Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 21:58:04 (1605)

1996-11-21 21:58:04# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., SvG
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[21:58]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það hefur verið athyglisvert að hlusta á umræðurnar, sérstaklega í framhaldi af orðum hæstv. iðnrh. fyrr í dag um að full samstaða væri um málið. Í rauninni styddu allir málið og enginn gerði neinar athugasemdir við þetta nema kannski einn sérvitringur. Síðan kemur í ljós að þrír þingmenn Sjálfstfl. tala í dag. Ég held að það hafi ekki verið nema þrír sem töluðu í dag. Þeir voru allir mjög gagnrýnir á þetta frv. og vinnubrögðin í kringum málið.

Ég hygg að ein sterkasta ræðan á móti frv. hafi verið ræða hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Ég held að hún hafi verið öflugri stjórnarandstöðuræða en flestar aðrar ræður sem voru fluttar í dag. Ég bendi á að í málflutningi mínum lagði ég áherslu á að þetta frv. væri svo að segja frá upphafi til enda á misskilningi byggt og rakti það nokkuð í máli mínu og þegar upp er staðið og dagurinn er gerður upp sé ég ekki betur en hæstv. ráðherra hafi einn mann með sér og það er kannski sá eini maður sem hann var sérstaklega að nefna hér áðan, þó með öfugum formerkjum. Hann hafði einn mann með sér. Það er Sighvatur Björgvinsson, hv. 4. þm. Vestf. Ég heyrði ekki aðra með langvarandi lófatak í salnum fyrir þessum pappír. Mér finnst það athyglisvert og mér finnst leitt til þess að vita að hæstv. iðnrh. skuli ekki skilja merkin betur en mér finnst hafa komið fram hjá honum í dag.

Mér finnst hann líka óþarflega typpilsinna yfir þeirri gagnrýni sem hér hefur komið fram og viðkvæmur vegna þess að það er einu sinni hlutverk ráðherra að taka við gagnrýni og hlusta á hana. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra lagði sig fram um það að reyna að formúlera hlutina talsvert öðruvísi þegar leið á umræðurnar en hann gerði í upphafi. Hann lagði t.d. á það mjög mikla áherslu að verðjöfnunin væri ekki í hættu, arðurinn og arðsáherslurnar væru ekki númer eitt heldur verðlækkanirnar. Þetta sagði ráðherrann. Þetta sagði hann í lok umræðunnar en ekki í upphafi hennar. Þetta er gríðarlega mikið atriði en því miður stendur þetta ekki í pappírunum svona. Ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn til að fara í frv. þannig að það væri beinlínis skrifað niður í lagafrv. að verðlagsmálin væru fremst, arðurinn þar aðeins aftar, þá tel ég að það væri verulega stórt skref í samkomulagsátt, a.m.k. við mig.

[22:00]

Hæstv. ráðherra segir hér aftur og aftur að það fari nú enginn að borga arð út úr fyrirtæki sem sé rekið með tapi. Ég held að ég verði að uppljóstra því að þær kröfur komu upp í stjórn Landsvirkjunar fyrr á þessu ári að arður yrði borgaður út á síðasta ári þó að það væri tap á því ári. (Gripið fram í: Hjá ríkinu.) Þær kröfur komu fram í stjórn Landsvirkjunar. Ég er svo sem í engri aðstöðu til þess að játa eða neita þeirri spurningu sem kemur fram frá hæstv. ráðherra. En sú staðreynd sem ég tel að hæstv. ráðherra hafi kvalið út úr mér í þessari umræðu gerir það að verkum að ég er uggandi. Ef eingöngu eru þarna fulltrúar sem líta á það sem sitt fremsta hlutverk, með fullri virðingu fyrir öllu því fólki sem þar lendir, að tékka út arð fyrir viðkomandi sjóði þá tel ég það áhyggjuefni.

