Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:00:03 (1554)

1996-11-21 16:00:03# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:00]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á síðasta Alþingi lögðum við nokkrir þingmenn fram tillögu þar sem m.a. var lagt til að í þeim viðræðum sem þá voru fram undan milli eignaraðila Landsvirkunar yrði skorað á iðnrh. að taka sérstaklega upp til viðræðu við aðra eignaraðila þá breytingu á rekstrarformi Landsvirkjunar að henni yrði breytt í hlutafélag. Það sem sem hér er að gerast og er niðurstaða úr viðræðum eignaraðila, sem óskað er eftir að Alþingi staðfesti, er að það er stigið fyrsta skrefið og nokkuð stórt skref í þá átt að gera þessa breytingu á rekstri Landsvirkjunar, rekstrarformi hennar, þó að ekki sé stigið alla leið. Er vissulega ástæða til þess að fagna því að þó þetta skref í þá átt hafi verið stigið. Það er líka ástæða til að vekja athygli á því að það hafa að ég held allir stjórnmálaflokkar á Íslandi komið að málinu í þeim afgreiðslum sem átt hafa sér stað á vegum sveitarfélaganna tveggja sem eru meðeigendur ríkisins í Landsvirkjun, þ.e. Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar. Á Akureyri varð niðurstaðan sú að þetta samkomulag var samþykkt samhljóða með atkvæðum allra flokka sem þar eiga fulltrúa. Þá hefur komið fram hjá Reykjavíkurborg að allir fulltrúar Reykjavíkurlistans styðja þetta samkomulag. Þess er að vænta eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra að endanleg ákvörðun af hálfu borgarstjórnar liggi fyrir innan skamms. Þannig virðist vera veruleg samstaða um það skref sem hér er verið að stíga. Þó vissulega megi kannski gera athugasemdir við smærri efnisatriði þá virðist liggja fyrir sæmileg sátt í málinu.

Það mætti líka ætla að hér innan þingsins væri þó nokkur sátt um meginefnisatriði þessa máls. Ég vil í því sambandi t.d. benda á hvað segir í mjög athyglisverðu riti sem út kom ekki alls fyrir löngu eftir hv. þm. Svavar Gestsson og heitir Sjónarrönd. Þar er lýst ýmsum viðhorfum sem hann telur að jafnaðarmenn eigi að hafa í heiðri við skoðun á breytingum og viðfangsefnum í íslenskum stjórnmálum. Þar segir svo, með leyfi forseta, í kafla sem heitir Lýðræðislegt aðhald. 9.:

,,Unnið verði markvisst að því að breyta ríkisrekstrinum. Stundum á að selja opinber fyrirtæki en einnig getur ríkið stofnað ný fyrirtæki þegar það á við, allt eftir aðstæðum.``

Þetta er að sjálfsögðu alveg laukrétt og þetta er nákvæmlega það sem hér er verið að gera. Hér er verið að vinna markvisst að því að breyta ríkisrekstrinum. Að vísu er ekki verið að gera ráð fyrir því að selja opinbert fyrirtæki, sem Landsvirkjum er því hún er í eigu opinberra aðila. En gert er ráð fyrir að rekstrarfyrirkomulaginu verði breytt í þá átt sem samstaða hefur orðið um meðal fulltrúa þeirra flokka sem að málinu hafa komið í sveitarstjórnum. Síðan útskýrði hv. þm. þennan punkt nokkru betur og segir orðrétt, með leyfi forseta, svo í undirlið a.:

,,Eðlilegt væri að hefjast þegar handa við að opna allan orkugeirann fyrir fjölbreyttri eignaraðild þar sem viðskipti um langt skeið skapi tiltekinn áhrifarétt`` o.s.frv. Það er nákvæmlega þetta sem verið er að gera. Það er verið að hefjast handa til þess að opna orkugeirann fyrir fjölbreyttri eignaraðild þar sem viðskipti um langt skeið skapa tiltekinn áhrifarétt --- nákvæmlega svona. Síðan spyr hv. þm.:

