Landsvirkjun

Fimmtudaginn 21. nóvember 1996, kl. 22:51:20 (1611)

1996-11-21 22:51:20# 121. lþ. 30.4 fundur 175. mál: #A Landsvirkjun# (arðgreiðslur, skipun stjórnar o.fl.) frv., iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur

[22:51]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki enn að vitna í lögin um Landsvirkjun því ég veit að hv. þm. þekkir þau. Í 13. gr. er þetta fyrirkomulag tryggt. Þetta frv. breytir engu um verðjöfnunina.

Aðeins varðandi einstakar greinar frv. sem snúa að þeim breytingum sem þarna eru gerðar. Það er meira en bara stjórnin, hv. þm., sem verið er að gera breytingar á. Það er ekki rétt að einstakir eignaraðilar geri ekki athugasemdir við stjórnarkjör. Það er samkomulag milli eignaraðila um að fækka stjórnarmönnum úr tíu í sjö. Einstakir eignaraðilar gera síðan ekki athugasemdir við það með hvaða hætti eignaraðilar velja sína fulltrúa í stjórnina og þar er mikill munur á. Endurskoðendur fyrirtækisins sem í dag eru valdir af stjórninni --- stjórnin velur endurskoðendur til að hafa eftirlit með sjálfri sér. Sú breyting er gerð nú að aðalfundur fyrirtækisins velur endurskoðendur og það eru eigendurnir sem mæta til aðalfundar sem velja endurskoðendurna. Greiðsla arðs gæti núna verið tekin af stjórn fyrirtækisins. Á hvaða forsendum? Þær forsendur eru ekki til staðar. Í framtíðinni þegar það fyrirkomulag er komið á sem frv. gerir ráð fyrir þá er það aðalfundurinn eins og í hlutafélögum sem tekur ákvörðun um hverjar arðgreiðslurnar eru og þá miðað við þær forsendur og stefnumótun sem átt hefur sér stað af hálfu eigenda. Þannig að allar þessar breytingar sem frv. gerir ráð fyrir eru nauðsynlegar til að ná þeim markmiðum sem eigendur fyrirtækisins hafa sett sér með því samkomulagi um sameignarsamninginn sem gert hefur verið.