Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 15:43:47 (1553)

1996-11-21 15:43:47# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[15:43]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 194, sem er 175. mál þingsins, um breytingu á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjum, með síðari breytingum. Frv. þetta er flutt til að staðfesta samkomulag milli ríkisins, borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórnar Akureyrar um breytingu á sameignarsamningi þessara aðila um eignarhald og rekstur Landsvirkjunar. Viðræður um breytingu á sameignarsamningi hófust að frumkvæði Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar sem óskuðu eftir því í byrjun þessa árs að teknar yrðu upp viðræður um eignarhald, rekstrarform og hlutverk fyrirtækisins. Í framhaldi af því skipaði ég 23. febr. sérstaka viðræðunefnd eignaraðila til að yfirfara þessi mál. Í nefndinni sátu tveir fulltrúar hvers eignaraðila og nefndin skilaði samhljóða áliti 28. okt. sl. Iðnrh., borgarstjórinn í Reykjavík og bæjarstjórinn á Akureyri undirrituðu í framhaldi af því sérstakan viðauka við sameignarsamninginn og sameiginlega bókun þar sem staðfest var samkomulag eignaraðila um efni þessa frv. sem hér er mælt fyrir. Frv. er flutt sem stjfrv. Bæjarstjórn Akureyrar og borgarráð Reykjavíkur samþykktu samkomulagið samhljóða en lokaafgreiðslu borgarstjórnar Reykjavíkur á málinu var frestað og er á dagskrá borgarstjórnarfundar síðar í dag.

[15:45]

Ekki verður annað af þessu ráðið en að víðtæk pólitísk samstaða sé um þetta mál þar sem fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafa fjallað beint eða óbeint um málið. Ég vil í upphafi gera grein fyrir meginatriðum þess samkomulags sem tekist hefur milli eignaraðila en það er eftirfarandi:

1. Langtímastefnumótun um lækkun orkuverðs í landinu.

2. Endurmat á eigendaframlögum og samkomulag um greiðslu arðs af endurmetnum eigendaframlögum.

3. Skýrar kröfur gerðar um arðgjöf af rekstri fyrirtækisins.

4. Samkomulag um óbreyttan rekstur Landsvirkjunar til ársins 2004 en breytt stjórnarfyrirkomulag.

Á liðnum árum hafa verið gerðar nokkrar tilraunir til þess að ræða breytt eignarhald að Landsvirkjun án þess að niðurstaða hafi fengist. Að þessu sinni var hins vegar brugðist við óskum sveitarfélaganna af mikilli alvöru og fenginn óháður aðili, einn stærsti fjárfestingarbanki í heimi, J.P. Morgan, til þess að vera ráðgefandi aðili um verðmætamat, lánshæfi og stöðu fyrirtækisins á alþjóðlegum mörkuðum. Ráðning slíks aðila var nauðsynleg forsenda fyrir viðræðum í málinu. Niðurstaða J.P. Morgans lá fyrir um miðjan september og var sú að ef fyrirtækið yrði sett á markað gætu verðmæti Landsvirkjunar á markaði verið um 24,5 milljarðar kr. Það var því ljóst að verðmæti Landsvirkjunar var nokkuð nálægt eigin fé þess. J.P. Morgan byggði mat sitt á virði Landsvirkjunar á eftirtöldum forsendum:

Að orkuverð til almenningsveitna héldist óbreytt á föstu verðlagi til og með ársins 2000.

Að orkuverð lækkaði um 3% á ári frá 2001--2010.

Að árleg aukning eftirspurnar á almennum markaði yrði um 2% á ári.

Að verðbólga verði að meðaltali 3%.

Að orkuverð til stóriðju fylgdi núgildandi samningum en J.P. Morgan notaði bæði eigin spá og spár ráðgjafarfyrirtækis um álver til að meta þróun orkuverðs til stóriðju.

Að fyrirtækið verði áfram undanþegið greiðslu skatta.

Að einkafjárfestar geri a.m.k. 7% raunávöxtunarkröfur.

Eins og áður segir gengur samkomulagið út á langtímastefnumótun um lækkun orkuverðs í landinu. Verðmætamatið og forsendur fyrir arðgreiðslum byggja á óbreyttu orkuverði að raungildi til aldamóta og að tryggja megi um 3% raunlækkun á raforku árin 2001--2010. Útreikningar allir eru byggðir á þessu. Hins vegar er ljóst að raunveruleikinn getur orðið annar en forsendur sem lagðar eru til grundvallar. Þróun álverðs, gengisbreytingar og verðlagsbreytingar innan lands geta haft veruleg áhrif á afkomu Landsvirkjunar. Þess vegna þótti ekki eðlilegt að semja um markmið um arðgreiðslur eða lækkun orkuverðs upp á einn aukastaf. Því er í samkomulaginu stefnt að því að lækkun á raforku geti verið á bilinu 2--3%. Markmiðin eru skýr en eðlilegt er að hafa ákveðið svigrúm.