,,Á að gefa þjóðinni allri Landsvirkjun með því að senda hverjum manni hlutabréf í fyrirtækinu?`` Það er spurning sem út af fyrir sig er ekki svarað í þessu frv. því það er ekki stigið svo langt að breyta Landsvirkjun í hlutafélag. En hv. þm. segir líka:

,,Það á reglulega að efna til umræðu um einkavæðingu fyrirtækja og um félagseign annarra fyrirtækja. Það á hvorki að vera sjálfgefið að fyrirtæki séu í einkaeign né í félagseign.`` Þetta er alveg laukrétt hjá hv. þm. og ég er honum algjörlega sammála um það sem hann segir hér. Við erum að hefjast handa með svipuðum hætti og hv. þm. leggur til og það er auðvitað meiginatriði málsins. Um einstaka þætti í framkvæmdinni geta menn síðan að sjálfsögðu verið ósammála, talið að eitt fari betur en annað, en það verður ekki annað séð en að menn séu nokkuð sammála í meginatriðum um það skref sem hér er verið að stíga eins og kemur fram í afstöðu fulltrúa allra stjórnmálaflokka í sveitarstjórnum þeim sem þegar hafa afgreitt málið og í tilvitnunum sem hér hafa verið tilfærðar. Ég get með sama hætti vitnað í samþykktir flokksþings Alþfl. um orkumál sem gerðar voru á síðasta flokksþingi þar sem stutt er einnig við þetta meginsjónarmið sem hér er verið að framkvæma. Þannig sé ég satt að segja ekki annað, virðulegi forseti, en það sé sæmileg samstaða meðal þings og þjóðar um meginefnisatriði málsins.

Það eru hins vegar einstök atriði í þessu frv. sem ástæða væri til að staldra aðeins við og ef til vill að spyrja hæstv. ráðherra um. T.d. hvort það sé að hans áliti æskilegt fyrirkomulag þegar menn eru að sníða fyrirtæki eins og Landsvirkjun umhverfi hlutafélags. Þótt ekki sé gengið alla leiðina þá eru menn þó að sníða fyrirtækinu umhverfi hlutafélags þar sem ársfundur t.d. tekur veigamiklar ákvarðanir o.s.frv., þar á meðal um arðgreiðslur alveg eins og á sér stað í hlutafélagi. Hvort það sé að hans áliti æskilegasta stjórnskipun í slíkum rekstri að aðilar hafi þar neitunarvald. Þarna er gert ráð fyrir að stjórnin sé skipuð þremur fulltrúum frá ríkinu og fjórum fulltrúum frá sameignaraðilum ríkisins, sveitarfélögunum tveimur, þ.e. sjö stjórnarmenn, en að atkvæði formanns vegi tvöfalt. Þetta þýðir með öðrum orðum að það getur komið upp sú staða að einfaldur meiri hluti nægi ekki, t.d. samstaða fjögurra fulltrúa sveitarfélaga, og þá hafi fulltrúar ríkisins stöðvunarvald þó þeir séu aðeins þrír vegna þess að atkvæði formanns gæti þá vegið tvöfalt. Og þá verði fjögur atkvæði gegn fjórum þannig að niðurstaða í hinni sjö manna stjórn fæst ekki.

Mér finnst það ekki skipta meginmáli í því sambandi hvort Alþingi kýs stjórnarmenn ríkisins eða hvort ráðherra skipar stjórnarmenn ríkisins, menn geta haft mismunandi skoðanir á því. Ég er út af fyrir sig jafnreiðubúinn að sættast á breytingu í þá veru að Alþingi kysi þessa stjórnarmenn eins og að ráðherra skipaði þá en mér finnst þetta ekki vera neitt meginatriði í því máli sem við erum að fjalla um. Mér finnst meginatriðið vera það sem ég vék að í upphafi að þarna erum við að stíga skrefin til þess eins og ég vitnaði til hér áðan að hefjast þegar handa um að opna allan orkugeirann fyrir fjölbreyttri eignaraðild. Það er auðvitað mergurinn málsins.

