Starfsemi ÁTVR

Mánudaginn 02. desember 1996, kl. 15:11:43 (1617)

1996-12-02 15:11:43# 121. lþ. 32.1 fundur 116#B starfsemi ÁTVR# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur

[15:11]

Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkrum vikum var rætt mikið um þessi mál hér á hinu háa Alþingi. Þá komu fram upplýsingar vegna þess að verið var að breyta eða réttara sagt búa til nýjar innkaupareglur fyrir tóbak en þær reglur höfðu ekki verið til. Áður hafði reglan eingöngu verið sú að forstjórinn gat sagt nei eða já og þurfti ekki að gera frekari grein fyrir sínum skoðunum. Okkur var ljóst eftir að hafa skoðað málið mjög rækilega að slík regla stóðst ekki íslensk lög.

Öllum pappírum varðandi þetta mál hefur verið dreift til þingmanna þar á meðal til heilbrn. sem ég veit að hefur að einhverju marki fjallað um þetta mál. Mér finnst það vera eðlilegasta niðurstaðan eftir það sem á undan er gengið að láta á það reyna hvort ekki sé rétt að stíga skrefið til fulls. Ég lýsi því sérstaklega yfir hér að með því er alls ekki verið að lina varnir ríkisins í þessum málum, síður en svo, því að eftir sem áður er það verðið fyrst og fremst sem ræður því hvort fólk reykir eða byrjar að reykja.