Ég tel ástæðu til að nefna það líka að ég tel að þær umræður sem þar hafa verið í gangi að undanförnu, m.a. um verðbreytingar hjá fyrirtækinu á komandi árum, staðfesti að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af málinu. Ég er algerlega sammála hæstv. iðn- og viðskrh. um að það getur verið afar snúið fyrir þingmenn t.d. að vera í stjórninni eða fyrir menn sem eru kosnir af Alþingi. Það getur verið afar snúið. Það er alveg hárrétt. En ég held þó að staðan sé þannig að það sé að mörgu leyti nauðsynlegt að horfa aðeins öðruvísi á þetta fyrirtæki en ýmis önnur þar sem fletirnir á því eru a.m.k. þrír. Það er í fyrsta lagi sá flötur að þetta fyrirtæki skuldar 50 milljarða. Það er í öðru lagi sá flötur að það framleiðir mjög mikilvæga afurð sem er óhjákvæmileg fyrir allt nútímaefnahagslíf í landinu og það er í þriðja lagi sá flötur að það borgar arð eða getur borgað arð ef það ber sig. Á þessa hluti verður að horfa í samhengi og það finnst mér að hæstv. iðnrh. hafi ekki gert sem skyldi. Mér finnst að hann sé að gera mér upp persónulega einhverjar sérstaklega neikvæðar hugmyndir gagnvart Landsvirkjun og gagnvart hinni almennu orkustefnu í landinu. Hann veitist óvenjulega persónulega að mér í andsvari sínu. Hann er með skæting um það að ég sé að tala um málið eins og ég geri af því að ég hafi hagsmuna að gæta af því að vera í stjórn fyrirtækisins. Ég segi, með leyfi forseta: Mér finnst þetta ferlega lúalegt vegna þess að ég hef verið að reyna að tala eins málefnalega um málið og ég get, eins og ég hef vit til og þroska og reynslu. Ég reyni að horfa á málið eins og það lítur út og það lítur svona út fyrir mér. Og ég endurtek að ég er alveg sammála því sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði áðan. Ég óttast um verðjöfnunarmálið. Það stendur ekkert í frv. um verðjöfnunarmálið, það er alveg rétt. En ég óttast um það ef arðsþátturinn er framar en verðjöfnunin. Þess vegna finnst mér það mikilvægt sem hæstv. ráðherra sagði áðan að verðjöfnunin ætti að vera framar, verðlagsmálin framar. Mér finnst það mikilvægt. En þá mundi ég geta hugsað mér að það stæði niðurskrifað einhvers staðar í tengslum við málið.

Hæstv. ráðherra fór enn einu sinni með þessa messu um það hvernig að valinu á mönnum í undirbúningsnefndina var staðið. Þar reyndi hann aftur að koma að mér persónulega. Það var líka dálítið lúalegt verð ég að segja. Auðvitað er veruleikinn sá að borgarstjórn Reykjavíkur velur sína tvo menn. Hún hlýtur að velja formann stjórnar Veitustofnunar. Hún hlýtur að gera það. Það fannst mér alla vega. Og auðvitað velur Sjálfstfl., minni hlutinn í Reykjavík, sinn mann. Síðan kemur að því að það eru valdir inn í þetta menn frá Akureyri og þar liggja hlutirnir eins og við þekkjum. Þá kemur málið inn á borð ráðherrans. Þá finnst mér að hann hefði átt að velja menn til þess að tryggja stjórnmálalega breidd fremur en embættismenn með fullri virðingu fyrir þeim. Ég er þeirrar skoðunar og ég held að það hefði verið affarasælla fyrir framhald málsins ef þannig hefði verið á málinu haldið.

Ég sagði áðan og endurtek að það sé út af fyrir sig aukaatriði hvernig stjórn er valin. Aðalatriðið er hinar lagalegu skyldur hennar og hinn almenni rammi sem hún á að stafa eftir. Ég legg mjög mikið upp úr eftirlitshlutverki Alþingis og ég er mjög orþódox í þeim efnum og vil ganga mjög langt í þeim efnum. Og ég segi að það er ekki nóg fyrir mig að Ríkisendurskoðun sé heimilt samkvæmt almennum lögum að fara inn í þetta fyrirtæki ef það vill svo til að endurskoðun Ríkisendurskoðunar á einhverju almennu ríkisfyrirtæki leiði hana inn í þetta fyrirtæki. Það er ekki nóg að mínu mati. Ég tel að ef vel á að vera þá ætti að setja inn í landsvirkjunarlögin ákvæði um að Landsvirkjun og borgarendurskoðun eftir atvikum, geti farið þarna inn, pósitíft ákvæði þannig að eftirlitshlutverk Alþingis sé að því er þetta fyrirtæki varðar á sínum stað, mér liggur við að segja, hvort sem Alþingi kýs þarna inn menn eða ekki. Mér finnst það mikilvægt og það er mikill galli á málinu að í frv. eins og það lítur út núna, er gert ráð fyrir því að taka borgarendurskoðun og bæjarendurskoðun og Ríkisendurskoðun út og það er ómögulegt að skilja það öðruvísi en ríkisstjórnin vilji henda Ríkisendurskoðun út úr þessu máli og mér finnst það ekki gott.

