Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:50:23 (1601)

1996-11-21 21:50:23# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:50]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Því miður eru ekki aðstæður til þess að fara djúpt í söguna en það var athyglisvert sem kom frá hæstv. ráðherra hér áðan þegar hann ætlaði að hrekja það sem ég hafði haldið fram um meðferð mála á þessum tíma og hefði lítið hugsað um stjórnarandstöðuna og Sjálfstfl. í þessum efnum og ætlaði með einhverri tilvitnun að hnekkja því sem ég las upp úr ræðustól varðandi samninganefndir sem gerðu hinn upphaflega samning 1979. Það voru undirskriftir þeirra sem ég las upp en ekki samningamanna frá 1980 eða síðar sem voru tilvitnaðar og það er 27. mars 1979, þar á meðal Pálmi Jónsson svo að ég sé ekki að fara yfir fleiri nöfn. Ég minnist þess ekki að hann hafi verið kominn í ráðherrastól þá né heldur að hann hafi stutt ríkisstjórn þá, heldur verið óbreyttur þingmaður Sjálfstfl. Um þetta eigum við því ekki að þurfa að deila. Ekki heldur hitt sem ég vitnaði einnig til að margar þær tillögur sem ráðuneytið var með varðandi hugmyndir um stjórn Landsvirkjunar hafi verið af svipuðum toga og hér voru fram lagðar. Þetta rakti ég hér. En ég rakti jafnframt að borgarstjórinn í Reykjavík hefði brugðist við og óskað eftir annarri meðhöndlun mála og tillit var tekið til þess. Það var þetta sem ég var að segja hér þannig að mér finnst ástæðulaust fyrir hæstv. ráðherra að ætla að vera með einhverjar aðrar útleggingar.

Deilur við Sjálfstfl., sem ég var að vitna til, voru ekki um lög um stjórn Landsvirkjunar. Það voru deilurnar um verðlagningarstefnu Landsvirkjunar á liðinni tíð varðandi orkuverð til stóriðju. Það var það sem ég orðaði með þeim hætti sem ráðherrann vitnaði til og skiptu miklu en voru til lykta leiddar í rauninni í þeim anda sem var haldið fram af ráðuneytinu á þessum tíma.

Svo ætla ég ekkert að fara að þakka hæstv. ráðherra það þó hann fari ekki að setja borgarritarann í Reykjavík inn í samningaviðræður við ríkið þar sem sami aðili er formaður stjórnar Landsvirkjunar. Þökk sé framkvæmdarvaldinu og að það rugli ekki svo rækilega reytum.