Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:39:33 (1556)

1996-11-21 16:39:33# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:39]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Vel vissi ég það að ágreiningur hefur verið uppi um ýmis mál, eins og um að stjórn Landsvirkjunar hafi ekki verið höfð með í ráðum og menn þar í stjórninni, þar á meðal hv. þm., hafi ekki verið hafðir með í ráðum um þær breytingar sem var verið að gera. Menn hafa líka deilt um hvort t.d. Alþingi bæri að kjósa í stjórn þessara fyrirtækja, þ.e. ríkisfulltrúana eða hvort þeir eigi að vera skipaðir af iðnrh. Um þetta hafa verið skiptar skoðanir og ýmislegt fleira. En ég tel þetta ekki vera meginatriði málsins. Ég er alveg jafntilbúinn til að styðja það t.d. að Alþingi kjósi þessa stjórnarmenn eins og iðnrh. skipi þá og ég get fúslega viðurkennt að það hafi kannski verið betra að hafa hv. þm. Svavar Gestsson og aðra stjórnarmenn í Landsvirkjun með í þeirri vinnu sem fram fór. En ég verð að segja eins og er að ég tek mark á því þegar fulltrúar allra flokka, t.d. í borgarstjórn Reykjavíkur, þ.e. allra meirihlutaflokkanna sem hafa tjáð sig, frá forseta borgarstjórnar og til allra þeirra aðila sem um málið hafa fjallað, þegar þeir lýsa yfir samstöðu um afgreiðslu. Ég tek mark á því þegar allir flokkar í bæjarstjórn Akureyrar gera hið sama. Og ég tek líka fullt mark á því sem segir í þeirri ágætu bók sem ég er að lýsa, Sjónarrönd, sem ég vitnaði til áðan. Ég er sannfærður um að hv. þm. meinar það sem hann segir þar og ég tek auðvitað orð hans eins og þau eru skrifuð og nota þetta tækifæri til að lýsa mig hjartanlega sammála því meginefni sem þar kemur fram sem að mínu viti er í fullu samræmi við þær breytingar sem hæstv. iðnrh. er að gera þó ég vildi gjarnan sjá þær breytingar ganga svolítið lengra.