Ég vil taka fram að gefnu tilefni að það eru fleiri fulltrúar Alþingis í stjórn þessa fyrirtækis en ég. Þar situr sá ágæti maður Jóhannes Geir Sigurgeirsson. Þar situr hv. þm. Sturla Böðvarsson og þar situr Árni Grétar Finnsson sem hefur setið í stjórn þessa fyrirtækis, ég hygg, frá upphafi. Ég leyfi mér að halda því fram að allir þessir menn hafi vandað sig svo sem fremst þeir mega við að sitja í stjórn þessa fyrirtækis og ég bið hæstv. ráðherra að láta þá hina þrjá ekki gjalda þess að ég er þar líka þó að honum kunni að vera í nöp við þann sem hér stendur. Ég fullyrði að allir þessir menn hafa gert hvað sem þeir geta til þess að halda vel á málum Landsvirkjunar í einu og öllu og þar eiga þeir algerlega óskiptan hlut. Og ég hváði þegar hæstv. ráðherra sagði: ,,minni hlutinn`` og var að tala um stjórn Landsvirkjunar en reyndist svo eiga við minni hlutann á Alþingi. Það er hvorki til minni hluti eða meiri hluti í stjórn Landsvirkjunar og hefur ekki verið á þeim tíma sem ég hef setið þar. Menn hafa náð sameiginlegum niðurstöðum og vandað sig svo sem kostur er.

Ég vil síðan, hæstv. forseti, þakka ráðherranum fyrir þau svör sem hann veitti við nokkrum af spurningum mínum. Ég kemst ekki hjá því að nefna það að hann segir: ,,Ef formaður stjórnar Landsvirkjunar hefði verið þarna, þá hefði kannski kveðið við annan tón og verið heimtað eitthvað í viðbót.`` Ég segi við hæstv. ráðherra: Það hefði verið allt annað að sjá snittið á þessu máli ef formaður stjórnar Landsvirkjunar hefði verið í verkinu, að mínu mati. Það hefði verið mikið betri svipur á málinu fyrir Landsvirkjun og fyrir alla aðila málsins þannig að ég vísa því algerlega á bug að ef Helga Jónsdóttir hefði verið í þessari nefnd og í þessu verki, þá liti það eins út eins og það lítur út í dag vegna þess að veruleikinn er, hvað sem ráðherrann vill gjarnan halda, sá að málið er umdeilt og það er umdeildara, hæstv. forseti, en það sýnist vera, ekki aðeins hér á Alþingi heldur einnig annars staðar. Ég harma það að hæstv. ráðherra skyldi ekki hafa látið sér detta það í hug fyrr að hafa borgarritara og formann stjórnar Landsvirkjunar með í þessu verki.

Ég vil síðan segja að ég tel að margt hafi skýrst í þessum umræðum. Ég tel ástæðu til að þakka fyrir ýmislegt sem hér var sagt. Ég held að ég hafi ekki verið búinn að þakka fyrir þessa stórskemmtilegu ræðu hv. 3. þm. Vestf. Hún ætti skilið að vera til á spólu á sem flestum heimilum í landinu því að hún var svo óskaplega skemmtileg. Hann dró upp mynd af Landsvirkjun sem er dálítið umhugsunarefni. Þessa mynd: Opinber fyrirtæki eru alltaf stikkfrí. Þetta er auðvitað ekki satt, en samt er það nú þannig, hæstv. forseti, að við umræðu eins og þá sem hér fer fram þar sem eigendaframlögin eru framreiknuð með byggingarvísitölu --- en eins og kunnugt er hrundu Sovétríkin af því að þar var ekki til nein byggingarvísitala, eins og fram hefur komið í þessum umræðum hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni og er snjallasta söguskýring sem ég hef heyrt --- og 3% vöxtum er bætt ofan á þau, ekki 2,8 og ekki 3,2. Enginn veit af hverju þau eru 3. Út úr þessu koma 14 milljarðar kr. og svo er ákveðið að reikna arð af því á tiltekinn hátt og það er sett niður á blað. Þetta gerir það auðvitað að verkum að fleirum en hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni dettur í hug að það sé dálítið sérkennilegt umhverfi sem svona fyrirtæki búa við og við búum til handa opinberum fyrirtækjum. Við gerum það sem sitjum hérna. Þetta er dálítið umhugsunarefni, ég segi það alveg eins og mér og mér fannst hann útmála þetta mjög vel.

Ég tel líka að það sé rétt sem hann sagði. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Landsvirkjun eigi að hafa sjálfstæði við að ákveða sína taxta. Ég tel engu að síður að hún verði að hafa eftirlit. Og þetta þjóðhagsstofnunarákvæði, mér gest ekki að því eins og það er. Það er sett við allt aðrar kringumstæður heldur en nú eru. Ég held að þarna þurfi að koma inn ákvæði sem tryggir það að fyrirtækið í skjóli einokunar geri ekki það sem því sýnist. Hv. 4. þm. Vestf. segir að það eigi að leysa með samkeppni, en þá er vandinn sá að Ísland er eyland eins og kunnugt er, a.m.k. enn um sinn, þó að auðvitað sé hægt að horfa á það að reyna að samkeppnisvæða orkugeirann að einhverju leyti jafnvel á eyjunni sjálfri.

