Vinnumarkaðsaðgerðir

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 15:39:04 (1549)

1996-11-21 15:39:04# 121. lþ. 30.3 fundur 172. mál: #A vinnumarkaðsaðgerðir# frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[15:39]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það er skipt um hlutverk. Ég er úthrópaður eins og einhver miðstýringarmaður en það er Kristinn H. Gunnarsson, hv. þm. Vestf., sem er frjálshyggjumaðurinn í þessu dæmi. Ég hefði frekar átt von á því að þingmenn Sjálfstfl. kæmu og býsnuðust yfir miðstýringu en ekki hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Og það er enginn að reka fólk með hnútasvipu. Hv. þm. talaði um jafnvægi sem hann var að hneykslast á í 2. gr. frv. Það var ágæt útlistun hjá honum svo langt sem hún náði, að jafnvægi er hægt að ná á tvennan hátt. Það er annaðhvort hægt að færa fólkið til vinnunnar eða freista þess að fólkið flytji þangað sem vinnuna er að hafa eða þá að flytja atvinnutækifærin til fólksins. Nú hefur fólk flutt frá Vestfjörðum í of miklum mæli en ég vil að það sé á hreinu að ég vil ekki ganga í það að fara að taka atvinnutækifæri af Vestfirðingum til þess að flytja þau hingað suður á eftir fólkinu.