Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 18:13:39 (1581)

1996-11-21 18:13:39# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., EOK
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[18:13]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Nýlega skilaði áliti nefnd sem hæstv. iðnrh. hafði skipað til að horfa til nýsköpunar í framtíðinni um skipan orkumála og hvernig við stæðum best að því. Sú skýrsla sem nefndin skilaði er mjög athyglisverð og ég tel að hún sé mjög í anda þess sem ég vissi ekki betur en væri stefna okkar í efnahagsmálum almennt. Að við ætluðum að reyna af fremsta megni, þessi ríkisstjórn, að leita allra leiða til að auka hagvöxt og auka samkeppni svo við gætum tryggt örugga og farsæla þróun til betri lífskjara. Í skýrslunni er mjög á það bent að leiðin til að ná árangri á þessu sviði liggi einmitt þann veg að við nýtum markaðsöflin til að ná meiri árangri til að geta látið orkufyrirtækin skila meiri árangri, vera hagkvæmari og þjóðinni til meiri framtíðarbata. Þess vegna var það að þegar ég las frv. vakti það strax mjög mikla tortryggni mína. Það vakti mjög mikla tortryggni mína þar sem ég gat ekki komið þessu heim og saman. Ég lít nefnilega þannig á að þetta frv. sé fyrst og fremst og nær eingöngu til þess að treysta í sessi þá skipan sem hér er og hefur verið að hér er mónópól, hér er einokun í heildsölu á rafmagni. Og ég hef þekkt það nokkuð lengi sem forsvarsmaður atvinnurekanda að í öllum viðræðum við þetta góða fyrirtæki hefur mér þótt mjög erfitt að fá það til að átta sig á því að raforkuframleiðslan, orkuframleiðslan, er náttúrlega hluti af efnahagslífinu hér. Það skiptir máli fyrir Ísland, það skiptir máli fyrir lífskjör hér, það skiptir máli fyrir samkeppnishæfni íslensks iðnaðar. Það skiptir máli að við séum samkeppnisfærir.

Í dag erum við að borga tiltölulega mjög hátt verð fyrir orku, mun hærra en samkeppnisiðnaðurinn í Evrópu þarf að gera. Þetta er nákvæmlega sama málið og var rætt í gær um íslenska banka. Þeir eru mjög dýrir og það skemmir og það skaðar samkeppnishæfni Íslendinga. Það er mjög mikið atriði að koma bankakostnaðinum niður til að bæta stöðu fyrirtækjanna. Alveg eins er mjög þýðingarmikið fyrir okkur að orkuframleiðslan hér sé hagkvæm þannig að fyrirtækin geti keypt ódýra orku til að geta keppt. Þetta er allt einn vefur, lifandi vefur og verður ekki sundur skilinn.

Það sem vakti fyrst tortryggni mína þegar ég fór að blaða í þessu var þetta svokallaða eigið fé hinna svokölluðu eigenda. Nú ætla ég að taka það fram, herra forseti, að ég hef ekkert á móti því, síður en svo, ég tel það sjálfsagðan hlut að menn fái arð af eign sinni, alveg sama hver sú eign er. En til þess að svo sé þurfa menn náttúrlega að ganga úr skugga um það fyrst að það sé einhver eign og í öðru lagi að eignin skili þá einhverjum arði. (KHG: Og þeir fái aðeins meira.) Lítum á endurmatið. Það er þannig gert að það er sett 3% og stofngreiðslurnar, sama hvernig þær urðu til, það er sett á það mælikvarði, byggingarvísitala. Ég furðaði mig mjög á þessu lengi vel. Hverjum dytti í hug að nota þessa aðferðafræði á einhverja peninga sem einhvern tíma eru settir í atvinnurekstur? Setja mælikvarða byggingarvísitölu og 3% ofan á og reikna svo bara upp og segja: Þetta er eignin. Ég þarf ekki að taka það fram, herra forseti, að við erum að ræða hér um einokunarfyrirtæki.

Í fyrsta lagi er byggingarvísitala afkáralegur mælir, kolvitlaus. Hann er kolvitlaus og mundi engin þjóð nema Íslendingar nota hann. Hann mælir plús hita úti þegar er frost, samanber t.d. verð á steinsteypu sem byggingarvísitalan mælir upp núna síðustu sjö árin plús 7% þó hún hafi að raungildi lækkað um 10--11%. En það er aukaatriði. Ef það væri eitthvert sannleikskorn til í því að nota svona aðferð við að meta eignir sem færu í atvinnurekstur, eitthvert sannleikskorn, þá hef ég einmitt bent mönnum á það að ef við færum svona 30--40 ár aftur í tímann og færum að reikna þetta, þá hefðu Sovétríkin aldrei hrunið. Þá væri blómaríki sósíalismans þar við lýði í dag. En þau hrundu nú samt vegna þess að svona útreikningur er bara út í hött. (SvG: Það er af því að þá vantaði byggingarvísitölu.) Þetta er bara bull og engum manni dettur þetta í hug í alvöru. Þegar ég var búinn að skoða þetta smátíma þá rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað er enginn svona vitlaus. Ástæðan fyrir því að þetta er gert þennan veg er einfaldlega sú að það er verið að reikna aftur á bak. Það var bara gert svona. Það var ákveðið 14 milljarðar og síðan er ekki örskotsstund í góðri tölvu og góðum reikni að finna sér prósentu og finna sér einhverja mælistiku og þá er dæmið gengið upp. Þetta tekur 1--2 mínútur. En þetta var nú aðferðin sem notuð var, það var enginn svona vitlaus.

