Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:43:34 (1559)

1996-11-21 16:43:34# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:43]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir alltaf gaman þegar vinir mínir gleðjast en mér þykir jafnsárt þegar þeir vaða í villu. Og þannig held ég að sé komið fyrir hv. þm. Sighvati Björgvinssyni þegar hann telur að verið sé að innleiða auðlindaskatt.

Ef Títanfélagið ætti enn þá vatnsréttindin í Þjórsá og hefði lagt þau sem verðmæti inn í orkufyrirtæki, Landsvirkjun eða eitthvert annað fyrirtæki, og ætti að fá greiddan út arð samkvæmt því upp á 5,5% þá væri það arður sem væntanlega yrði skattlagður með 10% fjármagnstekjuskatti. En það væri ekki auðlindaskattur frekar en ríkið fengi arð af sömu eign sem Títanfélagið hefði fengið arðinn af.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Sighvat Björgvinsson þar sem hann gerir athugasemdir við þær tillögur sem eru í frv. um hvernig bæri að skipa í stjórnina og honum fannst ekki eðlilegt að ríkið eða þá sveitarfélögin sameiginlega gætu haft neitunarvald með því að fella tillögur að jöfnu væntanlega. Fyndist honum eðlilegt að sá aðilinn, sem ætti jafnmikið, 50%, í fyrirtækinu og ríkið að sveitarfélögin hefðu fleiri atkvæði, réðu meiru í fyrirtækinu heldur en ríkið gæti ráðið. Finnst honum eðlilegt að minnihlutaaðili hafi meiri hluta atkvæða í fyrirtæki eða er hann að gera tillögu um einhverja aðra skipan að eignaraðildinni?