Í samkomulaginu var sæst á mun hóflegri arðgjafarmarkmið fyrir fyrirtækið, þ.e. um 5--6% af eigin fé, en alþjóðlegi fjárfestingarbankinn hefði talið að einkaaðilar mundu setja sem lágmark, þ.e. 7% af eigin fé. Lægri arðgjafarmarkmið en 5--6% er ekki hægt að setja. Eigið fé, sem bundið er í atvinnurekstri, á ekki að skila lægri arði en hægt er að fá með því að kaupa áhættulaus ríkistryggð skuldabréf. Þetta ætti öllum að vera ljóst. Arðgjafarmarkmið Landsvirkjunar verði að jafnaði 5--6% á ári. Þar sem sett eru markmið varðandi rekstur Landsvirkjunar er ekki talin þörf á umsögn Þjóðhagsstofnunar áður en tillaga um gjaldskrárbreytingar er gerð eins og nú hefur verið. Hafa ber í huga að endanleg ákvörðun um arðgreiðslur hvers árs verður tekin af eigendum á ársfundi. Markaðsvirði fyrirtækisins var eins og áður sagði metið á 24,5 milljarða kr. Eigendanefndin gerði hins vegar tillögu um að stofn til arðgjalds til eigenda yrði mun lægri eða 14 milljarðar kr. Var sú hóflega leið farin að framreikna verðmæti eigendaframlaga til verðlags í dag með 3% raunávöxtun. Þetta er verulega lægri raunávöxtun en fengist hefur á íslenskum verðbréfamarkaði síðustu 10 árin. En með hliðsjón að tiltölulega lágu raunvaxtastigi á hluta tímabilsins frá 1996 þótti ekki óeðlilegt að uppreikna verðmætin miðað við 3% raunávöxtun. Sá hluti eigin fjár, sem telst ekki eigendaframlag, þ.e. mismunur á núverandi eigin fé Landsvirkjunar, sem er 25,7 milljarðar, og 14 milljarða eigendaframlögum, verði nefnt annað eigið fé.

Varðandi eigendaframlög og fjárhagsleg atriði er þess að geta að samkvæmt lögum um Landsvirkjun skal greiða arð af uppreiknuðum eigendaframlögum einvörðungu, þ.e. peningaframlögum eigenda. Ljóst er að verðmæti fyrirtækisins er orðið mun meira en þessi stofn til arðgjafar var. Því var algjörlega nauðsynlegt að fá óháð mat á fyrirtækið. Vandað mat liggur nú fyrir og á því eru samningar um arðgjöf og eigendaframlög byggð. J.P. Morgan telur að æskileg skuldastaða Landsvirkjunar sé sú að hreint veltufé úr rekstri sé a.m.k. 15% af heildarskuldum. Fyrirtæki sem þannig er ástatt um eigi að geta fengið lánshæfiseinkunnina A á eigin forsendum. Vaxtagjöld er helsti rekstrarkostnaður Landsvirkjunar og því er afar mikilvægt að þeirri lánshæfiseinkunn sé náð. Með hliðsjón af þessu var samið um að miða við mjög hóflega útgreiðslu arðs. Skilgreint er í samkomulaginu með hvaða hætti Landsvirkjun greiði eigendum sínum arð. Eigendaframlög mynda stofn til útreiknings arðs eins og áður segir sem miðast við 5,5% af endurmetnum stofni og kallast reiknaður arður. Gert er ráð fyrir að arðgreiðslur til eigenda verði sem hér segir:

Á meðan hreinar rekstrartekjur án afskrifta sem hlutfall af heildarskuldum er undir 12% komi 25% af reiknuðum arði til útborgunar en 75% bætist við eigendaframlög og hækka þá eigendaframlög og um leið arðgreiðslustofn. Þegar ofangreint hlutfall verður á bilinu 12--15% nemur útborgaður arður 40% af reiknuðum arði og 60% koma til hækkunar á eigendaframlögum. Eftir að hlutfallið nær 15% nemur útborgaður arður 60% af reiknuðum arði en 40% bætast við eigendaframlög. Með þessu móti taka arðgreiðslur tillit til skuldsetningar á hverjum tíma og þess er gætt að þær stefni ekki í hættu fjárhagslegum styrkleika fyrirtækisins.

Í frv. er lagt til að staðfest verði samkomulag eignaraðila um afmarkaðar breytingar á stjórn fyrirtækisins sem hafa það að markmiði að færa stjórnskipulag fyrirtækisins til samræmis við ákvæði hlutafélagalaga. Helstu breytingar á stjórnskipulagi eru þessar:

Í fyrsta lagi skal árlega haldinn ársfundur Landsvirkjunar og skal tekið tillit til ákvæða hlutafélagalaga um slíkan fund. Helstu verkefni ársfundar verða:

1. Skýrsla um starfsemi og afgreiðsla ársreiknings.

2. Skipun stjórnar.

3. Ákvörðun um arðgreiðslur.