Í sama frv. er sagt frá því að Landsvirkjun vildi hafa vönduð vinnubrögð. Sem sagt, þessi aðferð er ekki vönduð, það er þar með sagt. Þeir vildu hafa vönduð vinnubrögð, fengu virtan erlendan banka, J.P. Morgan, til þess að vinna fyrir sig. Og þessi Morganbank, sem er mjög virtur, notaði ákveðna aðferð sem er sagt hér og ég efast ekki um að allt sé rétt, er mjög virt í heiminum við að virða svona fyrirtæki, sjóðstreymismat. Og eins og segir hér frá varð niðurstaða bankans að virði þessa fyrirtækis væri 71 milljarður. En það segir líka frá því, það er rétt að átta sig á því að það er enginn að efast um að Morganbank kunni að reikna, það er enginn að efast um það. En það segir líka frá því hvað Morganbank var að reikna. Morganbank var að reikna 15 ára áætlun Landsvirkjunar, áætlun sem Landsvirkjun gerði um afkomu sína á árunum frá 1996 til 2010. Það var það sem Morganbank var að reikna. Og í þeirri áætlun gerir Landsvirkjun ráð fyrir því að hagur hennar muni stórkostlega batna vegna þess að nú sé að koma sú tíð að hún sé að komast í þá aðstöðu að fá loksins að selja raforku sína. Þetta var reiknað og eflaust er þetta allt saman hárrétt reiknað. En hefðu menn beitt sömu aðferð, þ.e. sjóðstreymisaðferðinni hjá Morganbank við þetta fyrirtæki í dag og tekið kannski síðustu árin eins og oft er gert við að meta fyrirtæki, þá eru tekin nokkur ár aftur í tímann og reynt að meta stöðu þess, þá ætla ég að fullyrða það, herra forseti, og heyri nú mál mitt þingheimur, að útkoman hefði orðið sú að eigið fé Landsvirkjunar væri sáralítið í dag, sáralítið. Fyrirtækið skuldar rúma 50 milljarða og það hefur alveg nóg með sig, því miður. Það hefur alveg nóg með það að renta þessa 50 milljarða, því miður.

Þetta fyrirtæki er búið að lenda í ýmsum hremmingum og það er kannski ekki við stjórnendur fyrirtækisins að sakast. Þetta háa Alþingi hefur aldeilis komið þar nálægt með ýmsum ákvörðunum sínum og valdið því miklum búsifjum. Það ber að taka fram.

En ég spyr: Hvers vegna erum við að gera þetta? Er þetta hluti af þessum óraunveruleika sem er að heltaka allt þjóðfélagið að við erum að reikna upp núna eiginfjárstöðu fyrirtækis með um 15 ára áætlun fram í tímann til þess að mynda eigið fé til að gera samning um það að borga arð og það engan smáræðis arð, 700 millj. á ári, kringum það, ef áætlunin gengur eftir.

Í fyrsta lagi, herra forseti, tel ég þetta ákaflega óvarlegt, ákaflega óvarlegt að gefa sér svona spá og ætla að mynda á henni samning um það að byrja að borga arð til eigenda. Ekkert einkafyrirtæki á markaði mundi leyfa sér svona vitleysu. Það mundi bara aldrei gera það. Fyrirtækið hefur verið að tapa, því miður. Ég verð því að segja að það er einhver maðkur í þessari mysu. Þegar ég les þennan samning þá dettur mér helst í hug að það fólk sem gerir hann hafi aldrei nálægt markaði komið, aldrei nálægt samkeppni komið, aldrei komið út úr fílabeinsturni þeirra sem lifa í mónópól-fyrirtæki, aldrei. Annars hefðu þeir aldrei gert svona samning, bara aldrei. Þetta eru einmitt vinnubrögð þeirra sem hafa aldrei út í kuldann komið, hafa alltaf verið í hlýjunni, þeim dettur þetta í hug.