Þá vil ég gjarnan fá að ræða eilítið um galdskrárákvarðanir sem fjallað er um m.a. í athugasemdum á bls. 5 og í frekari skýringum við 8. gr. á bls. 8 í athugasemdum. En þar eru ákvæði sem gera ráð fyrir því, sem er mjög eðlilegt, að raforkuverð skuli við það miðað eins og segir í athugasemdunum: ,,... að eðlilegur afrakstur fáist af því fjármagni sem á hverjum tíma er bundið í rekstri fyrirtækisins.`` Þetta eru hinar eðlilegu rekstrarforsendur félags sem rekið er sem hlutafélag eða í slíku umhverfi. Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað nú um ákvæðið þar um að ekki skuli heimilt að hækka orkuverð til almenningsveitna vegna þarfar sem ef til vill skapast af óhagstæðum samningum um orkusölu til stóriðju? Hvernig harmónerar það við þessa almennu stefnu sem hér er framsett, sem er mjög eðlileg í hlutafélagsumhverfi, að ákvörðun um galdskrá sé tekin miðað við eðlilega kröfu um arðsemi eign fjár? En hvernig gengur það saman við það markmið sem ég var hér að lýsa, sem líka er í lögum, að orkuverð til almenningsveitna megi ekki hækka jafnvel þó svo óhagstæðir samningar um orkusölu til stóriðju skuli vera gerðir? Ég sé ekki betur en þarna rekist markmiðin hvort á annað og þá er spurning hvort vegur sterkara.

Auðvitað má spyrja sig að því hvort þessi breyting sem hér er verið að gera geri með einhverjum hætti torveldara að tryggja öllum sem við Landsvirkjun skipta jöfnunarverð á orku. Það mál munum við takast á við á öðrum vettvangi, þ.e. þegar hæstv. ráðherra leggur væntanlega fram tillögur til breytingar á orkulögum í samræmi við nýjar tilskipanir frá Evrópusambandinu, þannig að það mál á eftir að koma til sérstakrar umfjöllunar hér á Alþingi Íslendinga ef ég veit rétt og er ekki til umfjöllunar í þessu frv. sem hér um ræðir. Ef ég veit rétt þá er þannig frá tilskipun Evrópusambandsins gengið að hún bannar alls ekki jöfnun á raforkuverði að því tilskildu að sú jöfnun sé sýnileg, þ.e. að það komi fram að þarna sé um sérstakar aðgerðir að ræða til stuðnings hinum dreifðu byggðum og að þær jöfnunaraðgerðir séu sýnilegar. Hin nýja orkutilskipun Evrópusambandsins mun koma til umræðu hér á Alþingi síðar, um þau mál er ekki fjallað í þessu frv. Þar verður m.a. fjallað um jöfnun orkuverðs og þar eru allir möguleikar á því fyrir Alþingi Íslendinga ef það svo kýs að varðveita það ástand sem nú er að heildsöluverð á orku frá Landsvirkjun sé hið sama alls staðar án tillits til þess hvaða aðili kaupir. Ef einhver er þeirrar skoðunar að í þessu frv. sé verið að hnekkja möguleikum til jöfnunar á orkuverði þá er það rangt.