4. Kjör endurskoðenda.

Í öðru lagi er verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra skýrð betur og eru þau ákvæði í fullu samræmi við ákvæði hlutafélagalaga.

Í þriðja lagi er samið um að stjórn Landsvirkjunar skipi sjö menn. Þeir verða skipaðir þannig:

Af hálfu ríkisins tilnefnir iðnrh. þrjá menn og þar af einn sem stjórnarformann. Komi til atkvæðagreiðslu í stjórninni hefur stjórnarformaður tvöfalt vægi atkvæða. Borgarstjórn Reykjavíkur kýs þrjá menn. Bæjarstjórn Akureyrar kýs einn mann. Þessi niðurstaða er í samræmi við tillögur einstakra eignaraðila um meðferð við val á fulltrúum sínum í stjórn Landsvirkjunar. Þar sem gert er ráð fyrir að iðnrh. skipi í stjórn Landsvirkjunar er ekki talin þörf á sérstökum áheyrnarfulltrúa frá ríkinu á stjórnarfundum. Varðandi stjórnarkjör skal bent á eftirfarandi:

Nú sitja tíu manns í stjórn Landsvirkjunar ef talinn er með áheyrnarfulltrúi ríkisins sem situr alla stjórnarfundi. Með hliðsjón af þeim breytingum sem eru að verða á markaði og því að fyrirtækið verður að starfa í auknum mæli á næstu árum í samkeppnisumhverfi er eðlilegt að stjórnin sé ekki fjölmennari en sjö menn. Það hefur verið skýr stefna ríkisvaldsins síðustu tíu árin við formbreytingar í ríkisrekstrinum að færa skipun stjórnar til framkvæmdarvaldsins frá löggjafarvaldinu. Mörg dæmi mætti nefna um slíkt. Öll réttarframkvæmd á Íslandi hefur verið í þá átt á liðnum árum að skerpa skil milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og virða þar með betur anda stjórnarskrárinnar. Fyrirliggjandi tillaga um stjórnarkjör tekur mið af þessum sjónarmiðum.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að í kjölfar ársfundarins verði haldinn samráðsfundur með fulltrúum eigenda, sveitarfélaga og tiltekinna gesta þar sem kynnt yrði starfsemi Landsvirkjunar. Þessi fundur mun verða með sama sniði og núverandi ársfundur.

Loks er þess að geta að eignaraðilar eru sammála um endurskoðun sameignarsamnings sem fram eigi að fara fyrir 1. jan. 2004. Skal sú endurskoðun á sameignarsamningi um Landsvirkjun m.a. taka til þess hvort ástæða þyki til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun. Í frv. er lagt til að staðfest verði samkomulag eignaraðila um að auka heimildir fyrirtækisins til að taka þátt í verkefnum erlendis. Í frv. er lögð til sú breyting að Landsvirkjun verði heimiluð þátttaka í fyrirtækjum á sviði orkumála en til þessa hefur skort á að fyrirtækið hafi haft lagaheimildir sem gerðu það að verkum að það gæti stuðlað að útflutningi í íslenskri verkkunnáttu á sviði virkjanamála

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um hraða málsmeðferð í þessum viðræðum. Í því sambandi má benda á að málsmeðferðin nú var sambærileg og málsmeðferð við síðustu endurskoðun á lögum um Landsvirkjun árið 1983. Það voru fulltrúar eignaraðila utan stjórnar sem ræddu meginatriði varðandi eignaraðild. Stjórn Landsvirkjunar kom þar hvergi að. Stjórnin er skipuð til þess að fara með málefni fyrirtækisins innan ramma laga og sameignarsamnings. Hins vegar er ljóst að ríkisstjórnin og sveitarfélögin semja beint um lagalega umgjörð fyrirtækisins.

Viðhorf til orkumála í heiminum hafa breyst. Í upphafi aldarinnar var litið á orkuframleiðslu og dreifingu sem þjónustusvið sem hið opinbera ætti að rækja gagnvart almenningi. Í tímans rás hafa þessi sjónarmið breyst. Starfsaðstæður hafa þróast þannig m.a. með aukinni samkeppni að líta verður á orkuframleiðslu sem eðlilegan hluta af atvinnustarfsemi í landinu.

Sú mikla breyting sem er að verða á orkumálum í heiminum þýðir að orkufyrirtækin verða að lúta sömu lögmálum og annar almennur atvinnurekstur. Þessi breyting þýðir að ekki verður komist hjá því að innleiða viðskiptaleg sjónarmið í rekstri þessara fyrirtækja. Þetta tekur til allra þátta þar á meðal til stjórnskipulags, arðsemi, fjárfestinga, arðgreiðslna og aukins sveigjanleika í rekstri til þess að bregðast við breyttum aðstæðum á markaði hverju sinni.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til hv. iðnn.