Hvað segja þeir líka í viðbót? Þeir gera samning um að allt sem bætist við skuli upp reiknast á byggingarvísitölu og bera arð alveg burt séð frá því hvort einhver arður verður af því. Þetta er nú fínn heimur að lifa í. Það er alveg sama hvað þú gerir. Ef þú tekur einn milljarð, hvort þú notar hann til að moka einhverri mold eða grafa skurð eða byggja einhverja steinsteypu, allt í lagi, skiptir engu máli, þú færð arð. Það gefur þér arð, 5--6%. Þetta var nú fína lífið að fá að reka svona fyrirtæki. Það voru ekki áhyggjurnar þar. (Gripið fram í: Það var Undraland.) Já, það var í Undralandi, það var einmitt í Undralandi, hv. þm., sem þeir voru, erlendu sérfræðingarnir þarna tveir, hattarinn og hérinn. Þeir höfðu oft ýmislegt til málanna að leggja.

Ég lít þannig á að það sé mjög slæmt fyrir íslenskan iðnað, fyrir íslensk fyrirtæki, fyrir íslenska samkeppni og samkeppnisstöðu Íslands, svo og líka fyrir íslenskan almenning að lesa það hér að þetta stóra og mikla fyrirtæki ætlar ekki næstu árin að taka þátt í því að bæta kjör. Eins og lesa má af þessu blaði á verð á rafmagni að vera óbreytt að raungildi næstu fjögur árin og nú eru allir Íslendingar, allir launþegar að safnast saman til að gera kröfur um bætt kjör, 3--4% á ári, þykir lítil krafa og auðvirðileg. 40--50% er talið sýna meiri hreysti þegar menn koma með slíka kröfu. En hvað sem verður ofan á úr því þá er það vitað hér með að Landsvirkjun, heildsölufyrirtæki á rafmagni, ætlar ekki að taka þátt í því að bæta kjör Íslendinga næstu fjögur árin. Þá liggur það nú alveg fyrir og það er mjög slæmt ef aðrir eiga að geta hagrætt hjá sér, gert betur og betrumbætt, skilað meiri og betri rekstri en Landsvirkjun á ekki að geta gert það. Hún er stikkfrí. Hún er nefnilega alveg stikkfrí og hefur alltaf verið stikkfrí. Einokunarfyrirtæki í opinberri eigu eru alltaf stikkfrí og það á engin breyting að verða á því. Að vísu ætla þeir að gera þar stórvirki eftir aldamótin, að lækka raforkuverð um 2--3%. Þá ætla þeir að byrja, eftir fjögur ár hér frá munu þeir hefja þátttöku sína í betri kjörum Íslendinga.

Herra forseti. Ég lít svo á fyrir íslenska framleiðslu og íslenska þegna að þetta sé mjög vondur samningur sem gerður hefur verið við meðeigendur ríkisins, alveg skelfilega vondur og það sem meira er, það eru engar forsendur fyrir honum. Ef það myndast arður og ef það myndast eigið fé, þá er sjálfsagt að borga þeim sem eiga fyrirtækið arð. En við skulum bara bíða þangað til. Við skulum bara sjá hvernig spárnar rætast og við skulum líka vona að þær rætist því ekki veitir okkur af. Þetta fyrirtæki hefur síðustu 30 árin gegnt hér mjög þýðingarmiklu hlutverki, mjög þýðingarmiklu, en það á nú allt sinn tíma.

Ég hefði haldið það, herra forseti, að það sem við þyrftum á að halda núna væri ekki að treysta þetta fyrirtæki svo í sessi, heldur alveg þveröfugt, við eigum að koma því til hjálpar með því að afnema einokunarheimildir þeirra.

[18:30]

Ég veit ósköp vel að Reykjavíkurborg átti þennan góða valkost að virkja uppi á Nesjavöllum. Og það var bara mjög leitt að þeir skyldu ekki fá að virkja. Ég veit líka að Hitaveita Suðurnesja á mjög góða valkosti um virkjun og það á að leyfa þeim að virkja. Við fáum aldrei hagkvæmni í raforkuframleiðsluna án þess að fá samkeppni. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug. Það skiptir engu máli hversu góðir menn eru saman komnir í stjórn eins fyrirtækis. Ef það er einokunarfyrirtæki í eigu opinberra aðila skiptir það engu máli. Það verður alltaf óhagkvæmt, stenst aldrei samanburð. (Gripið fram í.) Hann hefur löngum verið ötull talsmaður atvinnurekstrarins, (Gripið fram í.) sjaldan skipt um skoðun og engin kaflaskil væntanlega í hans lífi eða afstöðu, herra þingmaður.