Ég vil einnig víkja sérstaklega að því sem kveðið er á um í 1. gr. frv., þ.e. að Landsvirkjun sé heimilt að selja þá þekkingu sem fyrirtækið hefur aflað sér og er að sjálfsögðu hið eðlilegasta mál að svo sé gert. Í því sambandi langar mig til að spyrja ráðherra um afstöðu hans til annarra hluta sem sé afstöðu hans til þess hvort verktakar sem unnið hafa á vegum Landsvirkjunar hafi heimild til að selja þriðja aðila niðurstöður sem byggjast á upplýsingum sem þeir hafa sjálfir aflað sér sem verktakar í ákveðnum þáttum fyrir Landsvirkjun og fengið fullt gjald fyrir. Ég varð þess áskynja að ýmsir erlendir aðilar sem hingað komu til viðræðna við stjórnvöld um orkumál höfðu átt næsta auðvelt með að afla sér allra grunnupplýsinga sem Landsvirkjun hafði yfir að ráða um kostnað við raforkuöflun á þeim virkjunarsvæðum sem helst komu til greina til virkjana og gerðu það með þeim hætti að þeir gátu keypt þær upplýsingar frá einkaaðilum sem höfðu verið verktakar í þágu Landsvirkjunar til þess að vinna trúnaðarupplýsingar fyrir Landsvirkjun um kostnað á hverja selda orkueiningu frá slíkum virkjunum. Þetta er náttúrlega með öllu óþolandi. Að aðilar sem hafa selt sérþekkingu sína með þessum hætti til fyrirtækis eins og Landsvirkjunar skuli í krafti þeirrar sérþekkingar sem þeir hafa aflað sér geta gerst ráðgjafaraðilar þeirra sem ætla að skipta við þessa sömu Landsvirkjun og geta selt þeim nákvæmar upplýsingar um það hvert er kostnaðarverðið í orkuframleiðslunni sem seljandi orkunnar, Landsvirkjun, hefur yfir að ráða. Þessir aðilar virtust vera nákvæmlega jafn vel heima í virkjunarmöguleikum okkar Íslendinga og kostnaði við útfærslu þeirra eins og Landsvirkjun sem átti að sjá um orkusöluna.

[16:15]

Þarna voru hinir íslensku verktakar að selja þekkingu sem þeir voru búnir að selja öðrum, þ.e. Landsvirkjun. Á þessu þarf að taka og ætti að taka í því frv. sem hér liggur fyrir, þ.e. að eins og Landsvirkjun var heimilt að selja þekkingu sína þá væri tekið á því að þeim sem gerðust verktakar fyrir Landsvirkjun í tilteknum viðfangsefnum væri óheimilt að selja ráðgjöf byggða á þeirri þekkingu til annarra, þ.e. að ekki yrði samið við slíka aðila.

