Starfsemi ÁTVR

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:08:19 (1615)

1996-12-02 15:08:19# 121. lþ. 32.1 fundur 116#B starfsemi ÁTVR# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:08]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Hér á landi fer Áfengis- og tóbaksverslunin með einkaleyfi á innflutningi og verslun með áfengi og tóbak. Það er nokkuð sérstakt þegar miðað er við nágrannalöndin því að ég hygg að hvergi á Norðurlöndum a.m.k. og þó víðar sé leitað sé um að ræða einkaleyfi ríkis á innflutningi og dreifingu á tóbaki.

Ég vil að það komi fram að af minni hálfu er í undirbúningi, hefur reyndar verið til um nokkurt skeið frv. í fjmrn. sem gerir ráð fyrir að þessi starfsemi flytjist frá ríkinu og gjald verði sett á tóbak í tolli eins og gerist núna með áfengi og að dreifingin eigi sér stað með öðrum hætti heldur en nú er, enda fæst tóbak á mjög mörgum stöðum á landinu, í matvöruverslunum, sjoppum og nánast hvar sem er eins og menn þekkja. Mín skoðun er sú að það sé betra fyrir tóbaksvarnir í landinu að nota verð til þess að koma í veg fyrir það að fólk reyki eða varna því að fólk byrji að reykja og eins megi gjarnan taka tillit til innihalds tóbaksins, svo sem tjöru og nikótíns, þegar um þetta mál er fjallað. Ég hef beðið stjórn Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins um að skoða fyrirliggjandi frv. auk þess sem það frv. hefur verið sent til heilbrrn. Ég vonast til þess að hægt verði á yfirstandandi þingi að flytja frv. og þá mun að sjálfsögðu koma í ljós hvers efnis það er.