Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 16:49:17 (1563)

1996-11-21 16:49:17# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[16:49]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hlýddi með athygli á ræðu hv. 4. þm. Vestf., Sighvats Björgvinssonar, og það ber auðvitað að fagna því þegar forustumenn í stjórnarandstöðunni leggjast á sveif með frumvörpum ríkisstjórnarinnar. En það var þrennt sem vakti sérstaka athygli mína.

Í fyrsta lagi voru yfirlýsingar hans um hina miklu samstöðu, sérstaklega væntanlega hjá borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík, um þetta mál sem hefur auðvitað vakið athygli og svo hins vegar tilvitnanir hans í pólitískar kenningar hv. þm. Svavars Gestssonar sem mér fannst svona jaðra við það að vera hálfger ógnun vegna þeirra staðreynda sem lúta að afstöðu þess hv. þm.

Í annan stað er það tal hv. þm. um auðlindaskatt sem er náttúrlega alveg út úr kortinu og er ekki raunveruleiki.

Í þriðja lagi var umræða hv. þm. um arðgreiðslurnar. Ég vil spyrja hv. 4. þm. Vestf. hvort hann telji eðlilegt að greiða nánast óháð öllu 5,5% arð af því eigin fé sem er uppreiknað samkvæmt samkomulagi eignaraðilanna, hvort það sé eðlilegt út frá sjónarhorni orkukaupenda á Vestfjörðum að greiða 5,5% arð til eigendanna. Það er grundvallaratriði í þessari umræðu.