Þá er mjög áhugavert í þessu frv. þar sem rætt er um framlög stofnaðila og hvernig með skuli fara eins og gert er t.d. á bls. 4 í almennum athugasemdum og miklu nánar í skýringu við 2. gr. Þar er með málið þannig farið að lagt er til að greiða beri eigendum Landsvirkjunar arð af öllum framlögum sem þeir hafa lagt og munu leggja Landsvirkjun til, óháð hvernig þeir leggja Landsvirkjun til umræddar eignir. Þar er gert ráð fyrir því að arð skuli greiða af endurmetnum eigendaframlögum og þá í fyrsta sinn miðað við 31. des. 1995. Þar er talið að þessi framlög, endurmetin eigendaframlög, nemi 14 milljörðum kr. á móti eigin fé Landsvirkjunar sem nam þá 25,7 millj. kr., þ.e. af þessum endurmetnu eigendaframlögum að fjárhæð 14 milljörðum kr. á að greiða eigendum arð sem reiknast skal á hverju ári 5,5% en síðan tekur ársfundur eins og ársfundur hlutafélags ákvörðun um hve mikið af þessum reikningsfærða arði eigi að greiða út til eigenda. En það sem er athyglisvert í þessu sambandi er að inni í þessum eigendaframlögum eru reiknuð vatnsréttindi. Hver leggur fram vatnsréttindi? Það er íslenska ríkið sem keypti þessi vatnsréttindi á sínum tíma af Títanfélaginu á vatnasvæði Þjórsár. Þetta er metið sem hluti af eign ríkisins í Landsvirkjun og af því skal greiðast arður. Hvað eru menn hér að gera? Menn eru að taka auðlindaskatt af vatnsréttindum. Menn eru að eignfæra vatnsréttindi sem eign hjá ríkinu og taka síðan arð af þessari eign sem reikna skal 5,5% á ári. Menn eru sem sé að stíga það stórmerkilega skref að innleiða auðlindaskattshugtakið inn í orkubúskap landsmanna og eru það engin smátíðindi. Menn reikna sem eign í þessu fyrirtæki vatnsréttindin sem ríkið hefur lagt fram. Menn gera kröfu um að arður skuli greiðast af vatnsréttindum 5,5% á ári af þeirri endurmetnu eign. Menn eru sem sé að innleiða auðlindaskattshugtakið í nýtingu orkulinda, þ.e. inn í nýtingu vatnsréttinda. Þegar svo verður komið, sem væntanlega gerist á þessu ári ef guð lofar, að það verði skorið endanlega úr um vatnsréttindi og dregin mörkin milli einkaaðila og almenningsréttinda, þá liggur fordæmið fyrir: Greiða skal 5,5% arð á ári fyrir að nýta réttindi í eigu almennings til virkjunar vatnsfalla. Fer nú að þrengjast um þá sem enn reyna að verjast því að sömu reglur verði teknar upp hvað varðar nýtingu á hinni meginauðlind þjóðarinnar, fiskimiðunum, þegar búið er að setja í lög á Íslandi að nýtingarrétturinn á vatnsréttindum skuli eignfærast hjá þeim fyrirtækjum í opinberri eigu sem hafa fengið slík réttindi og síðan skuli ríkið fyrir hönd almennings í landinu gera kröfu um arðgreiðslu af þeim sem nýta þessi réttindi. Það er verið að innleiða þetta viðhorf í hverri löggjöfinni á fætur annarri. Það var innleitt hvað varðar útboð takmarkaðra tollkvóta samkvæmt GATT að fyrir slík réttindi sem ekki er hægt að veita öllum landsmönnum og ríkið ráðstafar og skammtar, skuli greiða gjöld. Það er verið að leiða þessa sömu hugsun í lög um fjarskipti og póstþjónustu sem hæstv. samgrh. kynnti hér á Alþingi fyrir skömmu. Þar var gert ráð fyrir því að þegar eigi að úthluta takmörkuðum réttindum af hálfu framkvæmdarvaldsins til aðgangs t.d. að sjónvarpsrásum sem eru takmörkuð réttindi og ekki allir geta fengið en gefa tækifæri til þess að hagnast umtalsvert á nýtingu réttinda sem almannavaldið skammtar, þá skuli fyrir það koma gjald. Nú er verið að innleiða í þessum lögum þá stórmerku nýjung að meta skuli til verðs vatnsréttindi sem ríkið leggur fram jafnvel til fyrirtækja sem ríkið sjálft á meiri hlutann í og að það skuli vera gerð krafa til þess að fyrirtækið greiði 5,5% arð til eigenda sinna, íslensku þjóðarinnar, fyrir nýtingu á þessum réttindum. Stöðugt er því að styrkjast staða þeirra sem vilja og hafa fært rök fyrir því að þjóðin eigi að njóta arðs af sameign sem ráðstafað er til einstaklinga í skömtunarkerfi eins og t.d. ríkir í kvótakerfinu til sjávarins og eins og ríkir í því kerfi sem við notum til úthlutunar á takmörkuðum virkjunarréttindum. Þetta er stórmerkilegt nýmæli og mjög ánægjulegt.

