Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:08:54 (1503)

1996-11-21 11:08:54# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Loksins dró að því að ég og hæstv. sjútvrh. yrðum sammála um eitthvað. Ég sat með hæstv. ráðherra í ríkisstjórn í nokkur ár og studdi hann með ráðum og dáð, stundum gegn betri vitund, en mér fannst hann vera seinn til lærdóms. Nú hefur það gerst að hann leggur fram frv. sem í megindráttum tekur undir þá stefnu sem ég og flokkur minn höfum fylgt um langt skeið. Við teljum að að því er varðar sjávarútveginn eigi að leggja á ákveðið gjald, sem við höfum kallað veiðileyfagjald en hann hefur kallað auðlindaskatt, og þetta gjald eigi að nota til að fjármagna þann kostnað sem hið opinbera hefur af rekstri greinarinnar. Því er stundum haldið fram að sjávarútvegurinn á Íslandi sé eini sjávarútvegurinn í heimi sem sé ekki ríkisstyrktur. Það er auðvitað rangt. Grunnrannsóknir hafa verið kostaðar af ríkinu og hagnýtar rannsóknir líka. Nú gerist það hins vegar að hæstv. sjútvrh. tekur undir það viðhorf sem ég lýsti áðan, að gjald sem tekið er af greininni sjálfri er notað til að standa undir kaupum á hafrannsóknaskipi. Það er tímabært að keypt sé nýtt hafrannsóknaskip þótt auðvitað hefði hæstv. sjútvrh. átt að vera fyrr á ferðinni með þetta ágæta frv. Ég held að þess vegna sé óhætt að taka undir að minnsta kosti þann hluta frv. sem lýtur að því að þróunarsjóðsgjaldið, sem er ekkert annað en veiðileyfagjald eins og var margsinnis túlkað af þeim sem sátu með hæstv. ráðherra í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili, sé nú tekið til að standa undir kaupum á nýju hafrannsóknaskipi. Þó að ég sé ósammála því atriði sem kemur fram í bráðabirgðaákvæði frv., að sjóðnum eigi að loka 2009, vænti ég þess að hæstv. sjútvrh. verði kannski ekki eilífur í embætti sínu. Aldrei að vita nema hann verði kallaður til annarra og æðri verka á sviði þjóðmálanna. Það kunna að koma aðrar ríkisstjórnir og önnur viðhorf í ríkisstjórn Íslands þannig að ég hef ekki neitt sérstakar áhyggjur af því þó hæstv. sjútvrh. leggi til að sjóðnum verði lokað eftir meira en áratug. Hann verður sökum fortíðar sinnar í þessu máli að hafa eitthvert slíkt ákvæði inni. En ég lýsi því yfir, herra forseti, að þótt sitthvað kunni að vera að smáatriðum þessa frv. er meginhugsunin sú að þarna verði tekið gjald, veiðileyfagjald, til þess að standa straum af því að kaupa nýtt hafrannsóknaskip. Þarna er hæstv. sjútvrh. að leggja út á braut sem ég tel afskaplega farsæla og ég óska honum til hamingju með að hafa loksins séð ljósið í þessum efnum.