Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:35:23 (1516)

1996-11-21 12:35:23# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:35]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég trúi ekki öðru en öllum sé ljóst að aldrei hefur staðið til að flytja fólk nauðugt milli landshluta, það er engin slík hugsun. Ákvæðið um að þetta sé heimilt er vegna þess að við lítum þannig á að það yrði að meta það á hverjum tíma og í hvaða tilfelli. Það er ekki spurning um hjartalag manna heldur að allir vita að aðstæðurnar verða að metast á hverjum tíma. Hins vegar ef skylt væri að flytja alla gæti slík vinnumiðlun náttúrlega þegar orðið að skelfilegri ferðaskrifstofu og það er alveg ómögulegt að setja slíkt inn í lög. Það gengur bara ekki í praxís. Þess vegna verður löggjöfin að vera þannig að heimilt sé að meta hlutina og taka tillit til aðstæðna hverju sinni. Það er bara ekki hægt að ganga frá textanum öðruvísi.