærilegum samkeppnisskilyrðum milli þessara viðskiptabanka. Með því að auka hlutafé í bönkunum, ekki með því að selja eigur ríkisins heldur með því að auka hlutafé í bönkunum er verið að styrkja eiginfjárstöðu þessara stofnana, gera þær samkeppnishæfari en þær eru í dag. Með því getum við náð niður reksturskostnaði. Með því getum við líka boðið minni vaxtamun en menn eru að bjóða í dag. Hins vegar, eins og hv. þm. Svavar Gestsson mælti fyrir áðan, stöðlum við fátæktina hjá fyrirtækjunum og einstaklingunum með því að ætla að láta íslensk fyrirtæki og íslensk heimili búa við verri samkeppnisaðstöðu. Þessi skýrsla sýnir að við búum við það og ef við ætlum að halda áfram á þeirri braut þá erum við að staðla fátæktina.