Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:21:13 (1512)

1996-11-21 12:21:13# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Mín viðbrögð við ræðu þingmannsins eru ekki beint andsvar eða andmæli heldur vil ég nota tækifærið og taka undir aðvörunarorð þingmannsins um Starfsmenntasjóðinn og þá hugmyndafræði sem birtist í fjárlögum og ríkisfjármálafrumvarpinu og nú í þessu frv., um að gera Starfsmenntasjóðinn að úrræði Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég vara ráðherrann eindregið við því að flytja Starfsmenntasjóðinn undir Atvinnuleysistryggingasjóð. Það hefur komið fram að það er jafnframt þannig að aðilar vinnumarkaðarins leggjast mjög gegn því. Þessi sjóður er mjög mikilvægur, hann hefur veitt þúsundum manna á vinnumarkaði starfsmenntastyrki og hann er eitt af góðu, sterku úrræðunum okkar í uppbyggingu í atvinnulífinu og að flytja hann undir Atvinnuleysistryggingasjóð gefur til kynna að hægt og sígandi eigi þessi sjóður að verða úrræði fyrir atvinnulausa, eigi að renna inn í úrræði Atvinnuleysistryggingasjóðs um úrræði fyrir þá sem eru á atvinnuleysisskrá. Þessi hugsun er mjög röng og hún er varhugaverð og ég hvet ráðherrann eindregið til þess, og það eru mín góðu ráð til ráðherrans, að hann hverfi af þeirri braut að flytja Starfsmenntasjóð undir Atvinnuleysistryggingasjóð.

(Forseti (ÓE): Þetta var svona á mörkum þess að vera andsvar.)