Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 15:21:10 (1537)

1996-11-21 15:21:10# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[15:21]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst um að það hafi verið sátt í nefndinni, valinkunnir menn og pólitísk breidd og að við eigum að kalla í okkar fulltrúa í nefndinni, þá vil ég bara geta þess að varaforseti ASÍ tók sérstaklega fram í samtali við mig að það hefði legið fyrir að það hefði verið fullkominn stuðningur við þetta frv. m.a. vegna þess að menn töldu að sátt næðist um hitt frv. og það hafi verið mjög erfitt að horfast í augu við að það varð frá því að hverfa.

Aðeins vegna þess að ráðherrann er að gefa til kynna að við sem hér höfum talað berum ekki virðingu fyrir atvinnulausu fólki. Ég mótmæli þessu. Ég mótmæli því harkalega. Í fyrsta lagi hefur ekki eitt orð fallið hér af hálfu stjórnarandstæðinga sem gefur slíkt til kynna. Í öðru lagi ber ég virðingu fyrir fólki, virðulegi forseti, og öðruvísi en ráðherrann. Það skiptir ekki máli hvort viðkomandi er hámenntaður eða hefur aðra stöðu. Ég ber virðingu fyrir fólki óháð starfsstétt og hvað þeir eru með af prófum. En að sjálfsögðu geta allir lent í því að verða atvinnulausir, bæði menntaðir og ómenntaðir.

Vegna þess sem ráðherrann nefnir, að það sé óbreytt frá fyrri lögum að menn missi bætur ef þeir fara ekki út á land, þá minni ég bara á að með þessum lögum er verið að gera landið að einu atvinnusvæði. Það gjörbreytir stöðunni. Að sjálfsögðu er mikilvægt að auka rétt manna. Hins vegar gagnrýni ég það hversu miklar skyldur og gagnrýni kemur einmitt á hinn atvinnulausa og hve gífurleg áhersla er lögð á að allir hljóti að vera að svindla.

Virðulegi forseti. Ég spurði um sveitarfélögin og vinnumiðlanirnar. Það hafa ekki komið svör við því. Ég spurði á hvaða laun fólk ætti að fara, t.d. í störf hjá hinu opinbera og inn í þau ýmsu verkefni sem boðað er að fólk eigi að fara í, hvort það eigi að vera á atvinnuleysisbótum eða á launum hinna sem fyrir eru? Það hafa ekki komið svör við því.