Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 15:04:23 (1536)

1996-11-21 15:04:23# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[15:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég verð að segja að það liggur býsna vel á mér núna. Hér hafa farið fram gagnrýnar umræður á frv. en ég sé ekki að hér hafi verið bent á nein vandamál sem ekki séu leysanleg. Mér finnst að ekki hafi verið hreyft andmælum við frv. sem ástæða er til að óttast að geri frv. ómögulegt. Ég held að við getum verið sammála um að hægt sé að bæta skipulag á vinnumiðlunum. Ég tel að við getum sameinast um að hægt sé að bæta úrræði fyrir atvinnulausa og það er meiningin með frv.

Við megum náttúrlega ekki alltaf ætla hvert öðru hinar verstu tilfinningar og búast við hinu versta af náunganum. Ef við temjum okkur slíkt endar það með því að við verðum að illmennum sjálf.

Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykn., Guðmundi Árna Stefánssyni, varaforseta þingsins, fyrir að láta það í ljósi úr ræðustólnum að menn mundu auðvitað ekki framfylgja þessu frv. til hins ýtrasta. Auðvitað mundu menn reyna að haga sér mannlega við það að framfylgja þessum lögum. Menn hafa stundum farið offari í gagnrýninni og ég vil nota þetta tækifæri til að leiðrétta eitt atriði sem mér láðist að leiðrétta í umræðum um atvinnuleysistryggingar. Þar var einn hv. ræðumaður sem hélt því fram að það ætti að taka atvinnuleysistryggingapeningana upp í barnsmeðlög. Það er ekki tilfellið. Það er ekki hugmyndin að breyta því. Atvinnuleysistryggingaupphæðin fer til hins atvinnulausa og ekki er dregið af atvinnuleysisbótum hvorki nú né heldur er hugmyndin að gera það í framtíðinni til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Innheimtustofnun sveitarfélaga gengur ekki í atvinnuleysisbætur eins og hún gerir í barnabætur.

Hins vegar fær hinn atvinnulausi hækkun á sínum atvinnuleysisbótum um 4% fyrir hvert barn sem hann hefur á sínu framfæri. Ef hann hefur ekki barn á framfæri sínu gengur það upp í meðlagið. Hinn atvinnulausi nýtur ekki peningalegs ágóða þó hann eigi börn sem hann ekki borgar með.

Það var mjög gott samkomulag um þetta frv. í nefndinni sem samdi það. Nefndin var skipuð valinkunnum mönnum og með mikla pólitíska breidd. Það var mjög gott samkomulag. Í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem hann flutti um frv. um atvinnuleysistryggingar vitnaði hann til bókunar sem hann gerði við lok nefndarstarfsins, ásamt Hervari Gunnarssyni, þar sem þeir lögðu alveg sérstaka áherslu á að þetta frv. yrði samþykkt. Það var rekið mjög á eftir þessu frv. og ég ætla að biðja hv. stjórnarandstæðinga, hv. jafnaðarmenn, sem hér hafa talað, að gefa sér tóm til að fá til viðtals við sig varaforseta ASÍ, Hervar Gunnarsson, sem færi yfir þetta með þeim í góðu tómi. Ég veit að Alþb. gæti fengið hv. þm. óháðan Ögmund Jónasson til að skýra málið í þeirra herbúðum. (Gripið fram í: Hefur ekki tekist enn þá.) (Gripið fram í.) Ég verð að játa að ég hefði getað hugsað mér einhver atriði í þessu frv. öðruvísi ef ég hefði skrifað það. En það var mjög gott samkomulag um málið í nefndinni. Hún var heil um málið og ég vildi ekki fetta fingur út í atriði sem ég gat hugsað mér öðruvísi.

Ég hef verið spurður hvort gengið sé úr skugga um að ekki sé svínað á atvinnuleyfum útlendinga, þ.e. að þeir hafi orðið að borga fjárhæðir fyrir að vera útveguð vinna hér. Það vill svo til að ég hef beðið Rannsóknarlögregluna að athuga þetta í einstökum tilfellum. Meðan ég hef verið í ráðuneytinu hefur a.m.k. tvisvar komið upp sá orðrómur að þarna væri um misferli að ræða. Þau svör sem ég hef fengið voru á þá leið að svo væri ekki. Það hefur ekki sannast að um misferli væri að ræða en það hafa komið þarna tortryggilegir hlutir fyrir, þ.e. að grunur vaknaði um að milligöngumenn kynnu að hafa þegið fé fyrir sína milligöngu.

