Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:22:52 (1513)

1996-11-21 12:22:52# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:22]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þetta frv. sem hér liggur undir í umræðunni er merkilegt að mörgu leyti. Það er þarft að því leyti til að þar er loksins verið að endurskoða úrelta löggjöf um vinnumiðlanir sem var frá árinu 1985.

Ég verð að taka undir það sem hér hefur komið fram í máli þeirra sem hafa talað fyrr í dag að mér finnst með ólíkindum að það skuli hafa orðið svona mikil sátt sem raun bar vitni í nefndinni um þær tillögur sem hér liggja fyrir. Margar þeirra orka tvímælis og það er óhætt að segja að það er ekki nægilega dyggur rökstuðningur fyrir mörgum þeirra.

Ég sakna þess auðvitað eins og aðrir sem hér hafa talað í dag að þeir tveir hv. þm., annar þeirra er nú kominn í salinn, en formaður nefndarinnar, hv. þm. Hjálmar Árnason, skuli ekki vera hérna þannig að hægt sé að spyrja hann út úr ýmsum atriðum þó að ég viðurkenni það að vísu að hæstv. félmrh. er sá sem ber ábyrgð á þessu frv. En það kom fram bæði í framsögu hans fyrir þessu frv. og öðru frv. sem við vorum með til umræðu um daginn að hæstv. ráðherra eru ekki sjálfum með öllu ljósar þær röksemdir sem liggja til grundvallar sumum tillögunum.

Það er einkum tvennt sem menn hljóta að staldra við. Í fyrsta lagi er verið að hverfa frá þeirri stefnu að færa verkefni til sveitarfélaganna. Verkefni á borð við atvinnumiðlun finnst mér dæmigert verkefni sem ætti að vera á höndum sveitarfélaganna í landinu. Ég geri mér að vísu grein fyrir því að með svæðisráðunum sem lagt er til að komi upp í kjölfar þessara laga er sveitarfélögunum gert talsvert hátt undir höfði, þ.e. þau hafa tvo fulltrúa af hverjum níu sem mynda eitt svæðisráð. En óneitanlega orkar þetta tvímælis og hefur komið fram að það virðist sem lítið samráð hafi verið haft við sveitarfélögin og alls ekkert við stærstu sveitarfélögin, þ.e. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ég óttast að þetta gæti orðið til þess að draga úr frumkvæði sveitarfélaganna til þess að skapa atvinnu, til þess að koma upp einhvers konar átaksverkefnum, sem miða að því að draga úr atvinnuleysi á þeirra svæðum.

Sömuleiðis tek ég undir að það er í hæsta máta vafasamt að gera ríkið að einu vinnusvæði með þeirri tilhögun sem hér er lögð fram í frv. Þá er það sérstaklega eitt atriði sem ég er að velta fyrir mér: Hvað gerist ef mönnum er skipað á milli landshorna? Hvað gerist ef fjölskyldufólki er bókstaflega skipað á milli landshorna? Hvað gerist ef Vestfirðingi er sagt að það sé vinna á Höfn í Hornafirði? Það er heimild, en bara heimild, í frv. til þess að taka tillit til fjölskylduhátta viðkomandi.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé alls ekki nægilegt. Ég tel að það sé nauðsynlegt að hv. félmn. velti því fyrir sér hvort það eigi ekki að setja inn skilyrðislaust og fortakslaust ákvæði um að það beri að taka tillit til fjölskylduhátta viðkomandi þegar úthlutunarnefnd tekur ákvörðun um það hvort hann skuli missa bætur ef hann hafnar flutningi. Ég held að það sé ekki nóg að treysta bara á miskunn og gott hjartalag viðkomandi manna. Ég held að löggjafinn eigi að taka miklu skýrar á þessu efni.

Það er eitt ákvæði hérna sem ég vil fagna sérstaklega. Það er 16. gr. Þar er gert ráð fyrir því að sá sem er atvinnulaus og á ekki rétt á bótum eða sá sem fellur út af atvinnuleysisskrá og þá er væntanlega átt við það ákvæði m.a. sem við ræddum í tengslum við frv. um atvinnuleysistryggingarnar um daginn, þ.e. sá sem er búinn að vera fimm ár á atvinnuleysisskrá fellur út af henni. Í frv. er gert ráð fyrir því að viðkomandi eigi rétt á aðstoð svæðisvinnumiðlunar við að kanna hvaða möguleika hann á til annarrar aðstoðar frá ríki eða sveitarfélagi. Þetta finnst mér vera mjög jákvætt ákvæði og sakna þess að svipað hugarfar og liggur að baki því skuli ekki vera annars staðar að finna í frv. við ýmis ákvæði sem eru vægast sagt umdeilanleg.