Hins vegar væri ef til vill eðlilegara að takast á við málið eins og við nokkrir þingmenn lögðum til í fyrra, m.a. vegna þeirra skipulagsbreytinga sem eiga eftir að verða í orkumálum þar sem mun verða, eins og hv. þm. Svavar Gestsson ræddi um, opnun fyrir fjölbreyttari eignaraðild að orkugeiranum en á sér stað í dag, þ.e. fleiri aðilar, fjölbreyttari eignaraðilar munu öðlast rétt til að ganga inn í orkugeirann og nýta orkulindir Íslands en bara fyrirtæki í eigu ríkisins og sveitarfélaga. (Iðnrh.: Er talað um útlendinga?) Ja, það veit væntanlega hæstv. ráðherra betur en ég (Iðnrh.: Ég hef ekki lesið þetta.) vegna þess að hæstv. ráðherra er væntanlega að undirbúa hvernig eigi að bregðast við tilskipun Evrópusambandsins á Íslandi. Hann ætti frekar að geta svarað þeirri spurningu en ég hvort gert er ráð fyrir því að útlendingar gætu átt þar aðild að. En ég bendi honum á það sem hann auðvitað veit, að nú þegar hafa útlendingar rétt til að festa fé í íslenskum orkufyrirtækjum. Það eru væntanlega engin stórtíðindi í hans huga. En hv. þm. Svavar Gestsson bendir á það og leggur það til að opna skuli allan orkugeirann fyrir fjölbreyttari eignaraðild, þ.e. að fleiri aðilar gætu komið að því verki en Landsvirkjun, Rarik, Rafmagnsveita Reykjavíkur, Hitaveita Reykjavíkur, Orkubú Suðurnesja og hvað það nú heitir. Þá er mjög eðlilegt að ríkið, sem heldur áfram að skammta á einhvern hátt aðgang að þessari auðlind, ef til vill með lagasetningu frá Alþingi í hverju tilviki, geri þá kröfu til þessara aðila sem fá þá heimild ríkisins til að nýta réttindi í almannaeigu, að þau greiði gjald fyrir, að þessi fyrirtæki greiði beinlínis gjald fyrir nýtingarréttinn hvort sem um er að ræða jarðgufuvirkjanir eða vatnsaflsvirkjanir og að sú greiðsla renni til almannasjóða. Auðvitað verða menn að bregðast svo við því að það er ekkert víst að ríkið eigi beina eignaraðild að slíkum fyrirtækjum og geti sótt sér arðgreiðslur af sameiginlegum auðlindum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að ríkinu séu færð til eignar þessi vatnsréttindi og síðan sé gerð arðgreiðslukrafa af þeim. Því þegar fleiri aðilar koma inn á þennan markað, eins og hv. þm. Svavar Gestsson ræðir um í bók sinni, þegar allur orkugeirinn verður opnaður fyrir fjölbreyttari eignaraðild, þá er það náttúrlega eðlilegasti mótleikur ríkisins að gera ráð fyrir því að allir þessir fjölbreyttu eignaraðilar þurfi að greiða gjald til almannasjóða fyrir nýtingu almannaeignar.

Herra forseti. Ég tel að menn ættu að undirbúa sig undir að stíga það skref til fulls sem stigið er til hálfs í þessu frv. og bendi á að það er líklegt að menn þurfi jafnvel að skoða rekstrarform Landsvirkjunar, að minnsta kosti viðfangsefni Landsvirkjunar, innan mjög skamms tíma, þ.e. þegar menn þurfa að taka tillit til nýrrar tilskipunar Evrópusambandsins í orkumálum þar sem meðal annars verður áskilið að greint sé á milli þeirra aðila sem afla rafmagns eða virkjunaraðilans, þess sem flytur rafmagn frá einum smásala til annars og þess sem selur á almennum markaði. Þá strax þurfa menn að velta við því frv. sem hér er verið að afgreiða og að minnsta kosti skilja í milli annars vegar virkjanastarfsemi Landsvirkjunar og hins vegar orkusölu og flutningsstarfsemi Landsvirkjunar, þannig að þarna sé alveg aðskilið. Þegar menn hugleiða það og þar á meðal hvernig menn eiga að koma fyrir t.d. rekstri byggðalína sem eiga að tryggja að jafnt orkuverð geti orðið hvar sem er á landinu á starfssvæði slíkra lína, hver á að greiða þann félagslega kostnað og hvernig á að framkvæma þann jöfnuð, það er mjög eðlilegt að um leið skoði menn aftur hvort ekki sé rétt að stíga skrefið til fulls og gera Landsvirkjun, hvort sem það yrði þá fyrirtæki í tveimur aðskildum rekstrarlegum hlutum eða tvö fyrirtæki, að hlutafélagi.