Eins er það með einkareknar atvinnumiðlanir fyrir Íslendinga. Það hefur vaknað grunur í einhverjum tilfellum að þær hafi selt sína þjónustu með óeðlilegum hætti.

Ég held að mjög mikilvægt sé að auka veg vinnumiðlunar í landinu. Það segi ég vegna þess að ég hef orðið var við að sumir atvinnurekendur virðast fremur forðast að ráða fólk sem hefur verið á atvinnuleysisskrá. Ég tel reyndar að við þurfum að breyta því viðhorfi sem mér finnst að hér hafi komið fram í ræðum sumra hv. ræðumanna, að það liggur við að verið sé að tala niður til hinna atvinnulausu og búast við að þetta sé fólk sem ekki er neitt sérstaklega hæft. Nú vill svo til að í félmrn. hafa komið til mín allmargir atvinnulausir, þar á meðal hámenntaðir menn og mjög hæfileikaríkir, áreiðanlega stórgáfaðir, sem af einhverjum ástæðum hafa dottið út af vinnumarkaði og átt erfitt uppdráttar að komast inn á vinnumarkaðinn aftur af orsökum sem ég kann ekki að skýra. Ég held að við eigum að bera virðingu fyrir hinum atvinnulausu, eins og öðrum, og passa að tala ekki niður til þeirra.

Ef við tölum um nauðungarflutningana þá er það ekki hugsað þannig að fara eigi að flytja fólk nauðungarflutningum. Hins vegar er í frv. opnað fyrir það að unnt sé að greiða flutningastyrki ef fólk er að flytja búferlum til þess að sækja sér vinnu. Og að tala um jafnvægi, eins og hv. síðasti ræðumaður gerði, þá sé ég ekki að það sé nein goðgá. Margir hafa flutt frá Vestfjörðum og hingað suður og ég get alveg séð fyrir mér að einhverjir flytji að sunnan vestur. Ég get alveg séð það fyrir mér því þar eru tekjumöguleikar, þar er stórbrotin náttúrufegurð, þar er ódýrt húsnæði og þar eru, að mörgu leyti, skilyrði til góðrar þjónustu. Ég hef nefnilega kynnt mér þjónustuna á Ísafirði. Ég þekki hana best vegna þess að þangað sendum við flóttamenn, sem við buðum til landsins, og gengum úr skugga um að þarna er um að ræða fyrsta flokks bæjarfélag sem býður upp á hina bestu þjónustu á öllum sviðum.

Menn hafa vitnað til hrakfara og nefnt dæmi um það. Dæmi finnast um fólk sem hefur farið hrakreisu til að leita sér að vinnu. En ég vil líka taka fram að ég þekki mörg dæmi þess að fólk hafi aflað sér fjár og frama í að sækja vinnu utan sinnar heimabyggðar þannig að ekkert er einhlítt í þessu efni.

Um tryggingasjóð einyrkja, sem menn spurðu um fyrr í dag, þá tek ég undir að vont er að hafa það mál ekki undir í umræðunni með þessu frv. en það stendur þannig á að það frv. er í tryggingafræðilegri úttekt og var ekki tilbúið, því miður, en það verður vafalaust komið fyrir þingið áður en þetta mál hlýtur lokaafgreiðslu, hin tvö frumvörpin.

Mér finnst að vinnumiðlun eigi ekki og geti ekki verið staðbundið verkefni einstakra sveitarfélaga. Það er nauðsynlegt að samhæfa verkefni vinnumiðlananna og ég tel alveg tvímælalaust að skynsamlegt sé að landið sé eitt vinnusvæði. Það er aftur úr forneskju að mismuna fólki eftir búsetu ef það vill sækja vinnu. Það kom nýlega upp dæmi þess að mönnum var sagt upp vinnu í Reykjavík vegna þess að þeir voru búsettir á Selfossi. Þetta finnst mér ekki gott. Þetta er ákvæði sem mér finnst að við eigum ekki að sætta okkur við.

