Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:19:03 (1506)

1996-11-21 11:19:03# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:19]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það hefur ekki verið ágreiningur um það að meginuppistaðan í þróunarsjóðsgjaldinu er gjald á aflaheimildir. Í allri umræðu um auðlindaskatt hefur rækilega verið á það bent af mér og fleirum að þessi skattlagning hefur verið við lýði alveg frá byrjun kvótakerfisins. Fyrst til þess að greiða að fullu kostnað við veiðieftirlit og stjórnun veiðanna og síðan þetta gjald sem greitt er í þróunarsjóðinn. Deilurnar um þetta hafa fyrst og fremst staðið um það hvort tilefni væri til það hækka og auka þessa skattheimtu á sjávarútveginn.

Varðandi spurninguna um það hvort gjaldtaka af þessu tagi ætti að renna til verkefna á sviði hafrannsókna eða ekki, þá hef ég því aðeins flutt þetta frv. að ég tel það vera verðugt verkefni fyrir sjóðinn. Hins vegar er það ekki svo að þetta séu nýmæli. Eins og hv. 15. þm. Reykv. man var það svo að á síðasta kjörtímabili var með lögum ákveðið að greiða hluta af rekstrarkostnaði Hafrannsóknastofnunar með sölu á aflaheimildum sem gamli hagræðingarsjóðurinn hafði. Þessari skattlagningu í formi sölu á aflaheimildum var síðan breytt og hún lögð niður og í staðinn kom þetta gjald sem fór á undanförnum árum alfarið til úreldingarstyrkja. Það eru ekki nýmæli að nota þetta gjald vegna Hafrannsóknastofnunar. En ég tel fullkomlega eðlilegt að nota þessa fjármuni í þessu skyni og því aðeins hef ég flutt þetta frv. Deilan um auðlindaskattinn hefur fyrst og fremst snúist um það hvort það ætti að leggja á meiri skatta en gert er í dag.