En ég rek líka augun í 8. gr. sem er mjög stutt og smá. Hún er líka mjög athyglisverð og ber að skoða hana í þessu samhengi. Og um hvað er nú þessi 8. gr.? Jú, hingað til hefur þetta einokunarfyrirtæki verið þó í þeirri leiðsögn að Þjóðhagsstofnun hefur haft umsagnarrétt um gerðir þess þegar það hefur verið að verðleggja afurð sína, rafmagn. Nú á í þessu frv. að afnema þá leiðsögn og í staðinn kemur það bara einfaldlega þannig: Landsvirkjun ákveður taxta sína, ein og sér, eitt fyrirtæki á markaðnum, ræður eitt. Og í skýringum með 2. gr. er einmitt á það bent hver leiðsögnin er. Jú, leiðsögnin er sú að búið er að gera samning um það við eigendurnar hver arðgreiðslan verður og hann á að vera leiðarljósið. Hver á svo að borga? Íslensk fyrirtæki og íslenskur almenningur á að borga til einokunarfyrirtækisins sem eitt og sér setur sína gjaldskrá að höfðu samráði. Við hvað? Við þann samning sem það gerði við sjálft sig um að arðgreiðslan skyldi ganga fyrir. Þetta er fínt kerfi, þetta er mjög fínt kerfi. Það var haft eftir Adam gamla Smith á 19. öldinni að hvenær sem tveir kaupmenn hittust, gerðu þeir samsæri gegn almenningi um að reyna að koma á mónópólí. Það hefur enginn þrætt fyrir það að þetta hafi verið rétt hjá karlinum. Hver vill ekki vera í þessari aðstöðu? En við sköðumst öll á þessu, allir. Þetta er gegn okkar hagsmunum. Þetta er gegn hagsmunum þjóðarinnar vegna þess að ef við ætlum að tryggja samkeppnishæfni Íslands, þá verða allir aðilar, jafnt bankar sem orkufyrirtæki að taka þátt í því. Það er ekki nóg að segja að konurnar í frystihúsunum eigi að vinna meira og betur. Króna er króna alveg eins og sentímetri er sentímetri og kíló er kíló og hvar sem hún fer í súginn, þá verður tjónið jafnmikið fyrir samfélagið. Og ef við erum að borga miklu hærra orkuverð en við þurfum, ef við erum að borga hærri vexti og meiri kostnað í banka en við þurfum, þá erum við að skaða okkur. Ég hef trúað því og treyst að það væri markmið og stefna og einbeittur vilji þessarar ríkisstjórnar sem ég fylgi svo stíft, að berjast fyrir aukinni samkeppni til að ná meiri árangri þannig að við gætum bætt lífskjör þessarar þjóðar, bætt stöðu fólks og fyrirtækja. Þess vegna er ég mjög ósáttur við þetta frv. því ég sé ekki betur en það gangi þvert á þetta markmið. Ég sé engan árangur í málinu, engan, ekki nokkurn.

Ég held að við eigum að taka þessa nefnd, sem nýlega skilaði áliti, nefnd iðnrh. um stefnumörkun í raforkuiðnaði og orkumálum, mjög alvarlega. Við eigum að fylgja hennar ráðum vegna þess að það er einmitt sú stefna sem þessi ríkisstjórn hefur verið að berjast fyrir. Og við eigum að byrja á því strax á morgun að vinna á róttækan hátt þó það væri ekki nema til að svara kröfum þessarar þjóðar um bætt lífskjör sem gerast nú mjög háværar, kannski ekki alltaf raunsæjar.

Ég hef farið nokkrum orðum um þessar helstu greinar. Ég held að ég mundi gera athugasemdir við þær allar og ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt að ég tel ákaflega óvarlegt að afnema stjórnarþátttöku frá hendi Alþingis í fyrirtæki sem er ,,mónópólfyrirtæki``, á meðan það er það, og hefur slík heljaráhrif á þjóðfélagið. Þarna eru gríðarlegir hagsmunir í húfi og það er mjög slæmt ef Alþingi hættir að hafa afskipti af stjórn þess. Það eru miklir hagsmunir í húfi. Fólkið sem býr víða úti um landið, ég tala ekki um á hinum svokölluðu köldu svæðum hefur ástæðu til að tortryggja þetta. Það hefur mikla ástæðu til þess og það hefur langa reynslu að baki í því að það er ástæða til að tortryggja. Það er ekki af því að þessir stjórnendur séu ekki góðir menn. Auðvitað eru þeir góðir menn, auðvitað er þeir hæfir menn, enginn er að bera brigður á það. Það er bara þannig og hefur alltaf verið í öllum löndum og á öllum tímum að stjórnendur einokunarfyrirtækja hafa alltaf leiðst út í ákveðna, stundum mjög mikla, kannski á öðrum tíma minni, veruleikafirringu. Þeir eru ekki í þessum heimi. Þeir falla alltaf í þá gryfju að telja sig óháða þessu. Það er bara þannig að það er ekkert illa meint til. (Gripið fram í: Segðu það við Svavar.) Ég þykist vita að þingheimur hefur veitt orðum mínum athygli, allir sem einn og þakka fyrir hljóðið.