Ég nefndi í umræðunum um daginn um atvinnuleysistryggingarnar að það væri sér í lagi eitt sem mér fyndist ábótavant við það frv. sem við erum að ræða í dag. Það er stjórn hinnar nýju Vinnumálastofnunar sem á að setja upp. Þar er gert ráð fyrir níu fulltrúum. Þar á hæstv. ráðherra að fá að skipa tvo án tilnefningar og annar þeirra á að vera formaður. Í hinni gömlu ráðgjafarnefnd sem var í tengslum við vinnumálaskrifstofu félmrn., sem verður lögð af með þessu frv., áttu fulltrúar tveggja félagasamtaka sæti, þ.e. fulltrúi frá Þroskahjálp og frá Öryrkjabandalaginu. Við vitum það að hvergi er atvinnuleysisvandinn jafngeigvænlegur og einmitt í röðum fatlaðra. Ég minnist þess að þegar ég sat í atvinnumálanefnd Reykjavíkurborgar á síðasta áratug þá var það höfuðverkur okkar. Það var þess vegna sjálfsagt að þessi samtök sem eru fulltrúar þessa fólks ættu aðild að ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofunnar, en ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað veldur því að ekki er gert ráð fyrir því að a.m.k. önnur þessara samtaka eigi fulltrúa í stjórn Vinnumálastofnunarinnar? Þetta sama gengur eftir þegar við skoðum síðan svæðisráðin svokölluðu. Þar er gert ráð fyrir fulltrúum frá ASÍ, frá atvinnurekendum, tveimur fulltrúum frá sveitarfélögum og einum frá framhaldsskólum.

Nú er ég ekki á móti því að haft sé samráð við framhaldsskóla, við ungt fólk í tengslum við þetta málefni, en ég deili þeim efasemdum sem komu fram m.a. í máli hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur um þau rök sem liggja því til grundvallar. Ég skil þau ekki alveg. Og það er ágalli á þessu frv. eins og hinu frv. að rökin finnast ekki fyrir þessu og ýmsum öðrum umdeildum frumvarpsgreinum. Þau er ekki að finna í greinargerðinni með frv. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Af hverju eiga framhaldsskólar að hafa fulltrúa í svæðisráðunum en t.d. ekki fulltrúar Þroskahjálpar eða Öryrkjabandalagsins eða einhverjir sem telja megi fulltrúa fatlaðra einstaklinga sem við vitum öll að eru verst sett í þessum efnum?

Með samþykkt þessa lagafrv. yrðu numin úr gildi lögin frá 1985, lög um vinnumiðlun. Þar var tekið afskaplega laust á málum sem varða einkareknar atvinnumiðlanir. Nú er að vísu í 21. gr. nokkuð skýrt ákvæði um að einkaaðilum sé heimilt að annast milligöngu um ráðningar og þar er sagt að það sé fortakslaust skilyrði að það sé gert á kostnað atvinnurekenda. Mig langar þá að spyrja hæstv. félmrh.: Er með einhverjum hætti gengið úr skugga um það þegar verið er að ráða erlent vinnuafl inn í landið að það sé gert með þeim hætti að tryggt sé að engir aðilar notfæri sér neyð þessa fólks í heimalandinu og taki fyrir gjald frá þessu fólki þannig að eitthvert tiltekið hlutfall af launum þess renni til einkaaðila sem að vísu eru utan landsins? Ég spyr hæstv. ráðherra um þetta vegna þess að það hafa komið upp dæmi um þetta.

[12:30]

Ég minni líka á að í 14. gr. laganna frá 1985 er talað um að ráðherra geti sett með reglugerð kvöð á alla þá sem hafa atvinnurekstur með aðkeyptu vinnuafli með höndum svo fremi sem fjórir eða fleiri starfsmenn í þjónustunni tilkynni hlutaðeigandi vinnumiðlunum um laus störf. Nú hefur þróunin verið sú að fyrirtækin hafa í vaxandi mæli snúið sér til þessara einkareknu vinnumiðlana og orðið sér úti um vinnuafl með þeim hætti. Ég tel hins vegar að, sérstaklega í ástandi eins og við búum við núna sé nauðsynlegt að þessi kvöð sé áfram fyrir hendi. Þar með er a.m.k. þeim sem sækja einungis til þessara opinberu vinnumiðlana gert kleift að sitja við sama borð og hinum. Möguleikar þeirra til þess að finna sér störf eru aukin og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála því að rétt sé að halda þessu ákvæði inni í lögum og þar með að hv. félmn. íhugi að taka það inn við umfjöllun sína.