Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 12:38:26 (1518)

1996-11-21 12:38:26# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[12:38]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég tek undir orð hv. þm. sem hafa talað á undan mér og lýsi áhyggjum mínum af því frv. sem liggur fyrir til umræðu. Hæstv. félmrh. hefur ítrekað óskað eftir því við hv. þingmenn að þeir ræði þetta frv. um vinnumarkaðsaðgerðir í samhengi við frv. um atvinnuleysistryggingar og svo sannarlega skal ég verða við þeirri áskorun.

Hins vegar tek ég undir þau orð sem hafa verið sögð fyrr í dag að það er miður að tryggingasjóður einyrkja skuli ekki vera hér til umræðu samhliða þessu máli því að þetta mál er það nátengt.

Herra forseti. Ég tek undir þær áhyggjur sem hafa verið nefndar tengdar því sem margir lesa út úr þessum frumvörpum að í rauninni sé verið að opna á þá möguleika að flytja fólk hreppaflutningum á milli landshluta ef einhverjum sýnist svo. Enda er það svo að fulltrúar launþega í þessari nefnd treystu sér ekki til þess að standa að frv. um atvinnuleysistryggingar þannig að þarna er greinilega verið að beita valdi gegn hinum vinnandi stéttum.

Herra forseti. Ég geri 5. og 6. gr. þessa frv. um vinnumarkaðsaðgerðir sérstaklega að umtalsefni. Með þessu frv. er enn á ný brotið í blað í samskiptum ríkisvaldsins og hagsmunasamtaka fatlaðra á Íslandi. Frá því að hæstv. ríkisstjórn tók til starfa hefur því miður örlað of oft á hroka gagnvart þeim sem standa höllum fæti en það eru einmitt fatlaðir og öryrkjar sem eiga þar í vök að verjast.

Fyrir rúmlega ári sáum við að í tengslum við fjárlagagerð á hinu háa Alþingi var farin sú leið að rjúfa kaupgjaldstengingu sem var við lýði og tengd því að almennar kauphækkanir skyldu endurspeglast í kjörum elli- og örorkulífeyrisþega. Þarna var brotið í blað í samskiptum þessara aðila við stjórnvöld. Þetta var gert án samráðs við þá og þrátt fyrir kröftug mótmæli var lítið farið eftir því. Mig langar, herra forseti, að fá að upplýsa hæstv. félmrh. um grundvallaratriði í kjörum fatlaðra og öryrkja og sem tengjast atvinnulífinu.

Fatlaðir eiga í mjög fáum tilvikum aðgang að verkalýðsfélögum. Það eru ekki nema örfáir fatlaðir sem hafa verið svo lánsamir að fá að nýta þann rétt, sem er talinn til grundvallarmannréttinda, að ganga í verkalýðsfélag þar sem þeir geta varið kaup sín og kjör. Ég minni hæstv. félmrh. á það að stór hluti fatlaðra stundar vinnu á vernduðum vinnustöðum, þ.e. ef þeir á annað borð hafa vinnu. Þar eru þeir líka sviptir þeim grundvallarmannréttindum að semja um kaup og kjör. Þar eru handahófskenndar ákvarðanir ráðandi um það hvaða kjör þetta fólk býr við. Þess vegna hefur það verið andi laga og andi allra alþjóðasáttmála sem Ísland hefur undirgengist og undirritað að samráð og samskipti við hagsmunasamtök fatlaðra skuli virt á sama hátt og réttindi verkalýðsfélaga til samskipta við stjórnvöld hafa verið virt. Þetta hefur endurspeglast í lögum um málefni fatlaðra, þetta hefur endurspeglast í grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðra, þetta hefur endurspeglast í alþjóðasamþykktum sem og í samþykktum á vettvangi Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins.

Fram að þessu hefur virðing í garð þessara hópa ríkt og stjórnvöld hafa lagt sig fram um það að eiga jákvæð samskipti við þessa aðila og virða rétt þeirra til ákvarðanatöku um eigin hagi. Með þessu frv. er enn á ný brotið í blað í þessum samskiptum til verri vegar. Í athugasemdum við 5. gr. segir svo, með leyfi forseta:

,,Gert er ráð fyrir að stjórn Vinnumálastofnunar verði skipuð á sama hátt og ráðgjafarnefnd vinnumálaskrifstofu félmrn., sbr. 3. gr. laga nr. 18/1985, að öðru leyti en því að ekki er gert ráð fyrir að Landssamtökin Þroskahjálp og Öryrkjubandalag Íslands eigi fulltrúa í stjórninni.``

Herra forseti. Ég segi aftur að þarna er brotið í blað í samskiptum við þessi samtök sem hafa hingað til átt þann skýlausa rétt að koma að öllum málum sem varða umbjóðendur þeirra.

Atvinnumál fatlaðra ættu að vera hæstv. félmrh. áhyggjuefni því að svo mikla brotalöm er þar að finna. Ég minni hæstv. ráðherra á að í félmrn. starfaði nefnd sem hafði það verkefni að gera tillögur til úrbóta í atvinnumálum fatlaðra. Þessi nefnd skilaði áliti í mars árið 1995. Ég harma að sjá að ekkert af þeim tillögum sem nefndin skilaði inn til ráðuneytisins hafi ratað inn í þau frumvörp sem hér eru til umræðu svo mikilvæg sem þau mál nú eru. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera í þeim málum og með þær tillögur sem nefndin lagði til að yrði unnið með og hefði eðlilega átt að rata inn í þetta frv.

Með leyfi forseta vil ég nefna eina tillögu nefndarinnar en hún var á þá leið að félmrh. skipi samninganefnd sem semji um laun, réttindi og skyldur starfsmanna í verndaðri vinnu. Nefndina skipi fulltrúar hagsmunasamtaka fatlaðra, vinnumarkaðarins, fjmrn. og félmrn. Svo mörg voru þau orð.

Allir sem hafa komið að þessum málum fram að þessu hafa virt þennan rétt hagsmunasamtaka fatlaðra til að fara með samninga fyrir þeirra hönd þar til nú. Ég skora á hæstv. félmrh. að tryggja það að horfið verði til fyrri samskipta við þessi samtök og þeim verði gert að fá sömu ábyrgð og aðrir aðilar sem þarna koma að máli, aðilar vinnumarkaðarins og launþegar. Í raun og sanni eru þessi hagsmunasamtök fatlaðra ekkert annað en sambærileg samtök og launþegasamtök í landinu. Ég vil ítreka áskorun mína til hæstv. félmrh. að taka upp ný og bætt samskipti við þessi samtök.