Það er sagt í aðfaraorðum frv. á bls. 4 að nefndin sem vann þetta samkomulag og lauk störfum í október 1996 hafi lagt til að rekstrarform Landsvirkjunar yrði óbreytt að sinni, en fyrir 1. janúar árið 2004 færi fram athugun á því hvort ástæða væri til að stofna hlutafélag um Landsvirkjun. Mér segir svo hugur að sú athugun fari nú e.t.v. fram fyrr vegna nýrra aðstæðna í skipulagi orkumála. En ég hefði talið ákjósanlegt að kveðið yrði á um þetta í frv. sjálfu þannig að við ákvæði til bráðabirgða í frv. kæmi nýtt ákvæði II þar sem t.d. segði að fyrir árslok árið 2003 skuli stjórn Landsvirkjunar í samráði við eignaraðila hafa lokið undirbúningi að því að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og frv. til laga um slíkar breytingar yrði þá lagt fyrir Alþingi í byrjun árs 2004 þannig að málið gæti hlotið afgreiðslu Alþingis fyrir lok þess árs. Fyrst viljayfirlýsingin liggur fyrir í aðfaraorðum frv. þá er ekkert óeðlilegt að sú viljayfirlýsing sé gerð ákveðin með því að setja hana í ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. þannig að það liggi fyrir að áður en sá frestur rennur út sem rætt er um í aðfaraorðunum --- en hann rennur út fyrir 1. jan. 2004 --- gefist Alþingi kostur á að fjalla um þessa breytingu á rekstrarformi Landsvirkjunar og eignaraðilar geri sér það ljóst að fyrir þann tíma verði þeir að hafa náð samkomulagi um útfærslu á því og að leggja þá útfærslu fyrir Alþingi, sem síðan að sjálfsögðu er ekkert bundið því hvort það samþykki þá breytingu eða ekki. En Alþingi fær þó að minnsta kosti að fjalla um málið á þeim tíma sem tiltekinn er.

[16:30]

Í fylgiskjölum með frv. kemur m.a. fram allviðamikið álit J.P. Morgans um breytingu á rekstrarformi og hvað slík breyting mundi hafa í för með sér til að breyta rekstrarumhverfi Landsvirkjunar, þar á meðal möguleikum Landsvirkjunar til að lána og á ávöxtunarkröfum sem gerðar yrðu til Landsvirkjunar. Þar er sagt, sem út af fyrir sig er engin frétt, að í öllum tilvikum er auðveldara að fá lán hvort heldur er erlendis eða innan lands á hagstæðum kjörum ef um fyrirtæki er að ræða sem nýtur ríkisábyrgðar en það er bara ekkert sem á við Landsvirkjun sérstaklega. Það á við öll fyrirtæki á Íslandi. Og ef menn væru að hugsa um hagsmuni fyrirtækjanna per se án þess að líta á hagsmuni þjóðarheildarinnar, þá yrði niðurstaðan eflaust sú að hagkvæmast yrði að öll fyrirtæki á Íslandi yrðu rekin meira eða minna með ríkisábyrgð vegna þess að þá fengju þau hagstæðustu lánskjörin. En ég held að menn hljóti að sjá að þegar það væri skoðað frá sjónarmiði skattborgara og þjóðfélagsins í heild væri það ekki það æskilegasta að fyrirtæki á Íslandi færu í vaxandi mæli yfir í ríkisábyrgð og er nú nóg að um eða yfir 70% af öllu fjármálakerfi þjóðarinnar sé rekið á ábyrgð skattborgara. Sú breyting sem gera þarf og rætt hefur verið um að gera eigi á Landsvirkjun og öðrum ríkisfyrirtækjum hlýtur að kalla á að einhverjar breytingar verði á þessum þætti í rekstrarumhverfi fyrirtækjanna. Það verður þá bætt upp af öðrum atriðum.

