Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:37:54 (1555)

1996-11-21 16:37:54# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:37]

Svavar Gestsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að óska hv. þm. til hamingju með að hafa verið kjörinn formaður Alþfl. og tel að það hljóti kannski að einhverju leyti að vera skýringin á því að hann hafi ekki fylgst sem skyldi með umræðunum um þetta mál að undanförnu. Það er talsvert mikill ágreiningur um það og hann er pólitískur. Ég væni hv. þm. ekki um að gera það lítið úr samherjum sínum í stjórnarandstöðunni að hann hafi ekki orðið var við þann málflutning og þær aðvaranir sem uppi eru af okkar hálfu en einnig af hálfu fjölmargra þingmanna stjórnarflokkanna. Það er því augljóst að málið þarfnast verulegrar umræðu.

Ég tel t.d. að hér sé ekki markvisst stefnt að því að breyta þessu fyrirtæki. Ég tel að ekki sé tekið á aðalvandamálum Landsvirkjunar í frv. eins og það liggur fyrir. Ég tel að mikið meira þurfi að koma til og ég heyri á hv. þm. að hann er tilbúinn til að vinna að því að breyta þessu samkomulagi í hv. iðnn. og ég mun leggja mig fram um það að stuðla að sem víðtækustu samkomulagi.

Ég tel að ekki sé verið að opna orkugeirann fyrir fjölbreyttri eignaraðild með þessu frv. Ég tel að þvert á móti sé verið að frysta hlutina eins og þeir eru þó nokkuð fram á næstu öld. Þannig tel ég málið liggja og ég er viss um að hv. þm. sannfærist um það um leið og hann lítur aðeins betur á málið.

Jafnframt vil ég þakka honum sérstaklega fyrir að auglýsa bók mína, Sjónarrönd, aftur og aftur í þessum ræðustól en önnur prentun er nú senn á þrotum.