Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:18:00 (1606)

1996-11-21 22:18:00# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:18]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Eigið fé Landsvirkjunar er talið vera 26 milljarðar kr. Það er mikið fé. Hvernig hefur þessi eign myndast? Ég held að mjög mikilvægt sé að menn átti sig á því. Í fyrsta lagi hafa menn reiknað út að framlög eigenda uppreiknuð með byggingarvísitölu séu 7 milljarðar. Þessi framlög voru að hluta til fundin með Marshall-aðstoð, með ódýrum lánum á sínum tíma, sem í reynd er styrkur til ríkisins. Auk þess er mjög rausnarlegt að reikna með 7% verðbólgu ef við reiknum með verðtryggingu í öll þessi ár meðan allir aðrir landsmenn þurftu að búa við óðaverðbólgu, neikvæða vexti og hrun á eignum. Síðan er reiknað með 3% vöxtum ofan á þessi framlög og þá fær maður 7 milljarða í viðbót. Það er líka mjög rausnarlegt. Eins og ég gat um áðan þurftu aðrir að sætta sig við neikvæða ávöxtun á flestöllum eignum þennan tíma. Þannig komast menn upp í 14 milljarða og það er talin vera eign og framlög eigenda. Það vantar 12 milljarða til að ná upp í þá 26 milljarða sem er eignin. Og hvernig hefur hún myndast? Þessi eign hefur myndast þrátt fyrir nokkrar mjög misheppnaðar fjárfestingar. Ég nefni Kröflu. Ég nefni Blöndu. Samt er þetta svo mikið dúndurfyrirtæki að það á enn þá eftir 12 milljarða þrátt fyrir 3% vexti og byggingarvísitölu.

Herra forseti. Hvernig urðu þessir milljarðar til? Í fyrsta lagi vantar arð til eigenda. Þeir hafa ekki fengið neinn arð af sinni fjárfestingu. Í öðru lagi vantar skatta til ríkisins. Öll önnur fyrirtæki með svona arð hefðu þurft að borga 30--40% af þessum arði til ríkisins í formi skatta. Þá vantar einokunargjald. Þetta fyrirtæki hefur verið í þeirri stöðu að geta ákveðið orkuverðið algjörlega eitt og sér. En á móti kemur að sjálfsögðu félagslegt verð. Oft hefur orkuverði verið haldið niðri af félagslegum ástæðum og verðjöfnun kostar náttúrlega mjög mikið. Línur um allt land þó það í rauninni beri sig ekki. Í fjórða lagi vantar ábyrgðargjald til eigenda. Eigendur hafa ábyrgst lán Landsvirkjunar, allir fyrir einn og einn fyrir alla og það er náttúrlega mjög mikils virði að geta fengið lán með ríkisábyrgð. Og ég held að sá hagnaður sem þar myndast sé aðallega til ríkisins því það er langsterkast af þeim þremur aðilum sem að þessu fyrirtæki standa. En svo vantar fimmta liðinn og það er ókeypis orka. Þetta fyrirtæki hefur aldrei borgað fyrir orkuna, aldrei. Og þá komum við kannski að öðru máli sem er auðlind en ég ætla ekki að fara inn á það.

Herra forseti. Frv. er að því leyti til bóta að tekið er eðlilegt tillit til arðgreiðslna til eigenda. Það er mjög óeðlilegt að Reykvíkingar og Akureyringar sem lögðu inn í þetta fyrirtæki, sérstaklega Akureyringar, mjólkurkýr --- gullgæs, hafi ekki séð neinn arð af sinni eign. Og það er eðlilegt að þeir krefjist arðs þannig að frv. er að því leyti gott. En ég er hræddur um að þetta samkomulag hindri þróun til nauðsynlegrar samkeppni. Ég var samt ánægður að heyra að hæstv. iðnrh. lýsti því yfir áðan að koma yrði á samkeppni hér á landi eins og er erlendis. Hann fór reyndar ekki inn á hvernig það yrði gert. Og hann talaði jafnframt um það að fyrirtæki yrði að gæta félagslegra sjónarmiða við ákvörðun orkuverðs, að sjálfsögðu vegna þess að þetta er einokun. Fyrirtækið getur nánast sett hvaða orkuverð sem er, fólk yrði að kaupa. Það gæti náttúrlega hætt að nota rafmagn að einhverju leyti, slökkt ljósin o.s.frv. en menn ættu ekki kost á því að kaupa aðra raforku annars staðar frá.

Nú vil ég, herra forseti, lýsa nokkuð sjónarmiðum mínum, þ.e. hvernig ég sé fyrir mér samkeppni. Hún er fólgin í því að stofnað er fyrirtæki Blanda hf., Búrfell hf., Sog hf., Nesjavellir hf. og þetta væri selt eftir atvikum. Þannig mundu menn ná inn feiknamiklum peningum til hagsbóta fyrir ríkið, Reykjavíkurborg og Akureyrarbæ. Ef einhver vill virkja --- segjum að útlendingar komi sem vilji virkja. Þá bara bjóða þeir í viðkomandi foss og borga fyrir orkuna. Og svo gætu þeir dundað við að byggja sínar virkjanir, sín álver og hvað þeir vilja og þeir ættu þetta allt saman og tækju alla áhættu af því. Svona sé ég þetta fyrir mér. Ég sé aftur á móti fyrir mér að ríkið sæi um flutningsleiðirnar þ.e. vegina. Og þeir sem vilja nota þessa vegi, þ.e. kaupendur og seljendur orkunnar. Ef Akraneskaupstaður vill kaupa orku af t.d. Blöndu hf. mundu þeir gera samning sín á milli, af því Blanda býður Akraneskaupstað ódýrustu orkuna, að kaupa tiltekna mikla orku á tilteknum tíma yrðu þeir að borga bensíngjald fyrir veginn sem notaður er þ.e. strenginn sem er þarna á milli og hann er í eigu ríkisins nákvæmlega eins og aðrir vegir. Svona sé ég þetta fyrir mér. Þarna yrði samkeppni, virkileg samkeppi í þessari grein. Þetta er módel sem er að koma upp erlendis og það er þróun sem veldur samkeppni í þessari grein eins og í öðrum greinum. Við höfum fylgst með því undanfarið hvernig samkeppni í lyfjaversluninni veldur stórkostlega bættum kjörum fyrir neytendur, reyndar bara einstaklingana, ekki enn þá fyrir ríkið. Og þessi samkeppni er nauðsynleg og ég ætla að vona að þetta frv. tefji ekki þá þróun sem hefur komið erlendis og vonandi verður hér líka til hagsbóta fyrir neytendur og til að auka samkeppnisstöðu þjóðarinnar í samkeppni við önnur lönd.