Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 11:21:23 (1507)

1996-11-21 11:21:23# 121. lþ. 30.2 fundur 181. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[11:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir kveða við nýjan og miklu bjartari tón í máli hæstv. sjútvrh. Ég man ekki betur en í tíð síðustu ríkisstjórnar hafi einmitt verið uppi a.m.k. skoðanamunur ef ekki beinn ágreiningur um það hvort sjávarútvegurinn ætti að taka þátt í kostnaði við grunnrannsóknir. Ég tel að hæstv. sjútvrh. hafi markað hérna nýja braut, a.m.k. af hálfu síns flokks, þegar hann leggur fram frv. sem gerir ráð fyrir því að hætt sé að nota þetta fjármagn sem tekið er í gegnum þróunarsjóðsgjald, sem við höfum kallað vísi að veiðileyfagjaldi, til að úrelda. Í staðinn er það veitt til þess að fjármagna ný tæki sem eiga að sinna grunnrannsóknum. Ég vil spyrja hæstv. sjútvrh.: Telur hann ekki að til greina komi þegar búið er að fjármagna þetta skip að halda uppteknum hætti og nota gjaldtöku með þessum hætti til þess að fjárfesta í öðrum nauðsynlegum rannsóknatækjum sem tengjast grunnrannsóknum fyrir þessa atvinnugrein, til að mynda rannsóknaskipum annarrar gerðar, smærri til að mynda, sem gætu með hagfelldari hætti t.d. sinnt málum sem tengjast línuveiðum á djúpslóð sem aðrar þjóðir hafa tekið upp með jákvæðum árangri?