Menn hafa gagnrýnt þátt framhaldsskólanna eða tengsl framhaldsskóla við svæðisvinnumiðlanir. Ég lít þannig á að það sé til bóta að hafa framhaldsskólana með í ráðum. Ég er aldeilis ekki að halda því fram að það eigi að fara að reka hina atvinnulausu í skóla. En það getur verið að hægt sé að nota þá aðstöðu sem í skólanum er t.d. til að halda þar námskeið fyrir atvinnulausa. Það er hægt að hugsa sér að atvinnulausir taki þátt í einhverjum kennslustundum þó þeir stundi þar ekki reglulegt nám. Mér finnst þetta vera heldur til bóta.

[15:15]

Það hefur verið gagnrýnt að þar sem margir framhaldsskólar eru í sumum kjördæmum muni verða einhver vandræði við að tengja þar á milli. Mér finnst að það verkefni hljóti að vera leysanlegt þar sem um fleiri en einn framhaldsskóla er að ræða. Þetta þurfa ekki endilega að vera skólameistarar. Þetta geta verið skólanefndarmenn eða kennarar eða einhverjir sem hafa áhuga á starfsmenntun. Varðandi Reykjavík get ég vel hugsað mér einhver tengsl annaðhvort við Iðnskólann, Borgarholtsskóla eða Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Það eru ýmsir möguleikar í þessu og ég vil ekki loka neinum dyrum á það. Enda er það ekki mitt að halda þeim opnum því þetta er væntanlegt verkefni stjórnar vinnumiðlunar sem ekki er búið að skipa.

Ég er á móti því að lögfesta starfsáætlunarúrræðin vegna þess að þau hljóta eðli sínu samkvæmt að vera einstaklingsbundin og það er ekki víst að þau séu öll til reiðu alls staðar. Því miður verða þau alls ekki öll til reiðu alls staðar. Það er ekki aðstaða til að stunda öll þessi atriði sem listuð eru upp í greinargerð frv. á öllum stöðum.

Það er gert alveg sérstaklega ráð fyrir því að svæðisráðin hafi samráð við samtök fatlaðra. Það er einmitt mjög mikilvægt atriði að gleyma því ekki að fatlaðir þurfa að vera á vinnumarkaði líka. Það er mjög æskilegt að þeir sem hafa getu til en búa við fötlun séu ekki settir hjá. Ég held hins vegar að það sé æskilegra að þeir séu á venjulegum vinnustöðum heldur en á vernduðum vinnustöðum og að því ber að keppa. Ég þekki dæmi þess úr mínu kjördæmi að þar eru fatlaðir í vinnu í frystihúsi Þormóðs ramma og gera það bara gott. Á Siglufirði telst það bara sjálfsagður hlutur að hinir fötluðu, ef þeir hafa á annað borð líkamlega færni til að stunda vinnu, séu úti á vinnustöðunum. Eins er það víðar um land. Þetta tel ég æskilegustu þróunina þó að auðvitað komi verndaðir vinnustaðir líka inn í myndina.

Mönnum hefur þótt það óhugnanlegur texti að það gæti varðað missi bóta að neita úrræðum eða neita að fara í vinnu. En þetta er bara nákvæmlega upp úr gömlu lögunum. Þetta er nákvæmlega tekið upp úr gildandi lögum þannig að ef þetta er óhugnanlegt eða fer fyrir brjóstið á einhverjum þá hefði það átt að gera það fyrr.

Það eru engir nauðungarflutningar fyrirhugaðir. Mér finnst það ekki nein goðgá að fara fram á það við t.d. Kópavogsbúa að hann taki vinnu í Reykjavík, alls ekki. Menn hafa verið að tala um að það væri ekki bundið við kjördæmamörk og þetta væri óskýrt. Ég sé alveg fyrir mér að Seltjarnarnesi geti verið þjónað af vinnumiðlun í Reykjavík.

Ég vil taka undir þau viðurkenningarorð sem hér hafa fallið um starfsfólk vinnumiðlunar í Reykjavík. Ég tel mjög eðlilegt og sjálfsagt að nýta þá starfskrafta áfram og bjóða upp á að annaðhvort verði þetta áfram borgarfyrirtæki og verktaki hjá ríkinu eða að ríkið yfirtaki vinnumiðlunina og nýti þá starfskrafta og hæfileika sem þar eru ef svo um semst.

Ég vil taka það fram að gildistökuákvæði þessa frv. er 1. júlí 1997, þannig að (Forseti hringir.) --- herra forseti, ég er að ljúka máli mínu --- það gefst tími til að semja um þessa hluti.