Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 15:26:02 (1540)

1996-11-21 15:26:02# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[15:26]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Mergur þessa máls er sá hvort það kerfi sem verið er að koma upp virki, hvort það þjóni þeim tilgangi sem því er ætlað, þ.e. að aðstoða atvinnulausa og koma með tillögur um það hvernig hægt sé að leysa atvinnuleysisvandann. Sú gagnrýni sem fram hefur komið snýst um það hvort sú leið sem hér er farin dugi til þess, fyrir utan ýmis atriði sem hér hefur verið spurt um og snerta framkvæmdina. Það er m.a. þetta atriði með skipan svæðisráðanna og framhaldsskólana og tengslin við þá í því samhengi. Þess er getið í 11. gr. að fulltrúar framhaldsskóla á svæðinu skuli eiga fulltrúa. Svo flettir maður upp í athugasemdum við 11. gr. til að fræðast um hvernig eigi að velja þessa fulltrúa úr skólunum og maður er engu nær. Það er ekki minnst á þá. Ráðherrann nefndi varðandi Reykjavík, Borgarholtsskóla og Iðnskólann. Það er hárrétt að þar er kannski mesta verkmenntunin innan borgarinnar. En hvernig á að gera þetta? Þarf ekki að koma fram í frv. hvernig að þessu skuli staðið? Mér finnst þetta frv. mjög óljóst að þessu leyti. Það segir reyndar eitthvað um það að ráðherra geti skorið úr, en aðferðafræðin hvað þetta varðar er afar óljós.

Ráðherrann nefndi að ríkið gæti hugsanlega yfirtekið vinnumiðlun Reykjavíkur. Við skulum gefa okkur að samningar takist ekki. En ég spyr: Hver er vilji sveitarfélaganna? Hver er vilji sveitarfélags eins og Reykjavíkur sem rekur þessa öflugu og gömlu, rótgrónu borgarstofnun? Það finnst mér vera mikilvægt atriði í allri þessari umræðu. Og eftir því sem ég best veit hefur ekkert verið rætt við Reykjavíkurborg.

Að lokum, hæstv. forseti. Ég mótmæli því að hér hafi verið talað niður til atvinnulausra eða landsbyggðarinnar. Við erum einfaldlega að velta því fyrir okkur hvað þetta frv. þýðir, hvað þessi leið þýðir sem hér er verið að fara. Að mínum dómi er hún röng. Það er verið að auka miðstýringu, það er verið að fara frá fólki í stað þess að fara nær því og reyna að sinna þörfum atvinnulausra betur.