Það kemur fram hjá J.P. Morgan að Landsvirkjun sé það öflugt fyrirtæki að þó að ríkisábyrgð væri aflétt og fyrirtækið gert að hlutafélagi yrði lánshæfiseinkunn fyrirtækisins samt sem áður því sem næst hin sama og hún er í dag, þ.e. lánshæfi fyrirtækisins yrði þá metið A til A- í staðinn fyrir A+ eins og íslenska ríkisins, og að kostnaðurinn, ef ég man rétt, eða breytingin á ávöxtunarkjörum eða ávöxtunarkröfu í garð slíks fyrirtækis eftirnákvæmlega breytinguna næmi aðeins um 0,03%. Þannig að óhagkvæmnin vegna lánsfjáröflunar og vaxtakröfu af lánum af því að breyta fyrirtækinu úr opinberu fyrirtæki eða fyrirtæki í opinberri eigu, sem rekið er meira og minna á ríkisábyrgð, og yfir í hlutafélag er ekki svo mikil. Óhagræðið er ekki svo mikið en tvímælalaust yrði hagræði af þeirri breytingu fyrir samkeppnisstöðu fyrirtækisins og fyrir almennan rekstur þess.

Það kemur líka fram hjá J.P. Morgan á bls. 13 í greinargerð með frv. að hann sé þeirrar skoðunar að óbreytt rekstrarform og hlutverk Landsvirkjunar, sem fyrirtækis sem hefur með höndum bæði framleiðslu og flutning raforku, tryggi því greiðastan aðgang að fjármálamörkuðum og þar með lægstan fjármagnskostnað. En það er alveg ljóst, eins og ég sagði áðan, að það rekur að því og það fyrr en seinna að Landsvirkjun mun ekki geta gegnt þessu tvíþætta hlutverki, þ.e. annast í senn bæði framleiðslu og flutning raforku því það brýtur í bága við tilskipun Evrópusambandsins sem íslenskur orkubúskapur verður að aðlagast. Þá er líka fallin brott sú ábending J.P. Morgans að þetta rekstrarform sem er í dag tryggi Landsvirkjun lægri fjármagnskostnað og betri aðgang að fjármagnsmörkuðum en ef fyrirtækinu yrði breytt í hlutafélag, því að það er augljóst, og menn verða að horfast í augu við þá staðreynd, að þessi samrekstur á orkuvinnslunni og dreifingunni verður ekki til frambúðar. Ég vil því hvetja til þess að í þeirri nefnd, sem ég á raunar sæti í, sem fær frv. til skoðunar verði hert á ákvæðunum í samkomulagi eignaraðila um endurskoðun á rekstrarformi eigi síðar en í ársbyrjun 2004 þannig að ákvæði þar um kæmu inn í bráðabirgðaákvæði frv. sem stefna löggjafans.

Herra forseti. Ég tel að ég hafi rætt þýðingarmestu atriði þessa frv. Auðvitað koma ýmis framkvæmdaratriði til skoðunar sem menn þurfa að setjast yfir en ég held að menn séu sammála um meginatriðin í þeirri breytingu sem hér er verið að gera enda er sú breyting óhjákvæmileg m.a. vegna þeirra samninga sem við höfum undirritað sem hluta af okkar EES-skuldbindingum og raunar kalla þær skuldbindingar á miklu meiri breytingar á starfsháttum Landsvirkjunar og skipulagi orkumála en verið er að gera. Þess vegna ætti þetta frv. væntanlega að eiga greiða leið í gegnum Alþingi þar sem mikil samstaða er um meginefni þess.