Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:12:34 (1504)

1996-11-21 11:12:34# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., KPál
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:12]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér liggur fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Þróunarsjóð sjávarútvegsins og hefur fyrst og fremst verið til umræðu það ákvæði til bráðabirgða sem lýtur að kaupum á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnun Íslands. Fyrir mitt leyti fagna ég því sérstaklega að með frv. er tekið á mjög erfiðri stöðu Hafrannsóknastofnunar hvað varðar rannsóknahlutverk hennar og að mæta þeim brýnu kröfum sem hljóta að brenna eilíflega á slíkri stofnun eins og Hafrannsóknastofnun. Það er ekki bara það að skip Hafrannsóknastofnunar eru orðin gömul, 25--30 ára, heldur eru þau orðin mjög illa farin og þarf jafnvel að setja hundruð milljóna í viðgerðarkostnað á þessum skipum bara til að halda þeim úti.

Það er einnig alvarlegt hvað varðar stöðu Hafrannsóknastofnunar í dag að skipin hafa ekki þann möguleika að geta farið í rannsóknaleiðangra á þau svæði sem eru órannsökuð í dag, t.d. suður af landinu þar sem fundist hafa mjög verðmæt karfamið. Smokkfiskur og túnfiskur hafa fundist á þessum svæðum og annar úthafsfiskur sem skip okkar hafa ekki stærð til að sinna að því marki sem ætlast verður til og leiðangrar hverju sinni þurfa að sinna vísindalega. Einnig má segja að leit Hafrannsóknastofnunar að loðnu, til að mynda norður í höfum, hafi reynst mjög erfið með bergmálsdýptarmælingum vegna þess að skipin eru svo lítil og hafa átt erfitt með að athafna sig í veðrum sem eru oft mjög válynd norður í höfum. Það er einn nauðsynlegi þátturinn í að styrkja þessar rannsóknir að hafa til þess stærri og öflugri skip sem geta verið að veiðum í öllum veðrum og leitað að fiskstofnum eins og loðnu sem er svo mikilvæg fyrir okkar afkomumöguleika þannig að ég fagna því sérstaklega að þetta mál skuli vera komið svo langt sem raun ber vitni. Mér finnst algert aukaatriði í sjálfu sér hvernig þetta er fjármagnað. Þetta er gert með eðlilegum hætti að láta sjávarútveginn taka þátt í því. Mér finnst ekkert athugavert við það að sjávarútvegurinn taki þátt í grunnrannsóknum og taki þátt í þeim kostnaði sem felst í því að þróa upp leitarkerfi og gagnakerfi sem nýtist náttúrlega sjávarútveginum fyrst og fremst og þá um leið þjóðinni allri. Mér finnst þetta hafa þróast mjög vel í höndum hæstv. sjútvrh. og fagna því að það sér fyrir endann á þeirri löngu bið Hafrannsóknastofnunar eftir skipi sem við getum sagt að standi, við skulum segja, á sporði því besta sem þekkist í heiminum og verður okkur til sóma og okkar starfsmönnum í Hafrannsóknastofnun tæki sem getur nýst okkur í leiðöngrum og rannsóknastörfum með öðrum þjóðum. Eins og menn vita höfum við þurft með samningum við aðrar þjóðir að leita eftir því að setja okkar menn um borð í önnur skip, sem eru þá erlend, en við ekki verið í stakk búnir til að taka þátt í því með afgerandi hætti.