Ég held að það eigi að reyna að finna einhverjar leiðir til að hafa hemil á hækkanaþörf fyrirtækisins. Og tóku þingmenn eftir því að við uppgjör á fyrirtækinu á bls. 8 í skýrslunni, kemur í ljós að fyrirtækið á 25 milljarða, en á bls. 12 er niðurstaðan framreiknuð þannig að það er talið að eigendaframlagsstaðan sé upp á 14 milljarða. Mismunurinn á þessu er 10 milljarðar. Það er verðmæti sem er til orðið inni í fyrirtækinu eins og menn orða stundum, eiginvirði fyrirtæksins. Og hvernig er það til orðið? Það er m.a. orðið til með þeirri einokunaraðstöðu sem þetta fyrirtæki hefur haft. Þess vegna tel ég sjálfsagt og eðlilegt að það sé haft strangara eftirlit með þessu fyrirtæki en öðrum fyrirtækjum og ég er viss um að Landsvirkjun er tilbúin til þess fyrir sitt leyti að sætta sig við hvað sem er í þeim efnum og getur tekið því.

Ég held líka, hæstv. forseti, ef menn eru á annað borð þeirrar skoðunar að það eigi að lækka verðið, þá eigi að byrja núna strax. Mér finnst að fyrirtækið og ríkisstjórnin eigi að sýna þann vilja í verki að beita sér fyrir því að verðið fari strax að lækka, það verði ekki beðið fram á næsta árþúsund eftir því að verðlagið fari að lækka á raforkunni. Mér fyndist það mikilvægt pólitískt framlag í stöðunni að fyrirtækið sýndi lit og lækkaði verðið sem fyrst en það yrði ekki beðið eftir því eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson útmálaði svo vel í dag.

Hv. þm. Árni M. Mathiesen sagði að það þyrfti aðeins að samþykkja hluta af frv. Það er mál sem ég nefndi í minni fyrri ræðu líka, fyrr í dag. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju var ekki kannað hvort unnt var að tryggja framgang þeirra ákvarðana sem eignaraðilar sömdu um að einhverju leyti í stjórninni sjálfri án þess að breyta lögunum? Þurfti endilega að breyta lögunum? Hvað er það í lagafrv. sem er þannig að það sé algerlega óhjákvæmilegt? Ekki eru það eignaraðilarnir því að hv. þm. Árni Mathiesen sagði: ,,Það þarf vegna eignaraðilanna í raun og veru ekki að samþykkja neitt í þessu nema breytingarnar á stjórninni.`` En hvernig stendur það mál, hæstv. forseti? Það stendur þannig að fulltrúar borgarstjórnar Reykjavíkur og Akureyrarbæjar sögðu sig frá þessu máli og sögðu: ,,Hvernig ríkið velur sína fulltrúa kemur okkur ekki við.`` Það er því ljóst að ekki er verið að uppfylla neinn samning við Reykjavíkurborg eða Akureyrarbæ að stjórninni er breytt með þeim hætti sem hér er gert. Þegar upp er staðið hygg ég að megi segja að kannski eitt atriði, þó að það geti verið umdeilt, þyrfti að vera í lagafrv. og það er 1. gr., um hugsanlegar heimildir Landsvirkjunar til að taka þátt í sölu á tækniþekkingu og því um líku.

[22:15]

Ég hef í þessari seinni ræðu minni, hæstv. forseti, lagt nokkrar nýjar spurningar fyrir hæstv. iðnrh. Ég rifja upp þá spurningu af hverju Ríkisendurskoðun, borgarendurskoðun --- þeir möguleikar eru teknir út. Mér finnst mikilvægt að fá að vita rökin fyrir því. Ég vil spyrja með hliðsjón af efnisatriðum málsins til hvers frv. er flutt. Af hverju var ekki frekar reynt að ná þessu fram einhvern veginn öðruvísi? Og í þriðja lagi spyr ég: Má ekki byrja að lækka strax? Þarf að bíða fram á næsta árþúsund eftir því? Af hverju má ekki skella sér í að lækka strax?

Ég vil að lokum segja við hæstv. iðnrh. að ég er sannfærður um að sú umræða sem hefur farið fram í dag getur verið að flestu leyti gagnleg fyrir fyrirtækið og fyrir þjóðina. Mér finnst mikilvægt að menn taki henni með opnum, skynsamlegum, rólegum og yfirveguðum hætti. Það verður auðvitað reynt að fara vandlega yfir málið í hv. iðnn. en ég fullyrði miðað við upphafsorð ráðherrans um hvað kyrrt væri í kringum þetta mál hlýtur fleirum en mér að hafa komið á óvart að í rauninni hefur ráðherrann verið ótrúlega einn um að tala fyrir þessu máli í kvöld þó að margir aðrir stjórnarliðar hafi tjáð sig um málið.